Skip to content

Posts from the ‘Bláber’ Category

Bláberjaskonsur

Ég fylgdist með fárviðrinu heima úr þægilegum fjarska. Það er ennþá kalt, grátt og vetrarlegt hjá okkur en ég stend mig að því að píra augun ofan í hvert einasta beð í von um að vorið springi út á einu andartaki. Ég hugsa að það sé sérstaklega auðvelt að verða óþreyjufull í bið eftir hlýrri dögum þegar maður býr í svo litlum og þröngum húsakynnum.

Þessar skonsur gera biðina ögn bærilegri. Ég er með skonsur á heilanum þessa dagana en þar sem þær eru langbestar nýbakaðar þá hef ég setið á mér að kaupa þær úti á kaffihúsi. Joy the Baker setti inn færslu um daginn með uppskrift að einföldum skonsum með bláberjum og hlynsírópi sem ég varð að prófa. Ég keypti því bakka af ferskum bláberjum (með lokuð augu því það er langt í að bláberin þroskist á norðurhveli). Ég bakaði lítinn hluta af skonsunum en frysti restina til að eiga síðar (lesist: til að koma í veg fyrir að ég borðaði þær allar á einum degi). Þær eru fullkomnar – léttar í sér, hæfilega sætar og bláberin fallega fjólublá í ljósu brauðinu. Það má nota frosin ber en þá mun deigið litast af berjunum. En það hefur bara áhrif á ytra útlit, ekki bragð.


SJÁ UPPSKRIFT

Baka með mascarpone og ferskum bláberjum

Ég held áfram að setja inn uppskriftir sem nýta bláber enda eru til fleiri lítrar af þessu góðgæti á heimilinu. Og þótt mér finnist bláberin best eintóm með dágóðri slettu af íslenskum rjóma þá væri algjör synd að sleppa því að prófa sig áfram með þetta fallega hráefni. Í mínum huga kallar fallegt hráefni á fallegan eftirrétt. Ég snaraði mér því í Pipar og salt á Klapparstíg og keypti franskt bökuform með fjarlægjanlegum botni. Frönsk bökuform gera bökur einhvern veginn tilkomumeiri og láta réttinn líta út fyrir að vera mun fyrirhafnarmeiri en hann er í raun og veru. Skelin sem ég bjó til er afar einföld, fyllingin er blanda af mascarpone og rjóma með smá flórsykri og svo er ferskum nýtíndum berjum (í þessu tilfelli aðalbláberjum) stráð yfir. Svo fallegt og svo ljúffengt!

Í tilefni þess að þetta er eitt besta berjasumar í langan tíma þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar uppskriftir sem ég hef sett hér inn áður sem nota bláber.

Lambalæri Hörpu – læri sem látið er marinerast í íslenskum fjallakryddjurtum, lyngi og berjum. Algjört lostæti og einstaklega viðeigandi síðsumarsréttur.

Bláberjamöffins – ég held að ég geti lofað ykkur að þetta sé hin fullkomna uppskrift að bláberjamöffins.

Ferskju- og bláberjabaka – ég hef séð ferskjur til sölu í búðum á Akureyri og í Reykjavík og þessi baka er uppáhaldsbakan mín.

Sítrónu- og ricottapönnukökur með bláberjasósu – fyrir þá sem elska bröns.

Rabarbara- og bláberjahröngl – þessi uppskrift er í uppáhaldi hjá mömmu minni og er bökuð reglulega á sumrin og haustin.

SJÁ UPPSKRIFT

Panna cotta með bláberjasósu

Sumarið er við það að renna sitt skeið og ég eiginlega skammast mín niður í tær þegar ég sé hversu ódugleg ég hef verið við að skrifa og setja inn uppskriftir. Á móti kemur er að ég hef haft það alveg einstaklega gott í Eyjafirðinum og Aðaldalnum síðasta mánuðinn. Við höfum borðað heil ógrynni af kjöti og fiski, farið í mýmargar sundferðir, lesið bækur og síðustu helgi tíndum við nokkra lítra af bláberjum við sumarbústað tengdaforeldra minna. Veðrið hefur heldur ekki spillt fyrir góðum stundum en ég man bara ekki eftir eins þurru og sólríku sumri fyrir norðan.

Tengdapabbi kom heim af veitingahúsi eitt kvöldið fyrir skömmu og hafði fengið að smakka panna cotta í fyrsta skiptið. Við ákváðum fljótlega eftir það að búa til slíkan eftirrétt í sameiningu í næstu bústaðarferð. Panna cotta er ítalskur eftirréttur, nafnið þýðir einfaldlega ,eldaður rjómi’ og á upptök sín í Piedmont héraðinu á norður Ítalíu. Við suðum saman rjóma, nýmjólk, sítrónu og vanillu og bættum síðan matarlími saman við. Búðingurinn er svo látinn kólna í formum og á þeim tíma þéttist hann allverulega. Það er því gott að búa réttinn til vel fyrir tímann svo hann fái góðan tíma til að þykkna. Við bárum hann fram með bláberjasósu úr bláberjauppskerunni okkar en það má bera hann fram með hvaða sætri sósu sem er (t.d. karamellusósu, súkkulaðisósu) eða bara með ferskum berjum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: