Appelsínuspesíur með súkkulaðibitum
Ég held að ég sé búin að skreyta hvern einasta krók og kima í 28 fm íbúðinni okkar í Brooklyn. Í gær velti ég því fyrir mér að kannski (og bara kannski) væri ég að fara yfir strikið í smekklegheitum og væri orðin ein af þessum jólabrjálæðingum sem kunna sér ekki hóf. En sú hugsun staldraði aðeins við í nokkrar sekúndur því við tóku miklar vangaveltur um hvar í ósköpunum ég ætti að koma fyrir jólatré. Því maður verður að vera með jólatré á jólunum – jafnvel þó það séu bara nokkrar grenigreinar í vasa. Er það ekki?
Ég meina, ég er að minnsta kosti ekki farin að setja Slayer-jólaljósasýningu utan á húsið.
Ég bjó til þessar æðislegu jólasmákökur um daginn. Ég keypti pínkulítið smákökuform í laginu eins og grenitré og skemmti mér mikið við að þróa þessa uppskrift við ljúfa jólatóna og espressó í bolla. Ég er mjög hrifin af appelsínusúkkulaði og ákvað því að rífa appelsínubörk út í súkkulaðismákökudeigið og er ljómandi ánægð með útkomuna. Smákökurnar eru stökkar með miklu smjöri, slatta af súkkulaði og mildu appelsínubragð. Hreinasta afbragð (þó ég segi sjálf frá)!
Appelsínuspesíur með súkkulaðibitum
- 240 g smjör, ósaltað og við stofuhita
- 100 g flórsykur, sigtaður
- 2 eggjarauður, við stofuhita
- 1/8 tsk salt
- 1 tsk vanilludropar
- 150 g dökkt súkkulaði (55%-70%), saxað
- Börkur af 1 appelsínu, rifinn
- 290 g hveiti
Aðferð:
Notið hrærivél eða handþeytara til að þeyta smjörið þar til það verður alveg kekkjalaust. Bætið því næst sigtaða flórsykrinum saman við og hrærið þar til blandan er aftur orðin kekkjalaus. Bætið eggjarauðunum saman við, einni í einu, og hrærið vel á milli þess sem þeim er bætt við. Bætið appelsínuberkinum, saxaða súkkulaðinu, saltinu og vanilludropunum saman við og hrærið þar til það hefur blandast jafnt út í deigið. Bætið því næst hveitinu saman við og hrærið þar til hveitið hefur rétt svo blandast saman við deigið. Slökkvið þá á hrærivélinni og klárið að blanda hveitinu saman við með sleif.
Takið helminginn af deiginu upp úr skálinni og mótið kúlu. Fletjið síðan kúluna eilítið út (þannig að það lítur meira út eins og diskur heldur en bolti), vefjið plastfilmu þétt utan um deigið og setjið inn í ísskáp. [Einnig er hægt að móta deigið í sívalning sem svo er hægt að skera niður í bita áður en bakað er.] Endurtakið með hinn helminginn af deiginu. Geymið í kæli í 1 klukkustund til 3 daga. Ef að deigið er mjög hart og kalt þegar það er tekið úr ískápnum er gott að láta það standa í 20 til 30 mínútur þar til það mýkist eilítið og verður auðveldara að fletja út.
Hitið ofninn í 180C/350F.
Fletjið deigið út þar til það verður 0,2 sm á þykktina. Takið fram smákökumót og þrýstið alveg niður á deigið og flytjið mótaða deigbitann yfir á ofnplötu með bökunarpappír. Endurtakið þar til allt deigið er búið.
Setjið ofnplötuna í kæli í 15 mínútur (það má sleppa þessu þrepi en mér fannst smákökurnar vera stökkari og dreifa minna úr sér í ofni þegar ég kældi útskornu kökurnar fyrst).
Stingið smákökunum inn í ofninn og bakið í 11 – 15 mínútur eða þar til smákökurnar hafa bakast í gegn án þess að taka á sig mikinn lit.
Leyfið að kólna á grind.
Smákökurnar geymast í 4 – 6 daga ef þær eru geymdar í loftþéttum umbúðum við stofuhita. Einnig má geyma þær inn í frysti og leyfa þeim að ná stofuhita áður en þær eru bornar fram, þannig ættu þær að geymast í ca. mánuð.
rosalega girnilegar og flottar….en geymast þær svona stutt ?? ég hef verið að baka smákökurnar í byrjun des og þær verið góðar fram yfir jól! líka spesíurnar sem eru fullar af smjöri.
mig langar nebbl svo að prufa þessa uppskrift og jafnvel setja suðursúkkulaði með appelsínubragði í stað 55-70%
;)
Já, þær kökur sem ég skildi eftir í lokuðum umbúðum við stofuhita fóru að mýkjast eftir svona fjóra daga en þær sem voru inni í ísskáp héldu sér betur. En hitastigið í íbúðinni minni er ansi flöktandi og smákökurnar geymast örugglega ágætlega í búri.
Láttu mig endilega vita hvernig appelsínusúkkulaðið kemur út :)
Geri það ;) við stefnum á bakstur þegar eiginmaðurinn kemur í land því hann er svo helv…laginn við þetta ;)