Sveitabaka með ,butternut’graskeri og sætum lauk
Ég er búin að bíða lengi eftir Smitten Kitchen matreiðslubókinni. Það eru komin þrjú ár frá því að Deb tilkynnti að hún væri farin að vinna að bók og ég hef beðið spennt alveg síðan. Bloggið hennar er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er fyrsta matarbloggið sem ég byrjaði að lesa reglulega. Líklega er þetta sú vefsíða sem ég elda hvað mest upp úr enda hefur hún afskaplega sjaldan svikið mig um góða máltíð, hvað þá ljúffengan bakstur. Ég er búin að elda mjög góðan kjúklingarétt upp úr bókinni, reyndi að ofnbaka french toast (sem mistókst hrapallega hjá mér – ekki alveg viss hvers vegna) og ég hef bakað þessa böku tvisvar. Hún er líka alveg ljómandi góð.
Eini gallinn við þessa böku er hversu fyrirhafnarmikil hún er. Deb viðurkennir þetta sjálf og hefur því gert uppskriftina svo stóra að hún dugir í alveg þrjár máltíðir fyrir tvo. Mér finnst best að búa til deig fyrir bökur kvöldinu áður og leyfa því að hírast inni í ísskáp yfir nótt. Graskerið þarf að flysja vel, búta niður og baka í ofni. Laukurinn er hægeldaður á pönnu og svo þarf að fletja út deig, blanda fyllinguna og baka bökuna. Sem sagt töluverð fyrirhöfn. En afraksturinn er ljúffengur og bakan er stór og matarmikil.
Sveitabaka með ,butternut’graskeri og sætum lauk
(Uppskrift frá Deb Perelman: The Smitten Kitchen Cookbook)
Skelin:
- 315 g hveiti
- 1/2 tsk salt
- 225 g smjör, ósaltað, kalt og skorið í teninga
- 120 g sýrður rjóim
- 1 msk hvítvínsedik
1/3 bolli (80 ml) ískalt vatn
Fyllingin:
- 2 lítil eða 1 stór butternutgrasker (rétt rúmlega 1 kg)
- 3 msk ólívuolía
- 1.5 tsk salt
- Svartur pipar
- 15 g smjör
- 2 stórir sætir laukar, skornir í tvennt og síðan í þunnar sneiðar
- 1/4 tsk sykur
- 1/4 tsk cayenne pipar
- 185 g rifinn ostur, t.d. Fontina
- 1 tsk fersk tímjanlauf
- 1 eggjarauða, hrærð með 1 tsk af vatni (til að pensla bökuna með)
Aðferð:
Byrjið á því að búa til skelina: Setjið hveitið og saltið í skál. Bætið smjörinu saman við og blandið saman með smjördeigshníf þar til áferðin er líkt og mjöl með misstórum flyksum. [Ég setti hveitið, saltið og smjörið saman í matvinnsluvélina og lét hana vinna deigið þar til réttri áferð var náð – mun fljótlegra.] Hrærið saman sýrðum rjóma, hvítvínsediki og vatni í lítilli skál. Búið til holu í miðju deigsins og hellið þessum vökva ofan í. Blandið síðan öllu saman með sleikju þar til það hefur náð saman. Klappið deiginu saman í bolta, vefjið því þétt inn í plastfilmu og kælið í ísskápnum í 1 klukkustund (deigið geymist í allt að 2 daga inni í kæli).
Eldið graskerið: Hitið ofninn í 200°c/400°F. Skrælið graskerið þar til það sést í fagurappelsínugult kjötið. Skerið graskerið í tvennt og skafið fræin úr. Skerið graskerið niður í 2 cm teninga. Hellið 2 msk af ólívuolíunni á ofnplötu og dreifið vel úr. Setjið teningana á ofnplötuna þannig að þeir liggi í einu lagi og staflist ekki. Sáldrið salti og pipar yfir. Bakið í 30 mínútur eða þar til graskerið er orðið mjúkt. Veltið bitunum af og til svo að allt bakist jafnt. Setjið til hliðar og leyfið að kólna aðeins.
Eldið laukana: Á meðan graskerið bakast skal elda laukinn. Hitið smjörið og 1 msk af ólívuolíu á stórri pönnu .Eldið laukinn yfir meðal-lágum hita ásamt sykrinum og smá salti. Hrærið af og til þar til laukurinn er orðinn mjúkur, ca. 25 mínútur. Hrærið cayenne piparnum saman við.
Blandið graskerinu, lauknum, ostinum og timjaninu saman í skál.
Takið deigið úr kælinum og leggið á hveitistráðan flöt. Fletjið það út í 16″ (40 cm) hring. Flytjið yfir á ofnplötu með bökunarpappír. Dreifið graskersblöndunni yfir deigið en skiljið eftir ca. 6 cm meðfram. Brjótið þann part deigsins sem er án fyllingar yfir fyllinguna. Miðjan verður opin. Penslið skelina með eggjahrærunni.
Bakið þar til hún er orðin gyllt og falleg á litinn, 30 til 40 mínútur. Takið bökuna úr ofninum og leyfið að standa í 5 mínútur.
Berið fram heita eða við stofuhita.