Skip to content

Jarðarberjasorbet

Á meðan lóan og spóinn eru óumdeilanlegir vorboðar heima á Íslandi þá er fátt sem gefur eins sterklega til kynna að vorið sé loksins komið hérna úti eins og rabarbarinn, aspasinn og jarðarberin á bændamarkaðnum. Í byrjun birtast þau á markaðnum í takmörkuðu upplagi og einungis þeir árrisulustu fara heim með poka af þessu góðgæti. Ég hef ekki verið ein af þessum heppnu undanfarnar helgar enda er ég vakandi hálfu og heilu næturnar sökum lítilla kröftugra fóta sem sparka í mig innan frá og áður en ég veit af er klukkan orðin alltof margt og ég er ennþá dottandi undir sæng.

Ég get því ekki sagt að þessi ótrúlega ljúffengi sorbet hafi verið búinn til úr lífrænt ræktuðum, nýuppteknum jarðarberjagersemum. Við fórum í búðina um daginn og ég fyllti heilan poka af ávöxtum í tilraun til að sefa sætuáráttu mína. Ég greip tvo bakka af jarðarberjum á útsölu en þegar heim var komið sá ég að þau myndu varla endast mjög lengi, svo þroskuð voru þau.

Ég starði á þau í svolitla stund og velti fyrir mér möguleikunum. Ætti ég að baka? Búa til eitthvert svakalegt jarðarberjasalat? Sjóða síróp? En þá minntist ég uppskriftar fyrir sorbet sem ég hafði séð hjá Smitten Kitchen (er nokkuð orðið of augljóst að ég er farin að eyða heilu og hálfu dögunum í að lesa gamlar færslur frá henni?). Ég hafði merkt við uppskriftina en ákveðið að salta hana þar sem ég sá ekki fram á að eiga heilt kíló af ódýrum jarðarberjum í bráð. Og krakkar, þessi sorbet er unaður. Hann minnir mig svolítið á óáfenga margarítu nema í ísformi og ég hef lúmskan grun um að ef þið setjið nokkrar skeiðar af þessum sorbet, nokkra klaka, slurk af tekíla og smá ferskan límónusafa í blandara að þið fáið hreint magnaða jarðarberjamargarítu. Ég væri allaveganna að brasa við það akkúrat núna ef ég væri ekki svona ábyrgðarfull og samviskusöm ófrísk kona.

Jarðarberjasorbet

(Uppskrift frá London River Café Cookbook via Smitten Kitchen)

  • 1 sítróna (lítil), steinar hreinsaðir úr og skorin í bita
  • 2 bollar [450 g] sykur
  • 1 kg jarðarber, hatturinn skorinn frá
  • Safi úr 1 sítrónu

Aðferð:

Setjið sítrónubitana og sykurinn í matvinnsluvél og notið púlstakkann þar til sítrónubitanir hafa maukast og blandast vel saman við sykurinn (sýran úr sítrónunni mun leysa upp sykurkristallana). Setjið maukið í meðalstóra skál og setjið til hliðar.

Setjið jarðarberin í matvinnsluvélina og gerið að mauki. Blandið jarðarberjablöndunni saman við sítrónusykursblönduna ásamt safa úr 1 sítrónu. Setjið blönduna inn í ísskáp og leyfið að kólna alveg.

Frystið í íssvél samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda.

[Ef þið eigið ekki ísvél er hægt að fylgja þessum leiðbeiningum hjá David Lebovitz.]

Gerir ca. 1.5 lítra af ís

Prenta uppskrift

3 athugasemdir Post a comment
  1. Anna Pála #

    YUM! Kram til sparkandi kvikindisins ;)

    30/04/2012
  2. Eva #

    Mikið er þessi girnilegur hjá þér!

    08/05/2012

Trackbacks & Pingbacks

  1. Jarðarberjafrostpinnar | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: