Skip to content

Posts from the ‘Snakk’ Category

Stökkar kryddaðar kíkertur

kíkertur 1

Gleðileg jól öll!

Þetta eru þriðju jólin sem við Elmar eyðum saman í Bandaríkjunum fjarri fjölskyldum okkar. Við höfum alltaf haft það mjög huggulegt og það eru smám saman að myndast vissar jólahefðir hjá okkur. Ég bý til Sörur fyrir jólin, við förum í langan göngutúr á jóladag og við fáum okkur sushi á Þorláksmessu (þó ég viti að eiginmaðurinn muni stinga af í skötu þegar við verðum á Íslandi). Í ár ákváðum við að kaupa okkur nokkra gæðaosta og proscuitto hjá Bklyn Larder til að hafa á borðinu yfir daginn á meðan við elduðum og tókum til á aðfangadag. Við erum svo hæstánægð með þessa ákvörðun að við trúum ekki öðru en að þetta verði að langvarandi hefði hjá okkur fjölskyldunni.

kíkertur 3

Ég hafði ætlað mér að hafa ristaðar hnetur með chili og rósmaríni með ostunum en hætti svo við þegar mér fannst við vera búin að eyða nógu miklum fjármunum í jólamatinn. Í staðinn fann ég þessa uppskrift að krydduðum kíkertum (kjúklingabaunum) sem mér fannst mjög spennandi. Það er ekki óalgengt að fá svona á fínni öl- og vínstöðum borgarinnar á meðan maður bíður eftir drykkjunum. Kíkertunum er velt upp úr olíu og kryddum og þær eldaðar í ofni við háan hita þar til þær verða stökkar og fallega gylltar. Þetta er mjög gott snakk með ostum eða bara með víni og bjór á venjulegu þriðjudagskvöldi. Og þar sem dósin af kíkertum kostar bara 99 cent úti í búð hjá okkur þá býst ég við að freistast til að henda þessu reglulega í ofninn.

Við fjölskyldan vonum svo að þið hafið það náðugt yfir hátíðirnar!

kíkertur 2

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #7: Súkkulaðihúðaðar saltkringlur

Þá er komið að síðustu jólagjafafærslunni á Eldað í Vesturheimi þetta árið. Þó við séum ekki heima þessi jólin og ætlum bara að vera tvö í litlu Brooklyníbúðinni þá er verkefnalistinn minn orðinn ansi langur og ég hafði vægar áhyggjur að ég myndi ekki geta búið til færslu fyrir ykkur. En þá datt mér þessi snilld í hug. Þetta er einfalt, ódýrt og fljótlegt en samt svo ljúffengt. Salt og súkkulaði passar svo vel saman. Ég veit ekki hvort þetta vandamál háir ykkur en ég get ekki borðað popp án þess að vera með súkkulaði við hendina.

Ég átti poka af litlum saltkringlum en auðvitað er líka prýðilegt að nota gömlu góðu saltstangirnar. Ég notaði blöndu af suðusúkkulaði og 70% súkkulaði en það má auðvitað nota annaðhvort eða mjólkursúkkulaði eða jafnvel hvítt súkkulaði. Brærið súkkulaðið bara yfir vatnsbaði, slökkvið undir pottinum og byrjið svo að dýfa. Leyfið að kólna inn í ísskáp og setjið svo ofan í krukku með fallegum jólaborða. Gæti varla verið einfaldara!

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #3: Ristaðar chílehnetur með rósmaríni

Ég er svolítið sein með þessa færslu því ég er búin að liggja í flensu í óralangan tíma. Ég reif mig framúr rúminu síðasta fimmtudag og skellti í mig einu staupi af bourbon til að hafa orku til að elda þakkargjörðarmat með Elmari og mæta með réttina okkar þrjá í mjög skemmtilegt matarboð (meira um það seinna). En, eins og ég hefði átt að gera mér fyllilega ljóst, sló mér niður aftur og ég flakkaði á milli sófans og rúmsins í allan gærdag. Og mikið afskaplega er það óendanlega leiðinlegt.

Þessi uppskrift er virkilega einföld og fljótlega gerð. Hún ætti því að vera sniðug fyrir þá sem eiga eftir einhverjar jólagjafir á Þorláksmessu og hreinlega geta ekki hugsað sér að ramba á milli búða til að finna eitthvað. Hneturnar eru líka ljómandi ljúffengar, góðar með jólabjór og sérstaklega hentugt partísnakk. Íbúðin okkar ilmar eins og rósmarín og ristaðar hnetur núna og mig er farið að klæja í fingurna að fá að hengja upp það litla jólaskraut sem við eigum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: