Skip to content

Vorlauks- og engifernúðlur með pækluðum gúrkusneiðum


Það er fellibylur á leið upp austurströndina og stefnir á New York.  Strætóar hætta að ganga og borgarstjórinn hefur ákveðið að stöðva allar lestarsamgöngur í borginni frá og með hádegi í dag. 370 þúsund manns hafa þurft að rýma heimili sín þar sem flóðahætta er talin skapast af ofsaviðrinu. Við fórum í búðina í gærkvöldi til að kaupa mat fyrir næstu daga (enda ekki víst að búðir geti verið opnar þegar samgönguleiðir lokast) og hittum þar fyrir nánast alla í stóra hverfinu okkar. Raðirnar voru lygilega langar og brauð- og kartöflusnakkshillur voru galtómar. Við erum mjög róleg yfir þessu öllu saman og ætlum bara að hafa það notalegt á milli þess sem við pökkum niður íbúðinni. Ég hef reyndar smá áhyggjur af gluggunum sem eru svo illa einangraðir að í miklu úrhelli þá rignir inn um þá. Annars verður bara fróðlegt fyrir veðurnörd eins og mig að fylgjast með veðuráhrifum fellibylsins. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem varað er við miklum veðurofsa síðan við fluttum og ég á enn eftir að upplifa slíkt.
En nóg af veðri. Mig langar til að deila með ykkur einfaldri, ódýrri og ljúffengri núðluuppskrift. Við erum þegar búin að borða þennan rétt þrisvar sinnum á nokkrum dögum og ég býst við að hann verði reglulega á boðstólum í vetur. Hægt er að eiga krukku af pækluðum gúrkum og sósu inni í ísskáp og þá þarf bara að sjóða núðlur og steikja smá grænmeti með. Maturinn er þannig til á innan við 10 mínútum og er seðjandi á meðan gúrkurnar gefa honum ferskt mótvægi.
Uppskriftin segir að maður eigi að nota vínkjarnaolíu bæði í sósuna og í steikinguna á grænmetinu. Ég átti ekki slíkt við höndina og notaði ólívuolíu í sósuna og canolaolíu í steikinguna í staðinn. Ég ætla mér samt að fjárfesta í vínkjarnaolíu bráðlega þar sem ég býst við að búa til þennan rétt reglulega. Það er hægt að skipta út blómkálinu fyrir annað grænmeti (eða kjöt) sem til er í ísskápnum. Ég notaði sobanúðlur en það er auðvitað hægt að nota ódýru pakkanúðlurnar líka.

Vorlauks- og engifernúðlur með pækluðum gúrkusneiðum

(Uppskrift frá David Chang: Momofuku)

Pæklaðar agúrkur

 • 1 agúrka
 • 1 msk sykur
 • 1 tsk sjávarsalt

Aðferð:

Skerið gúrkuna í þunnar sneiðar og setjið í skál (eða krukku) ásamt sykrinum og saltinu. Geymið í a.m.k. 20 mínútur. Geymist í rúma viku í kæli.

Vorlauks- og engifersósa

 • 10 vorlaukar, skornir í sneiðar [ég hef líka notað 5 skallotlauka í staðinn með góðum árangri]
 • 1/2 bolli engiferrót, fínt söxuð
 • 1/4 bolli vínkjarnaolía [ég notaði ólívuolíu]
 • 1 1/2 tsk sojasósa
 • 3/4 tsk sjerríedik [líka hægt að nota hrísgrjónaedik]
 • 3/4 tsk sjávarsalt

Aðferð:

Setjið allt saman í skál (eða krukku) og blandið vel saman. Leyfið að standa í a.m.k. 20 mínútur. Geymist í tæpa viku í kæli.

 • 250 g soba- eða ramennúðlur
 • 4 handfylli blómkál, skorið í bita
 • Vínkjarnaolía til steikingar [ég notaði canolaolíu]

Aðferð:

Steikið blómkálsbitana yfir á pönnu yfir meðalháum hita. Passið að hafa gott bill á milli bitanna því annars soðna þeir frekar en steikjast (það er gott að steikja þá í nokkrum hollum).

Sjóðið núðlurnar samkvæmt upplýsingum á pakka. Hellið vatninu frá núðlunum og veltið þeim upp úr vorlauks- og engifersósunni.

Skiptið núðlunum í tvær skálar og leggið pæklaðar gúrkur og steikta blómkálið ofan á.

Fyrir 2-3

3 athugasemdir Post a comment
 1. Spennandi réttur! Vonandi sleppið þið við fellibylinn…..
  Kveðja frá Dalvík!

  27/08/2011
 2. Held ég verði að prófa þennan rétt í vetur, já það verður fróðlegt að fylgjast með veðrinu á morgun. Kveðja frá Vermont.

  27/08/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Penne með ofnristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: