Skip to content

Baka með mascarpone og ferskum bláberjum

Ég held áfram að setja inn uppskriftir sem nýta bláber enda eru til fleiri lítrar af þessu góðgæti á heimilinu. Og þótt mér finnist bláberin best eintóm með dágóðri slettu af íslenskum rjóma þá væri algjör synd að sleppa því að prófa sig áfram með þetta fallega hráefni. Í mínum huga kallar fallegt hráefni á fallegan eftirrétt. Ég snaraði mér því í Pipar og salt á Klapparstíg og keypti franskt bökuform með fjarlægjanlegum botni. Frönsk bökuform gera bökur einhvern veginn tilkomumeiri og láta réttinn líta út fyrir að vera mun fyrirhafnarmeiri en hann er í raun og veru. Skelin sem ég bjó til er afar einföld, fyllingin er blanda af mascarpone og rjóma með smá flórsykri og svo er ferskum nýtíndum berjum (í þessu tilfelli aðalbláberjum) stráð yfir. Svo fallegt og svo ljúffengt!

Í tilefni þess að þetta er eitt besta berjasumar í langan tíma þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar uppskriftir sem ég hef sett hér inn áður sem nota bláber.

Lambalæri Hörpu – læri sem látið er marinerast í íslenskum fjallakryddjurtum, lyngi og berjum. Algjört lostæti og einstaklega viðeigandi síðsumarsréttur.

Bláberjamöffins – ég held að ég geti lofað ykkur að þetta sé hin fullkomna uppskrift að bláberjamöffins.

Ferskju- og bláberjabaka – ég hef séð ferskjur til sölu í búðum á Akureyri og í Reykjavík og þessi baka er uppáhaldsbakan mín.

Sítrónu- og ricottapönnukökur með bláberjasósu – fyrir þá sem elska bröns.

Rabarbara- og bláberjahröngl – þessi uppskrift er í uppáhaldi hjá mömmu minni og er bökuð reglulega á sumrin og haustin.

Baka með mascarpone og ferskum bláberjum

Skel:

 • 150 g hveiti
 • 50 g flórsykur
 • 1 msk (rúm) hakkaðar möndlur
 • 1/2 tsk salt
 • 100 g smjör, kalt og skorið í 2 sm teninga
 • 1 eggjarauða, hrærð

Fylling:

(Breytt uppskrift frá Sugar and Snapshots)

 • 250 g mascarpone (við stofuhita eða þar um bil)
 • 1 dl rjómi
 • börkur af hálfri sítrónu, rifinn
 • flórsykur, eftir smekk (en miða má við 0.5 dl – 1.5 dl )
 • ca. 2 dl fersk bláber

Aðferð:

Byrjið á að búa til skelina:  Takið fram stóra skál og blandið saman hveiti, sykri, salti og möndlum. Setjið smjörið út í skálina og nuddið því inn í hveitiblönduna með hreinum fingrum. Smjörbitarnir verða ýmist á stærð við litla steina en aðrir munu svipa til haframjöls. Bætið eggjarauðinni saman við og blandið því saman við deigið með gaffli. Deigið verður laust í sér. Takið fram 9″ (23 cm) bökuform með fjarlægjanlegum botni. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn og meðfram hliðunum.

Setjið skelina í frystinn í einn klukkutíma (ekki gleyma þessu skrefi annars mun skelina lyfta sér of mikið í ofninum).

Setjið ofngrindina í efsta þriðjung ofnsins og hitið ofninn í 180°C/350°F .*

Smyrjið álfilmubút með smjöri eða olíu og setjið, smurðu hliðina niður, ofan á kældu skelina. Bakið í 20 mínútur. Takið álfilmuna af og bakið í aðrar 15 mínútur. Eða þar til skelin er gyllt á litinn. Leyfið að kólna alveg.

Búið til kremið:  Þeytið rjómann í meðalstórri skál þar til hann myndar mjúka toppa. Takið fram aðra skál og blandið saman mascarponeostinum og sítrónuberkinum. Setjið hálfan desilítra af flórsykri saman við og blandið. Bætið rjómablöndunni saman við í þremur pörtum og blandið honum varlega saman við ostablönduna með sleikju. Þegar allt hefur blandast saman skal smakka blönduna og blanda meiri flórsykri saman við ef auka þarf sætumagn.

Hellið fyllingunni ofan í bökuskelina þegar hún er orðin alveg köld og dreifið jafnt með kökuspaða eða sleikju. Dreifið bláberjunum yfir bökuna og kælið í eina klukkustund áður en hún er borin fram.

[*Ég notaði ekki blástursofn.]

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
 1. Inga Þórey #

  og fúnkerar íslenski maskarpóníosturinn alveg í þessu?

  26/08/2012
  • Ég notaði íslenskan mascarpone og það gekk mjög brösulega til að byrja með – hann er töluvert stífari og erfiðari viðureignar en sá erlendi. Ég náði honum góðum með því að hafa hann við stofuhita þegar ég þeytti honum saman við rjómann í vél.

   Annars er hægt að fá ítalskan mascarpone í Nettó :)

   26/08/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: