Skonsur með jarðarberjum og rjóma
Við fengum góða vinkonu okkar í heimsókn einn góðviðrisdaginn í vikunni. Ég átti eiginlega ekkert til að bera fram nema öskju af jarðarberjum og fullt af rjóma.
Elmar keypti stóran pela af rjóma í kræklingaréttinn og til að forða rjómanum frá skemmdum ákvað ég að baka þessar dýrðlegu rjómaskonsur til að hafa með ferskum jarðarberjunum og meiri rjóma. Þetta er sígildur bandarískur eftirréttur og er mikið borðaður hérna vestra á sumrin. Ég hef margoft bakað þessar skonsur (án þess að setja inn uppskrift) og þær eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þær eru sérstaklega góðar sem matarbrauð og við höfum tvisvar mætt með þær í Þakkargjörðarboð. Ég mæli eindregið með að prófa að baka þær þegar þið eigið of mikið af rjóma.
Skonsur með jarðarberjum og rjóma
(Uppskrift að skonsum frá Smitten Kitchen)
- 20 g smjör, brætt
- 2 bollar [250 g] hveiti
- 1 msk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 1 msk sykur (má sleppa)
- 1.5 bollar [354 ml] rjómi
- 1 askja jarðarber
- þeyttur rjómi
Aðferð:
Hitið ofninn í 220°C/425°F. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og setjið til hliðar.
Bræðið smjörið og setjið til hliðar.
Sigtið þurrefnin ofan í stóra skál. Hellið 1 og 1/4 bolla af rjómanum út í skálina. Blandið saman. Ef deigið er ekki nógu mjúkt og ekki nógu auðvelt í meðhöndlun bætið þá smá af rjóma út í í smá skömmtum þar til deigið er mjúkt (ég notaði helminginn af afgangsrjómanum til að ná fram réttri áferð).
Setjið deigið á hveitistráðan flöt og þjappið því saman í bolta. Notið síðan hendurnar eða kökukefli til að þrýsta því niður og út til hliðanna þar til það verður tæplega 2 sm á þykktina. Notið hringlaga kökuskera í stærri kantinum til að skera deigið út.* Dýfið skonsunum ofan í brætt smjörið og raðið á ofnplötuna.
Bakið þar til skonsurnar eru bakaðar í gegn of farnar að gyllast, í 12 til 15 mínútur. Berið strax fram.
[*Þar sem skonsurnar eru besta nýbakaðar þá frysti ég þær sem ég held að verði ekki borðaðar. Það má svo baka þær seinna við sama hitastig en þær þurfa ca. 4 aukamínútur til að bakast í gegn.]
Skerið jarðarberin í tvennt eða fernt (eftir stærð) og setjið í stóra skál. Þeytið rjómann. Skerið skonsurnar í tvennt og raðið jarðarberjum á botninn, setjið þeyttan rjóma yfir og setjið síðan lokið á skonsunni yfir.
Gerir 8 – 12 skonsur, fer eftir hversu stór kökuskeri er notaður
Þetta er sko allt í lagi!