Skip to content

Reine de Saba [Frönsk möndlu- og súkkulaðikaka]

Elmar átti afmæli í síðustu viku og við áttum mjög góðan og afslappandi dag saman. Ég eldaði kræklinga um kvöldið og við fengum okkur dýrindis osta úr Murray’s Cheese Shop og sneið af þessari köku í eftirmat. Ég hef sagt það áður að mér finnst einstaklega gaman að búa til afmæliskökur og mér finnst að allir eigi að fá heimabakaða köku á afmælisdeginum.

Ég gróf þessa uppskrift upp úr bók sem mér þykir afskaplega vænt um, Mastering the Art of French Cooking. Þóra frænka mín gaf mér hana stuttu eftir að ég tók ástfóstri við eldhúsið. Bókin hefur gefið mér mikinn innblástur og kjark til að tækla uppskriftir sem ég hefði annars aldrei þorað að hjóla í. Kakan var ómótstæðilega ljúffeng með ríku súkkulaðibragði og miklu möndlubragði í bland.

Reine de Saba

(Uppskrift frá hinni óviðjafnanlegu Juliu Child: Mastering the Art of French Cooking)

Kakan:

 • 110 g suðusúkkulaði
 • 2 msk sterkt kaffi eða romm
 • 115 g smjör, ósaltað
 • 2/3 bolli sykur
 • 3 eggjarauður
 • 3 eggjahvítur
 • salt á hnífsoddi
 • 1 msk sykur
 • 2/3 bolli möndlumjöl (e. almond meal)*
 • 1/4 tsk möndludropar
 • 1/2 bolli kökuhveiti**

Kremið:

 • 60 g suðusúkkulaði
 • 2 msk sterkt kaffi eða romm
 • 75 g – 85 g smjör, við stofuhita og skorið í 5 – 6 bita

[* Einnig er hægt að setja 1/3 bolla afhýddar möndlur í matvinnsluvél ásamt 2 msk af sykri og láta vélina ganga þar til allt er vel hakkað og mjölkennt]

[**Það er auðvelt að búa til kökuhveiti sjálfur. Setjið 1/2 bolla af hveiti í sigti, takið 1 msk af hveitinu úr og setjið 1 msk af maísmjöli í staðinn. Sigtið ofan í skál þrisvar til fjórum sinnum til að gera hveitið léttara í sér.]

Aðferð:

Hitið ofninn í 350°F/175°C.

Takið fram 8″ hringlaka kökuform og smyrjið vel. Stráið hveiti ofan í formið og bankið síðan allt laust hveiti úr. Setjið til hliðar.

Bræðið súkkulaðið ásamt kaffinu (eða romminu) yfir vatnsbaði. Setjið til hliðar.

Hrærið saman smöri og sykri í hrærivél í nokkrar mínútur eða þar til blandan verður fölgul og létt.

Hellið eggjarauðunum út í smjörblönduna og hrærið vel saman.

Takið fram tandurhreina skál og þeytið eggjahvíturnar ásamt salti á hnífsoddi þar til þær fara að þykkna. Stráið þá matskeiðinni af sykrinum yfir og haldið áfram að þeyta þar til þær eru stífþeyttar.

Notið sleikju til að blanda brædda súkkulaðinu saman við smjörblönduna þar til allt hefur blandast vel saman. Blandið síðan möndlumjölinu saman við og síðan möndludropunum.

Takið 1/4 af eggjahvítunum og blandið saman við deigið. Sigtið síðan 1/3 af kökuhveitinu ofan í skálinaog blandið varlega saman við deigið. Takið þvínæst 1/3 af eggjahvítunum og blandið varlega saman við deigið (varlega til að missa ekki loftið úr eggjahvítunum), þegar þær eru næstum því blandaðar saman við skal sigta næsta þriðjung af kökuhveitinu ofan í skálina og halda áfram að blanda varlega saman. Endurtakið þar til eggjahvítur og hveiti er búið.

Setjið deigið ofan í kökuformið og ýtið við því með sleikjunni til að jafna það út.

Bakið í miðjum ofni í ca. 25 mínútur. Passið samt vel upp á tímann og fylgist vel með því baksturstími getur verið ólíkur eftir ofnum! Endarnir á kökunni eiga að vera bakaðir í gegn en miðjan á að vera svolítið blaut.

Setjið kökuformið á grind og leyfið að kólna í 10 mínútur í forminu. Rennið hníf meðfram forminu og hvolfið kökunni. Leyfið að kólna alveg áður en kremið er sett á.

Kremið:

Bræðið súkkulaðið og kaffið (eða rommið) yfir vatnsbaði þar til það er orðið alveg slétt og kekkjalaust. Takið frá hitanum og hrærið smjörið saman við með písk, einn bita í einu. Þegar smjörið hefur blandast súkkulaðinu skal setja skálina ofan í aðra stærri skál með vatni og klökum og haldið áfram að hræra þar til krem hefur myndast. Smyrjið kökuna strax með kreminu og skreytið með möndlum.

Bon appétit!

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
 1. Falleg kaka og örugglega góð :) Einhver ómótstæðilegur “gömlu daga retro sjarmi“ yfir henni…

  12/06/2013

Trackbacks & Pingbacks

 1. Moules à la Marinière [Kræklingar í hvítvíni] | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: