Quesadillur með guacamole
Við höfum fengið marga góða gesti til okkar undanfarið og sökum þess hef ég ekki sett inn neinar færslur undanfarið. Á móti kemur er að tölvan mín er að verða sneisafull af uppskriftum og myndum af réttum sem bíða þess að rata á netið. Það ætti líka að færast smá hasar í eldamennskuna hjá mér því að pabbi minn elskulegur (sem var einn af gestum okkar) gaf mér margt nýtt í eldhúsið þar á meðal handknúna pastavél(!). Ég er reyndar ekki búin að nota hana ennþá en ég hlakka mikið til og auðvitað læt ég ykkur vita hvort ég geti notað vélina án þess að leggja eldhúsið í rúst.
Ég er búin að vera alveg háð þessari uppskrift í rúmt ár. Hún er einstaklega fljótleg og það er hægt að breyta henni auðveldlega eftir því hvað er til í ísskápnum. Ef þú átt afgangskjöt frá því deginum áður þá getur þú rifið það niður og notað það sem fyllingu ásamt osti (sem verður alltaf að vera með svo að þær límist saman), lauk, jalapeno í krukku og í raun hverju sem þér dettur í hug. Ég sá fyrst quesadillur með hráskinku í bókinni hennar Nígellu (Nigella með hraði) og þó að hráskinkan er dýr þá verða quesadillurnar alveg ómótstæðilega góðar. Á myndinni hér fyrir neðan hef ég notað tvær hráskinkur á hverja tortillu en það er auðvitað hægt að spara skinkuna og nota bara eina sneið. Það er líka mjög gott að nota kóríander í fyllinguna til að hressa aðeins upp á ostinn og kjötið.
Ég læt líka fylgja með uppskrift að guacamole. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst guacamole úr krukku alveg hrikalega óspennandi. Þetta er yfirleitt ljósgrænt bragðlaust sull sem á ekkert skylt við ferskt guacamole. Fólk hefur reyndar ólíkar skoðanir um hvernig ferskt guacamole á að vera, sumir vilja hafa það alveg kekkjalaust en aðrir (ég þar á meðal) vilja hafa það gróft með greinilegum tómat- og laukbitum. Það sem þarf að passa mjög vel þegar guacamole er blandað er að öll hráefni séu fersk og að avókadóinn sé alveg þroskaður. Avókadóinn dökknar hratt og þess vegna verður maður að búa til guacamole stuttu áður en það er borið fram. Til þess að forðast snertingu við súrefni þá er gott að setja plastfilmu yfir skálina.
Quesadillur með hráskinku og kóríander
- 6 tortillur
- 12 sneiðar af hráskinku (6 ef þú notar bara eina á hverja tortillu)
- 1 meðalstór jalapeno*, smátt saxaður
- 3 vorlaukar, skornir**
- 1 lúka ferskt kóríander, rifið eða gróflega saxað
- 200 g rifinn ostur
*Þú getur líka notað annars konar chili eftir því hvað er til og hvað þú vilt hafa sterkt bragð. Jalapeno úr krukku virkar líka mjög vel í þennan rétt.
**Aðrir laukar virka líka, þú vilt samt að laukurinn sé með milt bragð. Hvítur laukur eða graslaukur eru góðir valkostir.
Aðferð:
Leggið tvær hráskinkusneiðar yfir tortilluna. Stráið lítilli lúku af osti yfir helminginn af tortillunni og skellið lauk, chili og kóríander á ostinn. Leggið tortilluna saman.
Hitið pönnu á meðalháum hita.
Smyrjið tortilluna með smá ólívuólíu og setjið hana á pönnuna, smurðu hliðina niður. Smyrjið hinn helminginn með ólívuolíu og snúið tortillunni við þegar neðri hliðin er farin að brúnast.
Quesadillan er tilbúin þegar báðar hliðarnar hafa brúnast og osturinn er bráðnaður.
fyrir 3 – 4
Guacamole
- 3 avókadó
- 1/2 stór hvítur laukur, saxaður
- 2 meðalstórir tómatar, skornir í teninga
- 2 msk chili, saxað
- 1 hnefafylli ferskt kóríander, gróft saxað
- Safi úr 1 límónu
- 1 1/2 tsk gróft salt (eða eftir smekk)
Aðferð:
Skerið avókadóana í helminga og fjarlægið steininn. Skafið kjötið úr og stappið það síðan saman. Bætið lauk, tómötum, chili, kóríander, límónusafa og salti við. Smakkið til.
Ég borðaði aldrei Guacamole af því að krukkugumsið var það eina sem ég hafði smakkað og það er alveg eins á bragðið og þú lýstir því.
En hérna, hvað eru tvær matskeiðar af chili? Er það 1 aldin? Eða kannski tvö?
Það fer algjörlega eftir því hvers konar chili þú ert að nota. Ef þú kaupir þessi mjóu löngu sem til eru græn og rauð í flestum matvöruverslunum heima þá ætti eitt aldin að nægja. Ég myndi bara saxa það niður, setja smá út í í einu og smakka þetta til. Chili eru svo ótrúlega ólík og missterk á bragðið þannig að það er gott að reyna að finna út magn með því að smakka oft.
En eitt stykki ætti að vera nóg :)
Mmmm… þetta er best!! Nema þau eru hætt að selja gott salsa á íslandi. Þetta er allt milt drasl
Hvurslags! Ég skal setja inn uppskrift fyrir gott sterkt ferskt salsa bráðlega.
Ég get vottað að þetta var hrikalega góðar quesadillur og guacamolið er snilld. Svo má geta þess að tortillurnar komu frá Trader Joe’s, og voru margfallt betir en þær tortillur sem fást í verslunum á Íslandi. Kannski maður fari að gera tortillurnar sjálfur.
Ég hlakka mikið til að sjá hvernig pastað úr pastapressunni lukkast,
Já tortillurnar úr TJs eru svo góðar! Þær líka ekki stappfullar af rotvarnarefnum.
Og Embla ég vildi benda þér á að við Raggi fengum rosa gott tjönkí og bragðmikið salsa á amerískum dögum í Hagkaup, reyndar ekki alveg nógu spicy fyrir minn smekk en það var líka bara merkt medium. En það er ísí písí að gera ferskt salsa og ógeðslega gott :-D
Og svo er líka hrikalega gott að setja smá ferskan hvítlauk í svona guacamole ;-)
Annað tortilla hint – það eru komnar nýjar tortillur í krónuna, mun ódýrari en casa fiesta dótið og miklu mýkri og betri! ;-) Man ekki nafnið en þær eru samt útlenskar
Vá – geðveik uppskrift og góð tips út um allt. Brilliant alveg. Svo ég komi með eitt þá er mjög sniðugt að geyma steininn úr avocado-inu og smella með í gvakamóleið því þá verður það eigi brúnt.
Auður þetta er snilld! Prófa það næst því það er svo leiðinlegt þegar þetta verður brúnt áður en maður nær að klára það.