Skip to content

Posts from the ‘Hanastél’ Category

Brooklyn

,,Jæja, við erum ekki í Brooklyn lengur,“ hugsaði ég þegar ég labbaði í strætó þriðjudagsmorguninn. Jörðin var þakin snjó og ennþá dimmt úti. Haustið er langt, litríkt og hlýtt úti í New York og það örlaði á smá söknuði hjá mér. En svo, eins og gerist oft þegar ég fyllist slíkri nostalgíu, man ég eftir músunum, þrengslunum og látunum. Ég andaði að mér fersku loftinu, hlustaði á fuglana syngja af ákafa í reynitrjánum og mundi hvað mér finnst í raun yndislegt að vera komin aftur heim í Vesturbæinn.

Í gamla hverfinu okkar leynist ítalskur veitingastaður – Franny’s (sem ég hef bloggað um áður, sjá hér). Staðurinn er ekki bara frægur fyrir afbragðs ítalskan mat heldur einnig fyrir skemmtilegt og framúrstefnulegt drykkjarval. Drykkirnir eru oft árstíðabundnir og nota hráefni sem eru við hæfi hverju sinni. Einn frægasti drykkurinn þeirra er þeirra túlkun á hanastélinu Brooklyn. Ég varð því mjög glöð þegar ég fann uppskriftina að honum í fallegu matreiðslubókinni þeirra og var fljót til að blanda hann þegar við fengum helgarpössun um daginn. Hann er eilítið súr, eilítið sætur og blandaður með uppáhaldsáfenginu mínu – bourboni. Fullkominn haustdrykkur til að skála með ykkar uppáhalds.

(Í þessum dansi hausts og veturs má ég til með að mæla með Heitum Teit, sem er allra meina bót þegar kvefpestir fara að skjóta upp sínum ljóta kolli.)

SJÁ UPPSKRIFT

Gúrkutíð

Við flytjum heim til Íslands eftir nákvæmlega þrjár vikur og ég veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Það eru komin fimm ár frá því ég hélt frá Íslandi til Edinborgar í mastersnám og smá ævintýraleit. Á þeim tímapunkti hefði mig aldrei órað fyrir því að ég myndi síðan eyða fjórum árum í einni skemmtilegustu, menningarlegustu og  fjölbreyttustu borg í heimi. Ég er búin að vera óendanlega heppin. Ég hlakka mikið til að flytja aftur til Íslands en ég veit að ég á eftir að sakna borgarinnar mjög mikið.

Eftir allt músaævintýrið í vetur og vor þá voru eigendur hússins svo góðir að veita okkur aðgang að bakgarðinum í smá tíma sem uppbót fyrir allt umstangið. Hann er, eins og sést á mynd, algjör draumur. Þórdís hefur skemmt sér vel við að liggja með okkur í hengirúminu og við njótum þess mikið að borða allar máltíðir á pallinum (þaðan sem myndin er tekin). Hitinn, garðurinn og sólin kalla á ferskan og kælandi sumardrykk. Það, og sú staðreynd að við þurfum að moka út úr vínskápnum áður en við höldum heim. Ég bjó því til þennan svalandi gindrykk með gúrku, myntu og límónu.

SJÁ UPPSKRIFT

Negroni

Eftir nokkur kvöld af smakki og sötri hef ég tekið Negroni í sátt. Þetta er svolítið krefjandi drykkur – bitur, margslunginn og skarpur, en mér finnst hann fullkominn eftir stóra máltíð til að fríska upp á bragðlaukana. Fyrir þau okkar sem eru ekki óð í Campari þá rennur hann kannski ekki mjög ljúflega niður fyrst en eitthvað við hann hvetur mann til að taka annan sopa. Það er reyndar sökum einskærrar þrjósku í mér að ég vildi læra að drekka og meta þennan ítalska drykk og ég verð að segja að þetta gæti verið uppáhaldsdrykkurinn minn núna.

Venjulega er hann blandaður í jöfnum hlutföllum – einn partur gin, einn partur Campari og einn partur sætur vermút – en ég hef komist að því að mér finnst hann bestur með aðeins meira af vermút og drukkinn ískaldur. Sumir drekka hann með prosecco (ítölsku freyðivíni) í staðinn fyrir gin eða setja bourbon í staðinn fyrir gin fyrir haustlegri drykk. Nú væri bara gaman að hafa aðgang að svölum og hlýju veðri til að fullkomna hughrifin. Ég set hefðbundnu uppskriftina inn hér að neðan en hvet ykkur til að smakka ykkur áfram og finna þau hlutföll sem henta ykkur.

Tónlist með: My baby just cares for me – Nine Simone

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: