Skip to content

Posts from the ‘Baka’ Category

Tvenns konar bökur

Síðustu vikur hafa verið bilaðar – heimsókn tengdaforeldra minna, músagangur og heimsókn pabba míns með smá ritgerðarstressi og svefnrugli Þórdísar blandað saman við. Svo virðist sem við séum búin að ná tökum á músaganginum með tonni af sementi, glerbrotum, lími og vírgrindum. Og nú verð ég að viðurkenna nokkuð sem mér er mjög óljúft að viðurkenna. Ég er lafhrædd við mýs. Á algjörlega órökréttan og frumstæðan hátt. Þegar við heyrðum í þeim inni hjá okkur fór ég ósjálfrátt að skjálfa á beinununum, hnén á mér gáfu sig og ég hlustaði eftir hljóðum með dúndrandi hjartslátt og þvala lófa. Mér leið hrikalega illa inni í íbúðinni og á þessum örfáu vikum hef ég horast niður. Ég er samt öll að koma til. Matarlystin er smám saman að gera vart við sig aftur og ég á auðveldara með að sofna á kvöldin. En eftir situr eilítið sært stolt – ég er ekki nándar nærri eins mikill töffari og ég hélt.

Eftir langt blogghlé býð ég upp á tvær ólíkar útfærslur á sömu grunnuppskriftinni. Fallegar smjördeigsbökur með þeyttum fetaosti og gómsætu áleggi. Bökurnar eru einfaldar í framkvæmd og eru sérstaklega viðeigandi núna hjá okkur þegar vorið hefur gengið í garð með tilheyrandi blómaskrúð og hækkandi hitastigi. Uppskriftina fékk ég úr nýjasta hefti Bon Appétit og er ákaflega ánægð með hvernig tókst til.

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk eplabaka með hunangi

Það er fátt sem mér finnst betra en bökur. Þegar ég þarf að velja á milli þess að fá mér kökusneið eða bökusneið þá vel ég hiklaust síðari kostinn. Ætli það sé ekki smjörmikill botninn sem freistar mín hvað mest og það sakar alls ekki þegar skelin er hlaðin bökuðum ávöxtum.

Bændamarkaðurinn er frekar einsleitur hérna á veturna – rótargrænmeti, einstaka kálafbrigði og harðgerar kryddjurtir. En það sem gerir hann aðeins skemmtilegri eru öll eplin, ferski eplasafinn og heiti eplasíderinn. Ég stóðst ekki mátið um daginn og keypti fjögur ólík epli til að setja í þessa böku. Bakan er afbragðsgóð, hún inniheldur lítinn sykur og eplin eru í aðalhutverki. Ég var sérstaklega hrifin af því að sáldra volgu hunangi yfir bökuna til að vega aðeins á móti sýrunni í eplunum. Við borðuðum hana með litlum kúlum af vanilluís og hún var horfin áður en við vissum af.

SJÁ UPPSKRIFT

Sveitabaka með ,butternut’graskeri og sætum lauk

Ég er búin að bíða lengi eftir Smitten Kitchen matreiðslubókinni. Það eru komin þrjú ár frá því að Deb tilkynnti að hún væri farin að vinna að bók og ég hef beðið spennt alveg síðan. Bloggið hennar er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er fyrsta matarbloggið sem ég byrjaði að lesa reglulega. Líklega er þetta sú vefsíða sem ég elda hvað mest upp úr enda hefur hún afskaplega sjaldan svikið mig um góða máltíð, hvað þá ljúffengan bakstur. Ég er búin að elda mjög góðan kjúklingarétt upp úr bókinni, reyndi að ofnbaka french toast (sem mistókst hrapallega hjá mér – ekki alveg viss hvers vegna) og ég hef bakað þessa böku tvisvar. Hún er líka alveg ljómandi góð.

butternutgalette1

Eini gallinn við þessa böku er hversu fyrirhafnarmikil hún er. Deb viðurkennir þetta sjálf og hefur því gert uppskriftina svo stóra að hún dugir í alveg þrjár máltíðir fyrir tvo. Mér finnst best að búa til deig fyrir bökur kvöldinu áður og leyfa því að hírast inni í ísskáp yfir nótt. Graskerið þarf að flysja vel, búta niður og baka í ofni. Laukurinn er hægeldaður á pönnu og svo þarf að fletja út deig, blanda fyllinguna og baka bökuna. Sem sagt töluverð fyrirhöfn. En afraksturinn er ljúffengur og bakan er stór og matarmikil.

butternutgalette3

SJÁ UPPSKRIFT

Baka með mascarpone og ferskum bláberjum

Ég held áfram að setja inn uppskriftir sem nýta bláber enda eru til fleiri lítrar af þessu góðgæti á heimilinu. Og þótt mér finnist bláberin best eintóm með dágóðri slettu af íslenskum rjóma þá væri algjör synd að sleppa því að prófa sig áfram með þetta fallega hráefni. Í mínum huga kallar fallegt hráefni á fallegan eftirrétt. Ég snaraði mér því í Pipar og salt á Klapparstíg og keypti franskt bökuform með fjarlægjanlegum botni. Frönsk bökuform gera bökur einhvern veginn tilkomumeiri og láta réttinn líta út fyrir að vera mun fyrirhafnarmeiri en hann er í raun og veru. Skelin sem ég bjó til er afar einföld, fyllingin er blanda af mascarpone og rjóma með smá flórsykri og svo er ferskum nýtíndum berjum (í þessu tilfelli aðalbláberjum) stráð yfir. Svo fallegt og svo ljúffengt!

Í tilefni þess að þetta er eitt besta berjasumar í langan tíma þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar uppskriftir sem ég hef sett hér inn áður sem nota bláber.

Lambalæri Hörpu – læri sem látið er marinerast í íslenskum fjallakryddjurtum, lyngi og berjum. Algjört lostæti og einstaklega viðeigandi síðsumarsréttur.

Bláberjamöffins – ég held að ég geti lofað ykkur að þetta sé hin fullkomna uppskrift að bláberjamöffins.

Ferskju- og bláberjabaka – ég hef séð ferskjur til sölu í búðum á Akureyri og í Reykjavík og þessi baka er uppáhaldsbakan mín.

Sítrónu- og ricottapönnukökur með bláberjasósu – fyrir þá sem elska bröns.

Rabarbara- og bláberjahröngl – þessi uppskrift er í uppáhaldi hjá mömmu minni og er bökuð reglulega á sumrin og haustin.

SJÁ UPPSKRIFT

Smábökur með súrum kirsuberjum

Ég reyni eftir fremsta megni að setja aðeins inn uppskriftir sem nota hráefni sem ég ímynda mér að þið gætuð nálgast heima á Íslandi. Stundum gengur það ekki alveg eftir, sérstaklega þar sem úrval úti á landi er oft ekki það sama og í Reykjavík. Ég vona því að þið fyrirgefið mér að ég skuli setja hér inn uppskrift að litlum bökum sem eru fylltar með berjum sem ég þykist nokkuð viss um að séu aldrei til heima.

Ég fór nefnilega á markaðinn um helgina og gladdist alveg ógurlega þegar ég sá að ekki aðeins voru jarðarber til sölu heldur líka kirsuber, bláber, hindber og þessar litlu gersemar. Þetta er sérstök tegund af kirsuberjum, súr kirsuber (sour cherries), og uppskera þeirra er bæði takmörkuð og endist aðeins í stuttan tíma á hverju sumri.  Ég hafði aldrei smakkað þau áður og vissi aðeins að þau eru mjög vinsæl meðal bakara. Svo vinsæl að það var hreinlega setið um hverja einustu öskju. Kannski var það óléttubumban mín ógurlega sem gerði það að verkum að ég náði að tryggja mér tvær öskjur án þess að þurfa að frekjast mikið. Ég smakkaði eitt ber á leiðinni heim og varð strax hrifin af súru bragðinu sem þó hafði einhverja sætu til að bera.

En auðvitað má baka svona smábökur með hvers kyns fyllingu – eplum, nektarínum, plómum, bláberjum eða jafnvel með ferskjum og bourboni. Bökurnar sjálfar eru svolítið fyrirhafnarmiklar, það þarf að kæla deigið oft og mörgum sinnum til að smjörið í því bráðni ekki og svo það haldi lögun sinni. Það var reyndar svo heitt inni hjá okkur þennan dag (og eigandinn ekki búinn að kveikja á loftkælingunni, okkur til mikillar armæðu) að ég þurfti að vinna mjög hratt til að klúðra deiginu ekki algjörlega. Og ekki skánaði hitastigið þegar ég kveikti á tvöfalda ofninum okkar. Það gæti því hugsast að ég þurfi að bíta í það súra epli að hætta öllum bakstri þangað til ég kem til Íslands. En þangað til eigum við fullt af ljúffengum litlum bökum með súrsætri kirsuberjafyllingu (sem eru svona líka sniðugar í lautarferð).

Þessar bökur eru bestar samdægurs en það má líka geyma þær í kæli í 1 – 2 daga, skelin helst samt ekki mjög stökkt fram yfir einn dag.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: