Skip to content

Posts from the ‘Bandarískt’ Category

Vöfflur með brúnuðu smjöri

Eftir að ég byrjaði að vinna úti þá hefur fundist minni tími til að sinna blogginu. Ég labba rösklega heim af strætóstoppistöðinni í lok dags og reyni að eyða góðum tíma með Þórdísi á meðan við græjum kvöldmat og svo tekur við kvöldbað hennar og svæfing. Myndavélin liggur ónotuð uppi í hillu og ég verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir nógu miklum innblæstri við myndatöku þegar allt er orðið dimmt og kvöldrútínan rekur á eftir manni.

Það hefur þó margt skemmtilegt gerst undanfarið. Ég fékk að vera með í kökublaði Gestgjafans og bakaði fjórar ljúffengar kökur í tilefni þess. Ég er stóránægð með hvernig tókst til og blaðið er stútfullt af góðum uppskriftum. Ég hef lesið Gestgjafann í fjöldamörg ár og finnst hálfsúrrealískt að þarna í miðju blaði er stór mynd af mér ásamt viðtali. Sérstaklega með tilliti til þess að fyrir fimm árum síðan þorði ég varla að kveikja á ofninum og þurfti að stunda djúpöndun þegar ég átti að elda fyrir aðra.

Ég landaði líka nýrri vinnu sem ég er afar spennt fyrir og get ekki beðið eftir að byrja í. Elmar keypti handa mér blóm daginn sem ég skrifaði undir ráðningarsamning og við héldum upp á það með vínglasi niður í bæ.

Skammdegið er aðeins farið að bíta mig í afturendann og ég finn að ég þarf að venjast aftur myrkrinu sem skellur á alltof snemma og dregur sig í hlé alltof seint. Ég hef þó sett upp jólaseríur og ætla að fara að skreyta íbúðina til að lífga aðeins upp á tilveruna.

Fyrir nokkrum vikum síðan kvartaði ég sáran undan því að hafa ekki fundið hina einu sönnu vöffluuppskrift. Og þó að ég haldi áfram leit minni að fullkomnun þá hef ég staldrað aðeins við þessar vöfflur og búið þær til nokkrar helgar í röð. Þær eru mjög góðar, eilítið stökkar að utan og með bragði af dökkum púðursykri og brúnuðu smjöri. Svolítið syndsamlegar en kaldar og dimmar vetrarhelgar kalla á smá synd og sælu.

SJÁ UPPSKRIFT

Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:

En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.

SJÁ UPPSKRIFT

Bakaðir kleinuhringir með kaffi og súkkulaði

Ég á við smá vandamál að stríða. Uppáhaldskaffihúsið mitt selur kleinuhringi sem eru svo góðir að ég gæti borðað þá í morgunmat á hverjum einasta degi. Þegar ég var ófrísk þá stalst ég ófáum sinnum þangað, keypti mér tvo og skóflaði þeim í mig á leiðinni heim. Amerískir kleinuhringir tvinna saman allt sem mér finnst syndsamlega gott. Allt það sem maður ætti bara borða í hófi. Þeir eru kolvetnisríkir, djúpsteiktir og með sykruðum glassúr. Fyrir mörgum (*hóst*Elmari*hóst*) er þetta of mikið af hinu góða.

Ég hef samt aldrei lagt í að djúpteikja kleinuhringi sjálf. Mér finnst skelfilega leiðinlegt að djúpsteikja og þar sem ég er afskaplega klaufsk þá er ég hálfhrædd við það líka. Þegar ég sá ofnbakaða kleinuhringi hjá Tracy þá hugsaði ég ekki um annað í marga daga. Ég tók loks af skarið og pantaði mér kleinuhringjamót á Amazon og bauð vinkonu okkar í kaffi.

Þessir kleinuhringir voru meira að segja Elmari að skapi! Kleinuhringirnir eru hlaðnir súkkulaði og espressói og glassúrinn er með ríkulegu kaffibragði. Þeir eru svo góðir að ég er hissa á að internetið hafi hreinlega ekki sprungið þegar Tracy birti þá á síðunni sinni. Ef það er eitthvað sem þið ættuð að baka af Eldað í Vesturheimi þá er þetta uppskriftin. Bjóðið svo vinum ykkar í kaffi og berjist um síðustu bitana. 

[* Ég hef lagst í smá rannsóknarvinnu og reynt að finna staði á Íslandi sem selja kleinuhringjamót. Allt í köku selur þá á vefsíðu sinni. Einhver hvíslaði því að mér að hún hafi séð slíkt í Melabúðinni. Ég hef haft samband við Kost og þau eru að íhuga að flytja þau inn.]

SJÁ UPPSKRIFT

Ostakökubrownies

Það er búið að vera mjög gott veður hjá okkur, alveg fáránlega gott. Ég man að fyrsta janúarmánuð okkar hérna úti þá var mikið rok, mikið frost og mikill snjór. Ég átti bara eina ,vetrarskó’ sem voru hriplekir og dugðu engan veginn í allt slabbið og íspollana sem mynduðust við göturnar. Ég vann fyrir lúsarlaun í bókabúð við Columbia og ég tímdi því engan veginn að kaupa mér almennilegan skófatnað. Nannan sem ég er í dag myndi húðskamma þá Nönnu enda eru góðir skór undirstaða þess að líða vel í borg þar sem bílar eru óþarfir.

Þetta góða veður hefur hvatt okkur til að vera meira úti og í gær fórum við í langan göngutúr um Prospect Park í von um að Þórdís myndi sofa í meira en klukkutíma (svona einu sinni). Það gekk ekki eftir en við áttum þó indælan göngutúr þrjú saman í þokunni og logninu. Trén eru ber, grasið er fölt og engin blóm að sjá en á fallegum degi sem þessum þá hefur garðurinn samt mikinn sjarma.

En nóg af veðri því mig langar aðeins til að segja ykkur tildrög þess að ég leitaði þessa uppskrift uppi. Daginn eftir að við komum aftur út til Brooklyn frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá vorum við frekar buguð. Ferðalagið gekk svolítið brösulega, taska týndist og íbúðin okkar var illa útleikinn eftir leigjandann. Við vorum ósofin, á kafi í þrifum, Elmar með ofsafengið ofnæmi og stúlkan okkar var svolítið óvær eftir allt húllumhæið. Þennan dag kom vinkona okkar færandi hendi. Hún hafði keypt alls kyns góðgæti úr sælkerabúð í Williamsburg og meðal þess voru fallegar ostakökubrownies.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er alls ekki hrifin af ostakökum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því. Oft fæ ég mér einn til tvo bita og finnst kakan frábær en svo er eins og allt fari á hraða niðurleið og ég fæ mig ekki til að borða meira en smá smakk. En ostakökudeig og browniedeig bakað saman er eitthvað stórfenglegt. Sætt og súkkulaðimikið browniebragð með óvæntu fersku og eilítið súru bragði frá ostakökunni. Þessar brownies eru svo skuggalega góðar að ég hef stungið þeim inn í frystinn svo ég freistist ekki til þess að borða þær allar í einu. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég hef breytt henni eftir eigin smekk. Ég hef minnkað sykurmagnið allverulega og myndi alls ekki vilja hafa kökuna sætari.

SJÁ UPPSKRIFT

Sveitabaka með ,butternut’graskeri og sætum lauk

Ég er búin að bíða lengi eftir Smitten Kitchen matreiðslubókinni. Það eru komin þrjú ár frá því að Deb tilkynnti að hún væri farin að vinna að bók og ég hef beðið spennt alveg síðan. Bloggið hennar er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er fyrsta matarbloggið sem ég byrjaði að lesa reglulega. Líklega er þetta sú vefsíða sem ég elda hvað mest upp úr enda hefur hún afskaplega sjaldan svikið mig um góða máltíð, hvað þá ljúffengan bakstur. Ég er búin að elda mjög góðan kjúklingarétt upp úr bókinni, reyndi að ofnbaka french toast (sem mistókst hrapallega hjá mér – ekki alveg viss hvers vegna) og ég hef bakað þessa böku tvisvar. Hún er líka alveg ljómandi góð.

butternutgalette1

Eini gallinn við þessa böku er hversu fyrirhafnarmikil hún er. Deb viðurkennir þetta sjálf og hefur því gert uppskriftina svo stóra að hún dugir í alveg þrjár máltíðir fyrir tvo. Mér finnst best að búa til deig fyrir bökur kvöldinu áður og leyfa því að hírast inni í ísskáp yfir nótt. Graskerið þarf að flysja vel, búta niður og baka í ofni. Laukurinn er hægeldaður á pönnu og svo þarf að fletja út deig, blanda fyllinguna og baka bökuna. Sem sagt töluverð fyrirhöfn. En afraksturinn er ljúffengur og bakan er stór og matarmikil.

butternutgalette3

SJÁ UPPSKRIFT

Peruskonsur með súkkulaðibitum

Síðustu daga höfum við fylgst úr fjarska með eyðileggingunni í borginni okkar og heyrt í vinum sem komust allir undan storminum heilir á húfi þó margir séu enn án rafmagns og hita. Hverfið okkar í Brooklyn lenti ekki illa í Sandy þar sem það er langt frá ströndinni og liggur hátt. Það voru aðeins nokkur tré sem féllu og vægar vatnsskemmdir. Við þurfum ekki að kvíða því að koma heim í vatnsfyllta, rafmagnslausa íbúð. Það verður forvitnilegt að sjá hversu fljótt þeir ná að koma lestarsamgöngum aftur á en lestir á Manhattan og samgöngur þeirra til og frá Brooklyn eru í algjörum lamasessi.

Ég ætla að taka smá hlé frá Þakkargjörðaruppskriftunum. Ég hef verið að rembast við að skrifa um matseldina á kalkúninum án þess að komast mikið áfram og ákvað þess í stað að nýta blund Þórdísar í að baka. Þessi uppskrift kemur frá uppáhaldsblogginu mínu, Smitten Kitchen, og ég hef verið að bíða eftir réttu tækifæri til að baka skonsurnar. Ég greip gæsina í dag enda veðrið illskeytt og það brakaði hátt í þakinu undan vindinum. Skonsurnar eru mjög góðar, ofnbakaðar perur, stórir súkkulaðibitar og mikið smjör gera gæfumuninn. Passið að hafa perurnar stífar og aðeins óþroskaðar því ef að perurnar eru mjög safaríkar þá verður deigið of blautt og skonsurnar verða fremur flatar. Best er að borða þær samdægurs og það má auðvitað frysta deigið og baka seinna ef heil uppskrift er of mikið magn fyrir heimilisfólkið.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: