Jólagjafahugmynd #5: Tvær kornasápur
Ég á erfitt með að trúa hversu lygilega hratt tíminn líður, ég hef varla undan að skrifa þessar jólagjafahugmyndafærslur!
Þessar jólagjafir eru ekki ætar og því spurning hvort þetta á heima á matarbloggi en þar sem báðar sápurnar nota eldhúshráefni þá ætla ég að gera smá undantekningu. Enda finnst mér þetta vera mjög sniðugar jólagjafir. Sápurnar nota glýseról (vegetable glycerin) sem er seigfljótandi efni sem er mikið notað í sápur og aðar snyrtiafurðir. Glýserólið er ekki eins feitt og olíur og því er auðveldara að skola það af líkamanum. En það er hægt að nota jómfrúarolíu, vínsteinsolíu eða kókosolíu í staðinn fyrir glýserólið.
Lofnarblómin er hægt að kaupa í kryddhillunni í Tiger og er selt undir vöruheitinu lavendel. Ég pantaði þurrkuð lofnarblóm á netinu og er ennþá að jafna mig á risapokanum sem ég fékk í pósti. Hann er stærri en hausinn á mér og inniheldur 300 grömm! Kannski ætti ég að fara að leggja það á mig að muna hvað únsan er mörg grömm.
Inga Þórey, ofurduglega vinkona mín, bjó til kaffikornasápuna um daginn en notaði jómfrúarolíu og kókosolíu til helminga í staðinn fyrir glýserólið og sagði það hafa komið mjög vel út. Þannig að ef þið nennið ekki að fara í glýserólleit þá er auðvitað tilvalið að nota það sem hendi er næst. Svo mæli ég með að þið notið bara kaffikorg úr vélinni ykkar í sápuna, endurnýting er víst af hinu góða. Ég er mjög hrifin af báðum tegundunum en held meira upp á sítrónusápuna, enda er ég forfallinn sítrónufíkill.
Kaffi- og lofnarblóma kornasápa
(Breytt uppskrift frá Joy the baker)
- 1/2 bolli sykur
- 3 msk fínmalað kaffi (gott er að nota kaffikorg)
- 3 msk þurrkuð lofnarblóm
- 1/2 bolli glýseról
Aðferð:
Blandið öllu vel saman. Geymið í loftþéttum umbúðum í rúma viku.
Nuddið kornsápunni á hendur og líkama og skolið síðan vel.
Sítrónu kornasápa
(Uppskrit frá Do-It-Yourself)
- 1/4 bolli púðursykur
- tæpur 1 bolli glýseról eða vínkjarnaolía
- 1/4 bolli sítrónubörkur, rifinn
Aðferð:
Blandið öllu vel saman. Geymið í loftþéttum umbúðum í rúma viku.
Nuddið kornasápunni á hendur og líkama og skolið síðan vel.
Næs!
Flott hugmynd! :) Er þetta sápa sem harnar eða fljótandi?
Nú þegar búin að ákveða að gefa svona í jólagjöf :)
Sápan er fljótandi og harðnar ekki :)
Mér finnst þetta matarblogg þitt algjör snilld, hef prófað að elda eftir nokkrum uppskriftum og aldrei verið svikin af útkomunni.
Síðast þegar ég vissi fékkst glýseról í apótekum hér á Íslandi.
Takk kærlega Aðalbjörg! Það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að heyra að uppskriftirnar sem ég birti séu að rata inn í önnur eldhús :)
Og takk fyrir ábendinguna :)