Gúrkutíð
Við flytjum heim til Íslands eftir nákvæmlega þrjár vikur og ég veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Það eru komin fimm ár frá því ég hélt frá Íslandi til Edinborgar í mastersnám og smá ævintýraleit. Á þeim tímapunkti hefði mig aldrei órað fyrir því að ég myndi síðan eyða fjórum árum í einni skemmtilegustu, menningarlegustu og fjölbreyttustu borg í heimi. Ég er búin að vera óendanlega heppin. Ég hlakka mikið til að flytja aftur til Íslands en ég veit að ég á eftir að sakna borgarinnar mjög mikið.
Eftir allt músaævintýrið í vetur og vor þá voru eigendur hússins svo góðir að veita okkur aðgang að bakgarðinum í smá tíma sem uppbót fyrir allt umstangið. Hann er, eins og sést á mynd, algjör draumur. Þórdís hefur skemmt sér vel við að liggja með okkur í hengirúminu og við njótum þess mikið að borða allar máltíðir á pallinum (þaðan sem myndin er tekin). Hitinn, garðurinn og sólin kalla á ferskan og kælandi sumardrykk. Það, og sú staðreynd að við þurfum að moka út úr vínskápnum áður en við höldum heim. Ég bjó því til þennan svalandi gindrykk með gúrku, myntu og límónu.
Gúrkutíð
(Uppskrift frá Bon Appétit, júlí 2011)
- 5 þunnar sneiðar af agúrku
- 10 myntulauf
- 1.5 tsk sykursíróp (eða agave síróp)
- 1/4 bolli gin
- klakar
- sódavatn
Aðferð:
Setjið agúrkusneiðar, myntulauf og sykursíróp í hristara og merjið með skafti. Hellið gininu út í. Setjið lúku af klökum út í hristarann og hristið vel.
Fyllið glas með klökum og hellið ginblöndunni út í.
Fyllið glasið síðan með sódavatni. Hrærið til.
Skreytið með gúrkusneið eða myntu.
Jeremías minn – þetta ætla ég að útbúa næstu helgi – sjúklega girnilegt – ég á líka Hendricks
Gaman að lesa bloggið þitt og uppskriftirnar eru góðar. Vertu velkomin til Íslands aftur og vonandi heldur þú áfram að skrifa matarblogg til að gleðja okkur hin ..:)
Hendricks með gúrku er svo dásamlegur drykkur.. Næstum viss um að ég finn mér bráðum tilefni til að prófa þessa útgáfu :) Hlakka annars til að fylgjast með blogginu vaxa og dafna frá Íslenskri grundu þó ég eigi örugglega eftir að sakna þess að fá smá NY skammt og láta mig dreyma gegnum bloggið þitt.