Skip to content

Posts from the ‘Snarl’ Category

Stökkar kryddaðar kíkertur

kíkertur 1

Gleðileg jól öll!

Þetta eru þriðju jólin sem við Elmar eyðum saman í Bandaríkjunum fjarri fjölskyldum okkar. Við höfum alltaf haft það mjög huggulegt og það eru smám saman að myndast vissar jólahefðir hjá okkur. Ég bý til Sörur fyrir jólin, við förum í langan göngutúr á jóladag og við fáum okkur sushi á Þorláksmessu (þó ég viti að eiginmaðurinn muni stinga af í skötu þegar við verðum á Íslandi). Í ár ákváðum við að kaupa okkur nokkra gæðaosta og proscuitto hjá Bklyn Larder til að hafa á borðinu yfir daginn á meðan við elduðum og tókum til á aðfangadag. Við erum svo hæstánægð með þessa ákvörðun að við trúum ekki öðru en að þetta verði að langvarandi hefði hjá okkur fjölskyldunni.

kíkertur 3

Ég hafði ætlað mér að hafa ristaðar hnetur með chili og rósmaríni með ostunum en hætti svo við þegar mér fannst við vera búin að eyða nógu miklum fjármunum í jólamatinn. Í staðinn fann ég þessa uppskrift að krydduðum kíkertum (kjúklingabaunum) sem mér fannst mjög spennandi. Það er ekki óalgengt að fá svona á fínni öl- og vínstöðum borgarinnar á meðan maður bíður eftir drykkjunum. Kíkertunum er velt upp úr olíu og kryddum og þær eldaðar í ofni við háan hita þar til þær verða stökkar og fallega gylltar. Þetta er mjög gott snakk með ostum eða bara með víni og bjór á venjulegu þriðjudagskvöldi. Og þar sem dósin af kíkertum kostar bara 99 cent úti í búð hjá okkur þá býst ég við að freistast til að henda þessu reglulega í ofninn.

Við fjölskyldan vonum svo að þið hafið það náðugt yfir hátíðirnar!

kíkertur 2

SJÁ UPPSKRIFT

Mjúkir granólabitar

Ég hef ekki undan að reyna að búa til einhvers konar snarl til að hafa við hendina þegar óstöðvandi óléttumatarlyst mín lætur til sín heyra. Eplaskonsurnar kláruðust nánast samstundis, allt smálegt sem ég kaupi í matvörubúðinni hverfur fyrir kvöldmat, afgangar kvöldmatarins eru búnir fyrir svefninn og ísskápurinn virðist alltaf álíka tómur og maginn minn. Og ef það er eitthvað sem mér er virkilega illa við þá er það að vera svöng.

Ég hef gert tilraunir til að kaupa granólastangir í pökkum í matvörubúðinni en ég hef komist að því að stangirnar eru litlar, dýrar, langt frá því að vera seðjandi og yfirleitt alltof sætar. Þegar ég sá að Molly á Orangette (sem er einmitt líka ófrísk og á að eiga á svipuðum tíma og ég) er farin að búa til sína eigin granólabita þá ákvað ég að slá til og skella í einn bakka sjálf. Og þetta er miklu betra en litlu innpökkuðu stangirnar í búðinni. Það er hægt að búa til sína eigin bragðblöndu mjög auðveldlega og bitarnir eru  mjúkir, matarmiklir og seðjandi.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: