Skip to content

Posts from the ‘Mexíkóskt’ Category

Tacos með kjúklingi og salsa fresca

Júnímánuður í stórborginni er frekar frábær tími. Hitastigið er alveg mátulegt, stundum leikur ljúf gola við mann og þegar hitinn magnast þá kemur þrumuveður með tilheyrandi rigningu og kælir allt niður aftur. Við erum að njóta síðustu dagana okkar í borginni og reynum að vera dugleg að hitta vini og skoða nýja (og gamalkunna) staði. Í gær fórum við aftur á Brighton Beach (við Coney Island) og leyfðum Þórdísi að horfa út á hafið og leika sér í sandinum. Coney Island er stórkostlega skemmtilegur staður á sumrin. Það er mikið af alls konar fólki, leiktækin í Luna Park ganga langt fram á kvöld og á föstudagskvöldum er vikuleg flugeldasýning. Hafgolan er líka kærkomin á heitum dögum.

En þegar hlýtt er í veðri og mann langar eingöngu til að vera úti þá getur eldamennskan setið á hakanum. Við höfum ekki getað reitt okkur á loftkælinguna til þessa og því hef ég hikað við að standa yfir gaseldavélinni eða kveikja á ofninum. Lausn mín á þessum vanda er að búa til þessar einföldu kjúklingatacos. Ég kaupi tilbúinn kjúkling úti í búð og ríf hann niður. Sneiði síðan radísur og avókadó. Pækla rauðlauk og saxa ost. Svo bý ég til salsa fresca (ferska salsasósu). Úr verður ótrúlega einfaldur en ferskur og ljúffengur mexíkósur matur. Með þessu drekkur Elmar léttan bjór en ég blanda mér margarítuna mína.

Í Bandaríkjunum er mjög auðvelt að kaupa litlar tortillur úr maís sem ég glóða á gaseldavélinni. Áður en ég flutti hingað út hélt ég að tacos væri alltaf borið fram í þessu stökku skeljum sem molna strax og maður bítur í þær. Það má auðvitað nota stærri tortillurnar í þennan rétt.

SJÁ UPPSKRIFT

Carnitas / Mexíkóskt flatbrauð með hægelduðum svínahnakka

Ég held að ég sé búin að bera lof á járnsteypupottinn minn oft og mörgum sinnum á þessu bloggi. Hann er eitt uppáhaldsbúsáhaldið mitt og við höfum eldað margt skemmtilegt saman. Járnsteypupottar eru frábærir því þeir henta á allar hellur, það má setja þá inn í ofn, þeir dreifa hitanum jafnt og botninn á þeim er svo þykkur að það brennur sjaldan við hann. Ég hreinlega veit ekki hvar ég væri án hans. Þannig að ég myndi hiklaust mæla með að fjárfesta í einum slíkum ef þið eigið ekki einn fyrir. Það er hægt að kaupa þá mjög dýra (eins og frá fínu Le Creuset línunni) eða ágætlega ódýra (því IKEA klikkar ekki).

Ég er yfir mig ánægð með þennan rétt. Hann er fyrirhafnarlítill en svo bragðgóður að ég hefði auðveldlega getað blekkt Elmar og sagt að ég hafi staðið sveitt í eldhúsinu allan daginn. En í staðinn fór ég í búðina, keypti svínahnakka og henti honum niðurbútuðum í fallega rauða pottinn minn ásamt sítrussafa og smá kryddi (næst ætla ég að sleppa safanum og nota bjór í staðinn) og gleymdi því þar í svona þrjá tíma. Þegar kjötið var tilbúið var það svo meyrt að það datt í sundur þegar ég lyfti því úr pottinum. Við röðuðum því ásamt öðru meðlæti á mjúkar litlar hveitikökur og hámuðum allt í okkur þar til við stóðum á blístri.

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með graskeri og glóðaðri papriku

Ég er mjög hrifin af quesadillum. Þær eru góð leið til að nýta afganga, frábær afsökun til að borða bráðinn ost á brauðmeti og taka enga stund að matreiða. Í þetta sinn átti ég afgang af graskeri frá því að ég bjó til þennan pastarétt og leitaði uppi sniðuga leið til að nýta restina. Að lokum fann ég þessa uppskrift hjá Smitten Kitchen (Deb klikkar aldrei) og rótaði í frystinum okkar í leit að mexíkóskum hveitikökum.

Quesadillur eru sáraeinfaldar. Fyllingin er dreifð yfir hálfa hveitikökuna, osti stráð yfir, helmingnum lokað, penslað með smá ólívuolíu eða smjöri og steikt á heitri pönnu. Olían gerir það að verkum að hveitikakan myndar stökka og gyllta skorpu utan um heita fyllinguna. Osturinn bráðnar og límir hveitikökuna saman og gefur fyllingunni aðeins syndsamlegra bragð.

Okkur finnst best að borða quesadillurnar okkar með sterku salsa, fersku guacamole og (stundum) sýrðum rjóma. Það er líka gott að eiga þær í nesti því þær eru góðar kaldar og eru auðveldur fingramatur.


SJÁ UPPSKRIFT

Enfrijoladas með kjúklingi og geitaosti

Ég er svolítið veik fyrir mexíkóskum mat. En þrátt fyrir að búa í Bandaríkjunum, í einni stærstu borg í heimi sem er full af Mexíkóum þá er New York fræg fyrir að vera með lélega mexíkóska veitingastaði. Nú hef  ég kannski ekki mikið til að byggja samanburðinn á (annað en að hafa alltaf bara fengið ,,allt-í-lagi“ mexíkóskan mat hérna) en fólk frá Vesturströndinni segir að þetta sé staðreynd. Ég hef því einsett mér að prófa mig áfram í eldhúsinu í þessari matargerð í vetur og þessar enfrijoladas voru frumfraunin. Enfrijoladas eru tegund af enchilada sem eru tortillur vafðar utan um fyllingu með sósu. Þessar eru kallað enfrijoladas því þær eru bornar fram með baunasósu en ekki chilisósu, frijol þýðir víst baun á spænsku.

Rétturinn kom vel út en ég hefði viljað vera með aðeins margslungnara bragð af sósunni. Þetta getur hafa gerst af því að ég átti ekki ferskan chilipipar, fann hvergi chipotle [reyktur jalapeno] og gluðaði í staðinn einhverri habanerosósu úr ísskápnum í sósuna. Ekki fylgja þeim leik eftir. En rétturinn var ódýr, fljótlegur og auðveldur í matreiðslu. Hann var líka einstaklega seðjandi og mjög bragðgóður.

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með sveppum, spínati og geitaosti

Í fyrsta skipti í langan tíma þá er ég komin í tveggja daga helgarfrí. Eftir marga mánuði af atvinnuleysi, eirðarleysi og (alltof, alltof) mörgum klukkutímum af matarbloggshangsi þá tók ég þá ákvörðun að fara að vinna aftur í litlu hryllingsbókabúðinni. Það er nefnilega alveg með ólíkindum hvað það er erfitt fyrir útskrifaðan heimspeking með fáránlegt eftirnafn að fá svo lítið sem viðtal á vinnumarkaði New York.

Það er samt gott að hitta gömlu vinnufélagana (þá örfáu sem eftir eru) og fá sögur af öllu því ótrúlega sem viðgengst í búðarheimi Bandaríkjamanna – þar sem snarklikkaðir eigendur og yfirmenn ganga lausum hala og stéttarfélögin lyfta ekki litla fingri til að hjálpa þeim sem leita á náðir þeirra. Kannski mun ég segja söguna af því þegar eigandinn kýldi mann í andlitið því hann hafði (saklausan) viðskiptavininn grunaðan um búðarhnupl eða þegar hann rak starfsmann fyrir þær sakir að hafa tapað fyrir honum í póker. Því trúið mér, sögurnar eru endalausar og misjafnlega fallegar.

Ég er samt afskaplega róleg þar sem vinnan er tímabundin þar til við leggjumst í örflutninga til Bergen. Við skulum bara vona að ég verði hvorki kýld né rekin fyrir undarlegar sakir. Ég á örugglega eftir að gera ykkur pirruð á því að minna ykkur á að Ísland er eiginlega frábær staður fyrir vinnandi fólk – ef minnið skyldi vera að hrjá ykkur þaðeraðsegja.

En ég er ekki ennþá farin að tala um matinn sem ég eldaði í kvöld. Sem er synd og skömm því að þetta var auðveldasta quesadilluveisla sem ég hef galdrað fram (með hjálp Ree), sem var líka eins gott því að félagslíf okkar hjóna er búið að vera svo skrautlegt og skemmtilegt þessa helgi að ég átti erfitt með að fara fram úr rúminu og ennþá erfiðara með að labba út í búð og velja hráefni. Lúxusvandamál? Kannski.

En í fyllstu alvöru þá eru þessar quesadillur svo góðar að ég á erfitt með að hugsa til þess að afgangurinn fari í nestispakkann hans Elmars og ég þurfi að sitja eftir quesadillulaus á morgun. Sveppirnir og spínatið er steikt upp úr smjöri (namm) og hvítvíni (namm!) og svo er öllu raðað á hveitibökuna og skellt á pönnu í stutta stund. Einfalt, fljótlegt og svo gott að ég held ég fái aldrei nóg.

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með guacamole

Við höfum fengið marga góða gesti til okkar undanfarið og sökum þess hef ég ekki sett inn neinar færslur undanfarið. Á móti kemur er að tölvan mín er að verða sneisafull af uppskriftum og myndum af réttum sem bíða þess að rata á netið. Það ætti líka að færast smá hasar í eldamennskuna hjá mér því að pabbi minn elskulegur (sem var einn af gestum okkar) gaf mér margt nýtt í eldhúsið þar á meðal handknúna pastavél(!). Ég er reyndar ekki búin að nota hana ennþá en ég hlakka mikið til og auðvitað læt ég ykkur vita hvort ég geti notað vélina án þess að leggja eldhúsið í rúst.

Ég er búin að vera alveg háð þessari uppskrift í rúmt ár.  Hún er einstaklega fljótleg og það er hægt að breyta henni auðveldlega eftir því hvað er til í ísskápnum. Ef þú átt afgangskjöt frá því deginum áður þá getur þú rifið það niður og notað það sem fyllingu ásamt osti (sem verður alltaf að vera með svo að þær límist saman), lauk, jalapeno í krukku og í raun hverju sem þér dettur í hug. Ég sá fyrst quesadillur með hráskinku í bókinni hennar Nígellu (Nigella með hraði) og þó að hráskinkan er dýr þá verða quesadillurnar alveg ómótstæðilega góðar. Á myndinni hér fyrir neðan hef ég notað tvær hráskinkur á hverja tortillu en það er auðvitað hægt að spara skinkuna og nota bara eina sneið. Það er líka mjög gott að nota kóríander í fyllinguna til að hressa aðeins upp á ostinn og kjötið.

Ég læt líka fylgja með uppskrift að guacamole. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst guacamole úr krukku alveg hrikalega óspennandi. Þetta er yfirleitt ljósgrænt bragðlaust sull sem á ekkert skylt við ferskt guacamole. Fólk hefur reyndar ólíkar skoðanir um hvernig ferskt guacamole á að vera, sumir vilja hafa það alveg kekkjalaust en aðrir (ég þar á meðal) vilja hafa það gróft með greinilegum tómat- og laukbitum. Það sem þarf að passa mjög vel þegar guacamole er blandað er að öll hráefni séu fersk og að avókadóinn sé alveg þroskaður. Avókadóinn dökknar hratt og þess vegna verður maður að búa til guacamole stuttu áður en það er borið fram. Til þess að forðast snertingu við súrefni þá er gott að setja plastfilmu yfir skálina.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: