Skip to content

Panna cotta með bláberjasósu

Sumarið er við það að renna sitt skeið og ég eiginlega skammast mín niður í tær þegar ég sé hversu ódugleg ég hef verið við að skrifa og setja inn uppskriftir. Á móti kemur er að ég hef haft það alveg einstaklega gott í Eyjafirðinum og Aðaldalnum síðasta mánuðinn. Við höfum borðað heil ógrynni af kjöti og fiski, farið í mýmargar sundferðir, lesið bækur og síðustu helgi tíndum við nokkra lítra af bláberjum við sumarbústað tengdaforeldra minna. Veðrið hefur heldur ekki spillt fyrir góðum stundum en ég man bara ekki eftir eins þurru og sólríku sumri fyrir norðan.

Tengdapabbi kom heim af veitingahúsi eitt kvöldið fyrir skömmu og hafði fengið að smakka panna cotta í fyrsta skiptið. Við ákváðum fljótlega eftir það að búa til slíkan eftirrétt í sameiningu í næstu bústaðarferð. Panna cotta er ítalskur eftirréttur, nafnið þýðir einfaldlega ,eldaður rjómi’ og á upptök sín í Piedmont héraðinu á norður Ítalíu. Við suðum saman rjóma, nýmjólk, sítrónu og vanillu og bættum síðan matarlími saman við. Búðingurinn er svo látinn kólna í formum og á þeim tíma þéttist hann allverulega. Það er því gott að búa réttinn til vel fyrir tímann svo hann fái góðan tíma til að þykkna. Við bárum hann fram með bláberjasósu úr bláberjauppskerunni okkar en það má bera hann fram með hvaða sætri sósu sem er (t.d. karamellusósu, súkkulaðisósu) eða bara með ferskum berjum.

Panna cotta með bláberjasósu

Panna cotta:

(Breytt uppskrift frá Jamie Oliver: Happy Days with the Naked Chef)

 • 70 ml nýmjólk
 • 2 vanillustangir, skornar í tvennt og baunirnar skrapaðar frá
 • Börkur af 1 sítrónu, fínt rifinn
 • 375 ml rjómi
 • 1.5 lauf matarlím, lögð í bleyti
 • 70 g flórsykur

Aðferð:

Setjið mjólkina, vanillustangirnar, vanillubaunirnar, sítrónubörkinn og helminginn af rjómanum saman í lítinn pott. Leyfið að hægsjóða í ca. 10 mínútur, eða þar til vökvamagn hefur minnkað um þriðjung. Takið af hitanum og bætið bleyttu matarlímsblöðunum saman við. Hrærið rólega þar til matarlímið hefur leysts upp í mjólkurblöndunni. Leyfið að kólna aðeins og setjið síðan í ísskápinn. Hrærið varlega af og til þar til blandan getur þakið bakhlið skeiðar án þess að renna beint af. Fjarlægið þá vanillustangirnar.

Þeytið saman afganginum af rjómanum við flórsykurinn þar til það myndar mjúka toppa. Blandið rjómablöndunni við mjólkurblönduna. Skiptið í 4 lítil form (hægt er að nota espressó bolla eða lítil glös). Leggið plastfilmu þétt yfir formin og kælið í a.m.k. 2 klukkustundir.

Bláberjasósa:

 • 1 1/2 msk ferskur sítrónusafi
 • 2 bollar [500 ml] bláber, fersk eða frosin
 • 2-3 msk sykur
 • 2 msk vatn

Aðferð:

Setjið sítrónusafa, bláber, sykur og vatn í meðalstóran pott. Náið upp suðu við háan hita og lækkið hitann síðan og leyfið að hægsjóða. Haldið áfram að hræra þar til sósan þykknar. Berið hana fram eins og er eða látið renna í gegnum fínt sigti til að aðskilja hýði og steina frá sósunni.

Fyrir 4

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
 1. Spennandi uppskrift, ég er að gera hana núna, en skil ekki alveg hvaða afganga af rjóma ég á að þeyta við flórsykurinn? Afganginn af 500 ml.?

  25/08/2012
  • Já, s.s. afganginn af 500 ml. 250 ml er soðið saman við mjólkina og hinum 250 ml er þeytt saman við flórsykurinn.

   25/08/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: