Sörur
Ég er búin að vera með svo miklar yfirlýsingar um skreytingaræði mitt undanfarið að mér var bent á að kannski væri við hæfi að birta nokkrar myndir af dýrðinni. Við búum í lítilli stúdíóíbúð (28 fermetrum, takkfyrirkærlega) og borgum himinháar fjárhæðir fyrir (fylgifiskur þess að búa í New York). Ég var því mjög tvístígandi hvort ég ætti að tíma að kaupa jólatré og hvort að eitt slíkt myndi ekki hreinlega taka frá okkur dýrmætt pláss. Lausnin blasti svo við okkur þegar við fórum á bændamarkaðinn og sáum knippi af grenigreinum til sölu fyrir vægt verð. Útkomuna sjáið þið hér að ofan og við erum bara ansi sátt með litla ,tréð’.
Reyndar var svo mikið af greinum í vendinum að ég náði að búa til lítinn greniskóg í arninum okkar og hengja upp stakar greinar hér og þar. Í gær varð svo allt í einu mjög kalt og ég tel að Vetur konungur sé endanlega búinn að hrekja haustið á brott. Mandarínur hafa verið skreyttar með negulnöglum, sörur bakaðar, jólaskrauti dreift út um allt og við erum því alveg að verða tilbúin að bjóða jólin velkomin.
Fyrir mér eru sörur bestu jólasmákökurnar. Þær krefjast meiri fyrirhafnar en flestar aðrar smákökur en þær bragðast líka í samræmi við það. Ég studdist við uppskriftina í Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur en breytti henni lítillega svo þær minntu mig meira á sörurnar sem mamma bjó til þegar ég var lítil. Möndlumarenskaka með espressósmjöri og dökkri súkkulaðihúð – ég veit ekki hver á heiðurinn af upprunalegu sörunni en mikið vildi ég geta keypt handa þeim bjór og gammel dansk.
Sörur
(Breytt uppskrift úr Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur)
Smákökurnar:
- 250 g möndlur
- 200 g flórsykur
- 4 eggjahvítur
Smjörið:
- 4 eggjarauður
- 80 g sykur
- 5 msk vatn
- 200 g smjör, ósaltað og við stofuhita
- 2 msk kakóduft
- 2 tsk skyndikaffiduft (ég notaði skyndiespressóduft)
Súkkulaðibráð:
- 300 g súkkulaði, látið bráðna yfir vatnsbaði
Aðferð:
Hitið ofninn í 180C/350F
Byrjið á að búa til smákökurnar. Stífþeytið eggjahvíturnur. Setjið möndlurnar í matvinnsluvél ef þær eru heilar eða sneiddar og vinnið í vélinni þar til þær myljast. Sigtið flórsykurinn yfir möndlurnar og blandið vel saman. Blandið möndlunum varlega saman við eggjahvíturnar, best er að halda eins miklu lofti í eggjahvítunum og mögulegt er.
Takið fram ofnplötu og leggið bökunarpappír ofan á hana. Takið upp teskeið af smákökudeiginu í einu og raðið á ofnplötuna með ágætu millibili (þær eiga eftir að dreifa sér í hitanum). Bakið inni í ofni í 12-15 mínútur.
Takið úr ofninum og leyfið að standa í 2 mínútur. Flytjið þær síðan yfir á grind og leyfið að kólna alveg.
Setjið sykur og vatn í lítinn pott og eldið yfir meðalháum hita þar til sykurinn hefur leysts upp í vatninu. Haldið áfram að sjóða í ca. 10 mínútur til að leyfa sírópinu að þykkna aðeins meira. Slökkvið undir pottinum og leyfið að standa í nokkrar mínútur.
Þeytið eggjarauðurnar vel í meðalstórri skál með handþeytara eða í hrærivél. Hellið sírópinu út í eggjarauðurnar í mjórri bunu og þeytið stanslaust á meðan. Þeytið þar til blandan hefur kólnað og er orðin létt og loftmikil. Bætið því næst smjörinu saman við og þeytið öllu vel saman. Blandið kakó- og kaffiduftinu saman við.
Kælið smjörið vel.
Setjið súkkulaðið yfir vatnsbað og leyfið að bráðna. Hrærið af og til.
Smyrjið þykku lagi af smjörinu á botninn á smákökunum og dýfið þeim síðan í súkkulaðibráðina þannig að kremhliðin á kökunni sé þakin súkkulaði. Setjið á grind eða bakka og leyfið að kólna á köldum stað.
Best er að geyma kökurnar í kæli eða frysti.
Gaman að sjá smá inn til ykkar ! Vildi óska að ég gæti komið í kaffi og Sörur, en hver veit – kannski jólin 2012 ?
En sniðugt að bjóða upp á svona prentun á uppskrift :) mætti ég nýta þessa snilldarhugmynd á síðunni minni?
Auðvitað! :)
Frábært, kærar þakkir! Er að fara breyta útlitinu hjá mér (vonandi til hins betra) en finnst síðan ekki alveg nógu góð hjá mér eins og hún er í dag.
Ég dáist samt mikið að myndatökunni hjá þér, ert svo hugmyndarík og rosalega skarpar og bjartar myndir hjá þér!
Takk kærlega fyrir það! Það breytti eiginlega öllu þegar ég fattaði að það er langbest að taka myndir við dagsbirtu og slökkva á öllum ljósunum sem gætu varpað skrítnum gulum skugga á matinn.
Ég hlakka mikið til að sjá hvernig nýja útlitið verður á síðunni þinni! Mér finnst þú alltaf vera með svo skemmtilegar og flottar skreytingar á kökunum þínum :)
Ákvað í leiðindum og veikindum að reyna einu sinni enn að baka Sörur og ÞAÐ TÓKST! Frábærar á bragðið og útlitið bara normalt og girnilegt (ekki flatt og klesst og ljótt eins og áður). Takk fyrir uppskriftina. Og takk fyrir girnilega bloggið þitt. Við erum mikið að spá í þessu á næturvöktunum á slysó og stundum erum við svo heppin að fá eitthvað bakað eftir þinni uppskrift þar sem ein okkar er óð í kökurnar þínar.
En hvað það er virkilega skemmtilegt að heyra! Takk kærlega fyrir :)