Skip to content

Stökkar kryddaðar kíkertur

kíkertur 1

Gleðileg jól öll!

Þetta eru þriðju jólin sem við Elmar eyðum saman í Bandaríkjunum fjarri fjölskyldum okkar. Við höfum alltaf haft það mjög huggulegt og það eru smám saman að myndast vissar jólahefðir hjá okkur. Ég bý til Sörur fyrir jólin, við förum í langan göngutúr á jóladag og við fáum okkur sushi á Þorláksmessu (þó ég viti að eiginmaðurinn muni stinga af í skötu þegar við verðum á Íslandi). Í ár ákváðum við að kaupa okkur nokkra gæðaosta og proscuitto hjá Bklyn Larder til að hafa á borðinu yfir daginn á meðan við elduðum og tókum til á aðfangadag. Við erum svo hæstánægð með þessa ákvörðun að við trúum ekki öðru en að þetta verði að langvarandi hefði hjá okkur fjölskyldunni.

kíkertur 3

Ég hafði ætlað mér að hafa ristaðar hnetur með chili og rósmaríni með ostunum en hætti svo við þegar mér fannst við vera búin að eyða nógu miklum fjármunum í jólamatinn. Í staðinn fann ég þessa uppskrift að krydduðum kíkertum (kjúklingabaunum) sem mér fannst mjög spennandi. Það er ekki óalgengt að fá svona á fínni öl- og vínstöðum borgarinnar á meðan maður bíður eftir drykkjunum. Kíkertunum er velt upp úr olíu og kryddum og þær eldaðar í ofni við háan hita þar til þær verða stökkar og fallega gylltar. Þetta er mjög gott snakk með ostum eða bara með víni og bjór á venjulegu þriðjudagskvöldi. Og þar sem dósin af kíkertum kostar bara 99 cent úti í búð hjá okkur þá býst ég við að freistast til að henda þessu reglulega í ofninn.

Við fjölskyldan vonum svo að þið hafið það náðugt yfir hátíðirnar!

kíkertur 2

Stökkar kryddaðar kíkertur

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 2 dósir niðursoðnar kíkertur (kjúklingabaunir)
  • 2 msk jómfrúarolía
  • 2 tsk paprikuduft
  • 1 tsk kúminduft
  • 1 tsk svartur pipar, malaður
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1/4 – 1/2 tsk cayenne pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C/400°F.

Setjið álfilmu á ofnplötu.

Skolið kíkerturnar og látið vatnið renna vel frá.

Setjið í skál og hellið jómfrúarolíunni og kryddinu yfir. Veltið og reynið að þekja baunirnar með kryddblöndunni eins jafnt og þið getið.

Hellið baununum á ofnplötuna og dreifið vel úr þeim.

Bakið inni í ofni í 20 – 30 mínútur, eða þar til baunirnar eru orðnar stökkar og gylltar.

Takið úr ofninum og leyfið að kólna smá.

Berið fram.

[Ég setti allar baunirnar í eina skál og bar fram. Það var ekki mjög góð hugmynd þar sem hitinn frá baununum gerði þær mjúkar aftur. Ég myndi því bera þær fram á diski eða í mörgum litlum skálum.]

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
  1. Girnileg uppskrift sem mig langar að prófa en ég verð að segja að barnið er með því krúttulegasta sem ég hef séð! :) Þessar kinnar!!

    05/01/2013
    • Já hún er algjör hunangsrúsína hún Þórdís :) Endilega prófaðu þessar kíkertur, ég var rosalega ánægð. Nema það er gott að leyfa þeim að kólna svolítið á ofnplötunni, ég setti þær beint í skál þegar þær voru ennþá heitar og þær fóru að mýkjast helst til of mikið.

      08/01/2013
  2. Ég er búin að vera sjá uppskriftir af stökkum kjúklingabaunum víðast hvar á matarbloggum og ákvað að prófa í gær. Rosalega góðar (og ávanabindandi :) en til þess að þær verði alveg nógu stökkar finnst mér þurfa að hafa þær í amk. 40 mín.
    Ertu annars með ráð til að geyma þær? Ég setti þær í nestisbox og svo inní skáp og í dag finnst mér þær aftur vera orðnar frekar mjúkar.. Samt lét ég þær kólna heillengi á bökunarplötunni.

    15/01/2013
    • Ég er því miður ekki með nein ráð til að geyma þær. Ég reyndi að lesa mér til um það en á flestir virðast sammála um að það þurfi að borða þær samdægurs. Kannski ef maður kælir þær alveg og setur síðan í box* að þær geymist í ca. 1 dag(?).
      *Ég las að það sé best að setja álfilmu yfir, bara lauslega þannig að þær fái smá loft.

      15/01/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: