Skip to content

Posts from the ‘Jarðarber’ Category

Skonsur með jarðarberjum og rjóma

Við fengum góða vinkonu okkar í heimsókn einn góðviðrisdaginn í vikunni. Ég átti eiginlega ekkert til að bera fram nema öskju af jarðarberjum og fullt af rjóma.

Elmar keypti stóran pela af rjóma í kræklingaréttinn og til að forða rjómanum frá skemmdum ákvað ég að baka þessar dýrðlegu rjómaskonsur til að hafa með ferskum jarðarberjunum og meiri rjóma. Þetta er sígildur bandarískur eftirréttur og er mikið borðaður hérna vestra á sumrin. Ég hef margoft bakað þessar skonsur (án þess að setja inn uppskrift) og þær eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þær eru sérstaklega góðar sem matarbrauð og við höfum tvisvar mætt með þær í Þakkargjörðarboð. Ég mæli eindregið með að prófa að baka þær þegar þið eigið of mikið af rjóma.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjafrostpinnar

Við erum vel undirbúin fyrir hitann hérna úti. Við eigum ísvél, risastóra viftu sem er á fullu þegar loftkælingin er ekki í gangi og bara um daginn splæsti systir mín í frostpinnamót handa mér. Og ég gæti varla verið ánægðari með það. Það er svo ótrúlega auðvelt að búa til frostpinna og það er svo einstaklega skemmtilegt að búa þá til sjálf úr ferskum ávöxtum og vita að þeir eru ekki pakkaðir óþarfa aukaefnum.

Mér sýnist nú á öllu að veðrið sé álíka sólríkt og yndislegt á Íslandi og ég vona að það sé bara forsmekkurinn að góðu sumri. Enda kem ég heim eftir mánuð og mig langar sko ekki til að lenda í því aftur að upplifa 30 stiga hitabreytingu. Fyrst að veðrið leikur svo við okkur öll þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar frískandi og sumarlegar uppskriftir sem við Elmar höldum mikið upp á.

Engiferöl, ískaffi, læmónaðiSorbetar (t.d. mangó, jarðarberja, rabarbara).

Má ég líka stinga upp á sumarpartýi undir berum himni með mexíkósku þema: Guacamole, carnitas og quesadillur. Með bjórgarítum? Ég er viss um að það geti ekki klikkað.

SJÁ UPPSKRIFT

Sterlingstél

Við erum búin að skemmta okkur konunglega síðustu daga með litlu systur minni í glampandi sólskini og hita. Við erum búin að borða á okkur gat, móka í garðinum og gægjast í sum skemmtilegustu hverfi Brooklyn. Það er svo gaman að fá gesti að heiman – sérstaklega þá sem verða jafn yfir sig hrifnir af hverfinu okkar og við.

Þó að ég megi ekki snerta áfengi þessa dagana þá þýðir það ekki að Vesturheimseldhúsið sé uppiskroppa með hráefni í hanastél og mér finnst (svona næstum því) jafn gaman að blanda þau þrátt fyrir ,ástandið’. Við höfum búið til nokkra stórgóða kokteila hérna úti – t.d. bjórgarítu og mojito – og Embla og Elmar ábyrgjast að þessi sé reglulega góður. Hann er ekki yfirþyrmandi – ekki of sætur, ekki of áfengur (þó það megi alltaf bæta meira gini í drykkinn fyrir þá sem vilja mjög áfenga drykki) – og jarðarberin og basilíkan eru skemmtileg bragðblanda.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjasorbet

Á meðan lóan og spóinn eru óumdeilanlegir vorboðar heima á Íslandi þá er fátt sem gefur eins sterklega til kynna að vorið sé loksins komið hérna úti eins og rabarbarinn, aspasinn og jarðarberin á bændamarkaðnum. Í byrjun birtast þau á markaðnum í takmörkuðu upplagi og einungis þeir árrisulustu fara heim með poka af þessu góðgæti. Ég hef ekki verið ein af þessum heppnu undanfarnar helgar enda er ég vakandi hálfu og heilu næturnar sökum lítilla kröftugra fóta sem sparka í mig innan frá og áður en ég veit af er klukkan orðin alltof margt og ég er ennþá dottandi undir sæng.

Ég get því ekki sagt að þessi ótrúlega ljúffengi sorbet hafi verið búinn til úr lífrænt ræktuðum, nýuppteknum jarðarberjagersemum. Við fórum í búðina um daginn og ég fyllti heilan poka af ávöxtum í tilraun til að sefa sætuáráttu mína. Ég greip tvo bakka af jarðarberjum á útsölu en þegar heim var komið sá ég að þau myndu varla endast mjög lengi, svo þroskuð voru þau.

Ég starði á þau í svolitla stund og velti fyrir mér möguleikunum. Ætti ég að baka? Búa til eitthvert svakalegt jarðarberjasalat? Sjóða síróp? En þá minntist ég uppskriftar fyrir sorbet sem ég hafði séð hjá Smitten Kitchen (er nokkuð orðið of augljóst að ég er farin að eyða heilu og hálfu dögunum í að lesa gamlar færslur frá henni?). Ég hafði merkt við uppskriftina en ákveðið að salta hana þar sem ég sá ekki fram á að eiga heilt kíló af ódýrum jarðarberjum í bráð. Og krakkar, þessi sorbet er unaður. Hann minnir mig svolítið á óáfenga margarítu nema í ísformi og ég hef lúmskan grun um að ef þið setjið nokkrar skeiðar af þessum sorbet, nokkra klaka, slurk af tekíla og smá ferskan límónusafa í blandara að þið fáið hreint magnaða jarðarberjamargarítu. Ég væri allaveganna að brasa við það akkúrat núna ef ég væri ekki svona ábyrgðarfull og samviskusöm ófrísk kona.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjakaka á hvolfi

Gleðilegt sumar! Ég sit við opinn glugga, sólin skín í gegnum grænlaufguð trén og léttklætt fólk í hrókasamræðum labbar letilega framhjá. Ég elska þessa árstíð og gæti engan veginn verið án hennar. Það sem gerir daginn sérstaklega ánægjulegan er að ég finn fyrir sprikli frá lítilli veru undir kjólnum mínum. Það verður nefnilega aukning í litlu Vesturheimsfjölskyldunni okkar í september og við gætum ekki verið ánægðari. Ég get því loksins komið hreint fram og viðurkennt að blogghléið mitt í byrjun árs var sökum ólétturiðu og matarfráhverfu. Ég nærðist aðallega á vatnsmelónum og ristuðu brauði í margar vikur og óttaðist að endurheimta aldrei matarástina. Sem reyndist (auðvitað) vera óþarfa paranoja.

Í tilefni sumardagsins fyrsta, góðra frétta úr 20 vikna sónar og almennri hamingju og gleði ákvað ég að baka köku í dag. Jarðarberjaköku með kardemommubragði sem ég get haft í kaffinu þegar Elmar kemur loksins heim frá morgunkennslu. En núna er kakan komin út úr ofninum, hálfvolg og fallega rauð og ég er þegar búin með helminginn af henni (alveg óvart!). Það er spurning hvort eitthvað verður eftir fyrir spúsann.

Þessi kaka er tilvalin leið til að bjóða sumarið velkomið yfir kaffibolla, blómum og sól. Jarðarberin malla á botni kökuformsins ásamt púðursykri og smjöri og þetta allt saman myndar ofboðslega bragðgóða og þykka jarðarberjasósu. Kökubotninn er léttur, mjúkur og eilítið blautur með ríku kardemommubragði sem passar ákaflega vel með jarðarberjunum. Og það má auðvitað prófa sig áfram með öðrum berjum og ég ætla að prófa hana í sumar með rabarbara. Berið hana fram með nýþeyttum rjóma og bjóðið sumarið velkomið.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: