Skip to content

Posts from the ‘Baunir’ Category

Stökkar kryddaðar kíkertur

kíkertur 1

Gleðileg jól öll!

Þetta eru þriðju jólin sem við Elmar eyðum saman í Bandaríkjunum fjarri fjölskyldum okkar. Við höfum alltaf haft það mjög huggulegt og það eru smám saman að myndast vissar jólahefðir hjá okkur. Ég bý til Sörur fyrir jólin, við förum í langan göngutúr á jóladag og við fáum okkur sushi á Þorláksmessu (þó ég viti að eiginmaðurinn muni stinga af í skötu þegar við verðum á Íslandi). Í ár ákváðum við að kaupa okkur nokkra gæðaosta og proscuitto hjá Bklyn Larder til að hafa á borðinu yfir daginn á meðan við elduðum og tókum til á aðfangadag. Við erum svo hæstánægð með þessa ákvörðun að við trúum ekki öðru en að þetta verði að langvarandi hefði hjá okkur fjölskyldunni.

kíkertur 3

Ég hafði ætlað mér að hafa ristaðar hnetur með chili og rósmaríni með ostunum en hætti svo við þegar mér fannst við vera búin að eyða nógu miklum fjármunum í jólamatinn. Í staðinn fann ég þessa uppskrift að krydduðum kíkertum (kjúklingabaunum) sem mér fannst mjög spennandi. Það er ekki óalgengt að fá svona á fínni öl- og vínstöðum borgarinnar á meðan maður bíður eftir drykkjunum. Kíkertunum er velt upp úr olíu og kryddum og þær eldaðar í ofni við háan hita þar til þær verða stökkar og fallega gylltar. Þetta er mjög gott snakk með ostum eða bara með víni og bjór á venjulegu þriðjudagskvöldi. Og þar sem dósin af kíkertum kostar bara 99 cent úti í búð hjá okkur þá býst ég við að freistast til að henda þessu reglulega í ofninn.

Við fjölskyldan vonum svo að þið hafið það náðugt yfir hátíðirnar!

kíkertur 2

SJÁ UPPSKRIFT

Enfrijoladas með kjúklingi og geitaosti

Ég er svolítið veik fyrir mexíkóskum mat. En þrátt fyrir að búa í Bandaríkjunum, í einni stærstu borg í heimi sem er full af Mexíkóum þá er New York fræg fyrir að vera með lélega mexíkóska veitingastaði. Nú hef  ég kannski ekki mikið til að byggja samanburðinn á (annað en að hafa alltaf bara fengið ,,allt-í-lagi“ mexíkóskan mat hérna) en fólk frá Vesturströndinni segir að þetta sé staðreynd. Ég hef því einsett mér að prófa mig áfram í eldhúsinu í þessari matargerð í vetur og þessar enfrijoladas voru frumfraunin. Enfrijoladas eru tegund af enchilada sem eru tortillur vafðar utan um fyllingu með sósu. Þessar eru kallað enfrijoladas því þær eru bornar fram með baunasósu en ekki chilisósu, frijol þýðir víst baun á spænsku.

Rétturinn kom vel út en ég hefði viljað vera með aðeins margslungnara bragð af sósunni. Þetta getur hafa gerst af því að ég átti ekki ferskan chilipipar, fann hvergi chipotle [reyktur jalapeno] og gluðaði í staðinn einhverri habanerosósu úr ísskápnum í sósuna. Ekki fylgja þeim leik eftir. En rétturinn var ódýr, fljótlegur og auðveldur í matreiðslu. Hann var líka einstaklega seðjandi og mjög bragðgóður.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: