Skip to content

Mjúkir granólabitar

Ég hef ekki undan að reyna að búa til einhvers konar snarl til að hafa við hendina þegar óstöðvandi óléttumatarlyst mín lætur til sín heyra. Eplaskonsurnar kláruðust nánast samstundis, allt smálegt sem ég kaupi í matvörubúðinni hverfur fyrir kvöldmat, afgangar kvöldmatarins eru búnir fyrir svefninn og ísskápurinn virðist alltaf álíka tómur og maginn minn. Og ef það er eitthvað sem mér er virkilega illa við þá er það að vera svöng.

Ég hef gert tilraunir til að kaupa granólastangir í pökkum í matvörubúðinni en ég hef komist að því að stangirnar eru litlar, dýrar, langt frá því að vera seðjandi og yfirleitt alltof sætar. Þegar ég sá að Molly á Orangette (sem er einmitt líka ófrísk og á að eiga á svipuðum tíma og ég) er farin að búa til sína eigin granólabita þá ákvað ég að slá til og skella í einn bakka sjálf. Og þetta er miklu betra en litlu innpökkuðu stangirnar í búðinni. Það er hægt að búa til sína eigin bragðblöndu mjög auðveldlega og bitarnir eru  mjúkir, matarmiklir og seðjandi.

Granólabitar

(Breytt uppskrift frá Orangette)

  • 160 g hafrar
  • 30 g haframjöl*
  • 65 – 100 g sykur, miðið út sykurmagn út frá hversu sætar þið viljið að stangirnar séu (ég notaði 80 g)
  • 110 g hnetur, gróft saxaðar (ég notaði valhnetur og möndlur)
  • 150 g þurrkaðir ávextir, súkkulaðidropar, kókosflögur (ég notaði þurrkuð trönuber, rúsínur og kókosflögur)
  • 1/2 tsk salt
  • 1/4 tsk kanill
  • 85 g hnetusmjör (ég notaði möndlusmjör)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 85 g smjör, bráðið og við stofuhita
  • 120 g [6 msk] hunang eða hlynsýróp
  • 1 msk vatn

[*Hægt er að setja hafra í matvinnsluvél eða blandara og gera að dufti og nota í staðinn fyrir keypt haframjöl.]

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F. Takið fram ferningslaga bökunarform – 8″x8″ (20cmx20cm) – leggið bökunarpappír ofan í það og smyrjið pappírinn og þær hliðar sem ekki eru huldar pappír.

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál. Blandið vanilludropum, smjöri, hunangi og vatni saman í annarri skál. Hellið blautefnunum yfir þurrefnin, bætið hnetusmjörinu saman við og blandið öllu vel saman.

Hellið granólablöndunni í bökunarformið og þrýstið vel niður og út í hliðarnar. Bakið í 30 – 40 mínútur (skemur í blástursofni) eða þar til granólað er brúnað á hliðunum og farið að gyllast ofan á. Takið úr ofninum og flytjið formið yfir á grind. Leyfið að kólna alveg.

Lyftið granólanu uppúr forminu með því að toga í pappírsendana. Flytjið yfir á skurðarbretti og skerið í 16 ferninga. Ef granólað á það til að molna þegar það er skorið þá er gott að setja það inn í ísskáp í ca. hálftíma til að það þéttist frekar.

Prenta uppskrift

5 athugasemdir Post a comment
  1. Spennandi, ætla að profa þetta við tækifæri.

    08/05/2012
  2. Lilja #

    Vildi bara hrósa þér fyrir frábæra síðu. Ég kem reglulega hingað inn og hef prófað ýmislegt -annað en að skilja eftir svar. Bakaði t.d. súkkulaðibanana“brauð“bombuna þegar ég var kasólétt til þess að eiga í frysti fyrir gesti eftir fæðingu. Ég gerði hana tvisvar…og það var alveg -einn- gestur sem náði að smakka,)

    Aldrei að vita nema ég hendi í eplaskonsur eða ‘granólur’ um helgina!

    10/05/2012
    • Takk kærlega fyrir það Lilja! Þetta súkkulaðibananabrauð er alveg stórhættulegt, það virðist líka hverfa á undraverðum hraða í hvert skipti sem ég bý það til fyrir „gesti“ ;)

      10/05/2012
  3. Þetta eru ægilega góðir granólabitar. Ég prófaði að búa svona til um daginn. Annars vildi ég bara segja skemmtilegt blogg sem þú ert með!

    20/06/2012
    • Takk fyrir það! Ég fylgdi tenglinum yfir á síðuna þína og er yfir mig hrifin af ljósmyndunum þínum. Reglulega fallegt :)

      20/06/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: