Enfrijoladas með kjúklingi og geitaosti

Ég er svolítið veik fyrir mexíkóskum mat. En þrátt fyrir að búa í Bandaríkjunum, í einni stærstu borg í heimi sem er full af Mexíkóum þá er New York fræg fyrir að vera með lélega mexíkóska veitingastaði. Nú hef ég kannski ekki mikið til að byggja samanburðinn á (annað en að hafa alltaf bara fengið ,,allt-í-lagi“ mexíkóskan mat hérna) en fólk frá Vesturströndinni segir að þetta sé staðreynd. Ég hef því einsett mér að prófa mig áfram í eldhúsinu í þessari matargerð í vetur og þessar enfrijoladas voru frumfraunin. Enfrijoladas eru tegund af enchilada sem eru tortillur vafðar utan um fyllingu með sósu. Þessar eru kallað enfrijoladas því þær eru bornar fram með baunasósu en ekki chilisósu, frijol þýðir víst baun á spænsku.
Rétturinn kom vel út en ég hefði viljað vera með aðeins margslungnara bragð af sósunni. Þetta getur hafa gerst af því að ég átti ekki ferskan chilipipar, fann hvergi chipotle [reyktur jalapeno] og gluðaði í staðinn einhverri habanerosósu úr ísskápnum í sósuna. Ekki fylgja þeim leik eftir. En rétturinn var ódýr, fljótlegur og auðveldur í matreiðslu. Hann var líka einstaklega seðjandi og mjög bragðgóður.
Enfrijoladas með kjúklingi og geitaosti
(Uppskrift frá What’s Cooking Mexico)
- 1 1/2 bolli [350 ml] pinto baunir, eldaðar
- 2 litlir tómatar
- 1/4 hvítur laukur
- 1 hvítlauksgeiri
- 1 chilipipar [chipotle ef mögulegt]
- 50 ml kjúklingasoð, ef þið viljið þynna sósuna
- salt og pipar
- 115 g geitaostur
- 1 avókadó, skorinn í sneiðar
- sýrður rjómi
- 12 tortillur, litlar
- 2 – 4 mk grænmetisolía
- 1 kjúklingabringa eða 2 kjúklingalæri, elduð og rifin niður
- 1/4 hvítur laukur, saxaður
- 1/2 hvítlauksgeiri, saxaður fínt
Aðferð:
Setjið baunir, tómata, lauk, hvítlauk, chili og smá kjúklingasoð (ef blandan er mjög þykk) í blandara eða matvinnsluvél og vinnið í mauk.
Setjið sósuna í meðalstóran pott og hitið yfir meðalháum hita þar til suðan kemur upp. Lækkið hitann og leyfið að malla í 15 mínútur. Bætið við salti og pipar ef þarf. Bætið við kjúklingasoði ef ykkur finnst sósan of þykk. Setjið til hliðar.
Setjið lauk á pönnu ásamt 1 msk af grænmetisolíu og steikið þar til laukurinn verður glær. Bætið hvítlauknum og eldaða kjúklingnum saman við og steikið þar til kjúklingurinn hefur tekið á sig svolítið brúnan lit.
Bætið 3 msk af baunasósu saman við og blandið vel saman. Bætið við salti og pipar ef þarf.
Hitið 1 msk af olíu á annarri pönnu og steikið tortillurnar eina í einu og setjið til hliðar.
Smyrjið smá geitaosti á hverja tortillu og setjið smá kjúklingablöndu í miðjuna á hverri tortillu. Vefjið og skiptið á 4 diska (3 vefjur á hvern disk). Hellið sósu yfir hvern disk og skreytið með sýrðum rjóma og lárperusneiðum.
Fyrir 4
Þú er með þvílíkt girnilegt blogg!
Takk Ragnar! Og sömuleiðis!
Takk fyrir skemmtielgt blogg og girnilegar uppskriftir!
Takk kærlega fyrir hrósið! Það er svo gott að heyra að fólk hafi gaman af þessu :)