Skip to content

Posts from the ‘Jólagjöf’ Category

Jólagjafahugmynd #7: Súkkulaðihúðaðar saltkringlur

Þá er komið að síðustu jólagjafafærslunni á Eldað í Vesturheimi þetta árið. Þó við séum ekki heima þessi jólin og ætlum bara að vera tvö í litlu Brooklyníbúðinni þá er verkefnalistinn minn orðinn ansi langur og ég hafði vægar áhyggjur að ég myndi ekki geta búið til færslu fyrir ykkur. En þá datt mér þessi snilld í hug. Þetta er einfalt, ódýrt og fljótlegt en samt svo ljúffengt. Salt og súkkulaði passar svo vel saman. Ég veit ekki hvort þetta vandamál háir ykkur en ég get ekki borðað popp án þess að vera með súkkulaði við hendina.

Ég átti poka af litlum saltkringlum en auðvitað er líka prýðilegt að nota gömlu góðu saltstangirnar. Ég notaði blöndu af suðusúkkulaði og 70% súkkulaði en það má auðvitað nota annaðhvort eða mjólkursúkkulaði eða jafnvel hvítt súkkulaði. Brærið súkkulaðið bara yfir vatnsbaði, slökkvið undir pottinum og byrjið svo að dýfa. Leyfið að kólna inn í ísskáp og setjið svo ofan í krukku með fallegum jólaborða. Gæti varla verið einfaldara!

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #6: Einfalt súkkulaðikonfekt

Aðeins rétt rúmar tvær vikur til jóla og ég er farin að eiga aðeins of mikið af konfekti í ísskápnum. Í þetta sinn bjó ég til einhvers konar tegund af konfektkaramellu, hérna úti kalla þeir þetta ,fudge’, sem er smekkfull af súkkulaði. Passið að nota 70% súkkulaði frekar en suðu- eða mjólkursúkkulaði því annars eigið þið á hættu að konfektið verður alltof sætt. Það má líka leika sér með uppskriftina – ég hefði viljað bæta við grófsöxuðum hnetum, það má líka sleppa cayennekryddinu og auka við kanilbragðið eða bara nota önnur krydd.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #5: Tvær kornasápur

Ég á erfitt með að trúa hversu lygilega hratt tíminn líður, ég hef varla undan að skrifa þessar jólagjafahugmyndafærslur!

Þessar jólagjafir eru ekki ætar og því spurning hvort þetta á heima á matarbloggi en þar sem báðar sápurnar nota eldhúshráefni þá ætla ég að gera smá undantekningu. Enda finnst mér þetta vera mjög sniðugar jólagjafir. Sápurnar nota glýseról (vegetable glycerin) sem er seigfljótandi efni sem er mikið notað í sápur og aðar snyrtiafurðir. Glýserólið er ekki eins feitt og olíur og því er auðveldara að skola það af líkamanum. En það er hægt að nota jómfrúarolíu, vínsteinsolíu eða kókosolíu í staðinn fyrir glýserólið.

Lofnarblómin er hægt að kaupa í kryddhillunni í Tiger og er selt undir vöruheitinu lavendel. Ég pantaði þurrkuð lofnarblóm á netinu og er ennþá að jafna mig á risapokanum sem ég fékk í pósti. Hann er stærri en hausinn á mér og inniheldur 300 grömm! Kannski ætti ég að fara að leggja það á mig að muna hvað únsan er mörg grömm.

Inga Þórey, ofurduglega vinkona mín, bjó til kaffikornasápuna um daginn en notaði jómfrúarolíu og kókosolíu til helminga í staðinn fyrir glýserólið og sagði það hafa komið mjög vel út. Þannig að ef þið nennið ekki að fara í glýserólleit þá er auðvitað tilvalið að nota það sem hendi er næst. Svo mæli ég með að þið notið bara kaffikorg úr vélinni ykkar í sápuna, endurnýting er víst af hinu góða. Ég er mjög hrifin af báðum tegundunum en held meira upp á sítrónusápuna, enda er ég forfallinn sítrónufíkill.

SJÁ UPPSKRIFTIR

Jólagjafahugmynd #4: Kókoskaramellur

Ég á erfitt með að trúa hversu hratt tíminn líður og að dagatalið sé farið að sýna desember. Kannski er sérstaklega erfitt að trúa því þegar veðrið hérna er óvenju milt, trén hafa ennþá einhver lauf, sólin skín og hitinn rýkur stundum upp í 20 gráður. Fólk er samt farið að skreyta í hverfinu okkar, jólatré eru seld úti á götu og kaupmennirnir eru byrjaðir að taka upp jólavörurnar. Þetta verða önnur jólin okkar saman í New York og við hlökkum til að taka því rólega og ættleiða vini sem komast ekki til Íslands um jólin. Ég er löngu byrjuð að skipuleggja matseðilinn og mun auðvitað deila uppskriftum með ykkur þegar að því kemur.

Ég bjó til karamellur (aftur) fyrir jólagjafafærslu vikunnar. Þessar karamellur eru mun auðveldari heldur en hinar og það þarf ekki mjög mikla nákvæmni eða sykurhitamæli til að uppskriftin heppnist. Þetta góðgæti er brasilískt að uppruna og er kallað þar brigadeiros. Uppistaðan er aðallega mjólk og smá síróp. Ég gat ekki fylgt uppskriftinni nákvæmlega eftir þar sem niðursoðna mjólkin í Bandaríkjunum er mun þynnri en sú brasilíska og því var eldunartíminn minn aðeins lengri (ég geri athugasemd við þetta í uppskriftinni). Útkoman er afar mjúk mjólkurkaramella með kókoskeim –  ef þið viljið hafa mikið kókosbragð þá er gott að skella smá kókosmjöli með í pottinn þegar karamellan er elduð.  Konfektið geymist best í kæli og það á að bera það fram við stofuhita (en mér finnst reyndar best að borða það beint úr kælinum).

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #3: Ristaðar chílehnetur með rósmaríni

Ég er svolítið sein með þessa færslu því ég er búin að liggja í flensu í óralangan tíma. Ég reif mig framúr rúminu síðasta fimmtudag og skellti í mig einu staupi af bourbon til að hafa orku til að elda þakkargjörðarmat með Elmari og mæta með réttina okkar þrjá í mjög skemmtilegt matarboð (meira um það seinna). En, eins og ég hefði átt að gera mér fyllilega ljóst, sló mér niður aftur og ég flakkaði á milli sófans og rúmsins í allan gærdag. Og mikið afskaplega er það óendanlega leiðinlegt.

Þessi uppskrift er virkilega einföld og fljótlega gerð. Hún ætti því að vera sniðug fyrir þá sem eiga eftir einhverjar jólagjafir á Þorláksmessu og hreinlega geta ekki hugsað sér að ramba á milli búða til að finna eitthvað. Hneturnar eru líka ljómandi ljúffengar, góðar með jólabjór og sérstaklega hentugt partísnakk. Íbúðin okkar ilmar eins og rósmarín og ristaðar hnetur núna og mig er farið að klæja í fingurna að fá að hengja upp það litla jólaskraut sem við eigum.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #2: Granóla með súkkulaðibitum

Ég er farin að hlakka mikið til jólanna. Það gerist yfirleitt þegar sólin hverfur fyrir klukkan fimm á daginn að ég finn fyrir mikilli þörf til að hengja upp lítil jólaljós alls staðar og kveikja á kertum. Ég hef aldrei kunnað vel við myrkrið sem fylgir vetrartíðinni og þó ég sé flutt frá Íslandi þá finnst mér ljósið of skammlíft í New York. Nú neyðist ég til að draga djúpt andann og herða mig – mér leiðist veturinn óskaplega.

En þrátt fyrir vetrarfælni mína þá þykir mér afskaplega vænt um jólin. Ef jólanna nyti ekki við þá væri ég búin að gefast upp í byrjun desember. Það er því sérstaklega upplífgandi að halda áfram með jólagjafafærslurnar. Í þessari viku bjó ég til granóla. Granóla er mjög einfalt og mér finnst þessi uppskrift eiga vel við jólin – kanilkryddað með súkkulaðibitum og þurrkuðum trönuberjum. Það er hægt að skipta út súkkulaðibitunum og trönuberjunum fyrir annað gúmmelaði, nota heslihnetur í staðinn fyrir möndlur, skipta út hlynsírópinu fyrir hunang – möguleikarnir eru margir. Það má borða það út í mjólk eða súrmjólk eða sem snakk beint upp úr krukkunni. Það er gott að stinga því í poka og nota sem nasl í fjallgöngur (eða aðrar göngur). Þetta er því tilvalin gjöf fyrir göngumanninn eða handa þeim sem kunna að meta góðan morgunmat.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: