Bláberjaskonsur
Ég fylgdist með fárviðrinu heima úr þægilegum fjarska. Það er ennþá kalt, grátt og vetrarlegt hjá okkur en ég stend mig að því að píra augun ofan í hvert einasta beð í von um að vorið springi út á einu andartaki. Ég hugsa að það sé sérstaklega auðvelt að verða óþreyjufull í bið eftir hlýrri dögum þegar maður býr í svo litlum og þröngum húsakynnum.
Þessar skonsur gera biðina ögn bærilegri. Ég er með skonsur á heilanum þessa dagana en þar sem þær eru langbestar nýbakaðar þá hef ég setið á mér að kaupa þær úti á kaffihúsi. Joy the Baker setti inn færslu um daginn með uppskrift að einföldum skonsum með bláberjum og hlynsírópi sem ég varð að prófa. Ég keypti því bakka af ferskum bláberjum (með lokuð augu því það er langt í að bláberin þroskist á norðurhveli). Ég bakaði lítinn hluta af skonsunum en frysti restina til að eiga síðar (lesist: til að koma í veg fyrir að ég borðaði þær allar á einum degi). Þær eru fullkomnar – léttar í sér, hæfilega sætar og bláberin fallega fjólublá í ljósu brauðinu. Það má nota frosin ber en þá mun deigið litast af berjunum. En það hefur bara áhrif á ytra útlit, ekki bragð.