Jólagjafahugmynd #7: Súkkulaðihúðaðar saltkringlur
Þá er komið að síðustu jólagjafafærslunni á Eldað í Vesturheimi þetta árið. Þó við séum ekki heima þessi jólin og ætlum bara að vera tvö í litlu Brooklyníbúðinni þá er verkefnalistinn minn orðinn ansi langur og ég hafði vægar áhyggjur að ég myndi ekki geta búið til færslu fyrir ykkur. En þá datt mér þessi snilld í hug. Þetta er einfalt, ódýrt og fljótlegt en samt svo ljúffengt. Salt og súkkulaði passar svo vel saman. Ég veit ekki hvort þetta vandamál háir ykkur en ég get ekki borðað popp án þess að vera með súkkulaði við hendina.
Ég átti poka af litlum saltkringlum en auðvitað er líka prýðilegt að nota gömlu góðu saltstangirnar. Ég notaði blöndu af suðusúkkulaði og 70% súkkulaði en það má auðvitað nota annaðhvort eða mjólkursúkkulaði eða jafnvel hvítt súkkulaði. Brærið súkkulaðið bara yfir vatnsbaði, slökkvið undir pottinum og byrjið svo að dýfa. Leyfið að kólna inn í ísskáp og setjið svo ofan í krukku með fallegum jólaborða. Gæti varla verið einfaldara!
Súkkulaðihúðaðar saltkringlur
- 200 g litlar saltkringlur
- 100 g suðusúkkulaði
- 100 g 70% súkkulaði
Aðferð:
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og hrærið reglulega. Slökkvið undir pottinum.
Dýfið hálfri saltkringlu ofan í súkkulaðibráðina og leyfið súkkulaðinu að leka aðeins af. Setjið á plötu með vax- eða bökunarpappír. Endurtakið þar til allar saltkringlurnar eru búnar.
Leyfið að kólna inni í kæli eða á köldum stað.
Mitt uppáhald!
Oh við Raggi erum alveg kómatós af þreytu og meikum ekki að gera neitt, en verkefnalistinn er langur og vinnudagur væntanlegur á morgun og svo krakkar á útopnu á aðfangadag ;-) Ég held að allir standardar verði snarlækkaðir!