Músagangur
Það er því miður viðvarandi pása á blogginu. Ekki sökum þess að ég vilji ekki elda, baka, blanda og blogga heldur vegna þess að við eigum í mestum vandræðum með litlu íbúðina okkar. Eftir yndislegt páskafrí með foreldrum Elmars í einni fallegustu íbúð sem ég hef séð í borginni þá komum við aftur í stúdíóíbúðina okkar. Þegar ég var að ganga frá matnum heyrði ég tíst og krafs undir eldhúsinnréttingunni. Mús.
Við lögðum fáránlega margar gildrur út um alla íbúð og reyndum að sofa. Ekki varð mikið úr svefni þar sem ég lá með Þórdísi við hlið mér og hlustaði á músina naga og klóra. Á endanum þurfti að rífa út eldhúsinnréttinguna til að fylla upp í holur sem lágu þar bak við. Við veiddum síðan músina og héldum að nú væri ævintýrið á enda og íbúðin orðin okkar aftur.
En það var aðeins of bjarstýnt og nú býr að minnsta kosti ein önnur mús einhvers staðar inni hjá okkur. Við erum flutt inn í gestaherbergi eigendanna á meðan verktakar reyna að loka öllum mögulegum inngangsleiðum inn í íbúðina. Ég þarf kannski ekki að taka fram að ég hef ekki verið mjög spennt fyrir að nota eldhúsið eða gera nokkuð þar inni sem gæti skapað fæðu fyrir mýsnar.
Ég býst því ekki við að ég muni skrifa um mat hér fyrr en lausn hefur fengist á þessum vanda og ég get andað léttar inni í litla rýminu okkar. Vonandi get ég farið að elda og mynda mat von bráðar.
Ó nei! :S Gangi ykkur vel!