Skip to content

Ískaffi

Það er brjálað veður úti. Þrumur svo háværar að ég held að þær séu beint fyrir ofan hausinn á mér og rigningin er svo mikil að ég sé ekki út um gluggana okkar. Það er notalegt að vera inni og heyra í veðrinu úti fyrir á meðan ég úða í mig misheppnuðum bláberjasorbet og hlusta á útvarpsþátt um vín. Kósy dagur hjá mér á Manhattan.

En það er ekki veðrið sem mig langaði til að segja ykkur frá. Það sem mig langar virkilega til að deila með ykkur er þetta ískaffi. Ég er mjög hrifin af  ískaffi en það var eiginlega nauðsyn sem kenndi mér að kunna að meta það því ég hreinlega gat ekki (og get ekki) drukkið heitt kaffi í 40°C hita.

Ískaffi, eins og venjulegt kaffi, er afskaplega mismunandi eftir sölustöðum og þeim aðferðum sem beitt er við uppáhellingu. Versta aðferðin sem þú getur beitt er að hella upp á heitt kaffi og láta það kólna í ísskápnum. Fyrir alla muni, sleppið því! Það verður einstaklega biturt og mun ekki renna ljúflega niður, ég lofa. Kaffið sjálft skiptir líka máli þó ég sé ekki hlynnt því að eyða miklum pening í baunir sem enda í ískaffi. Reynið bara að sleppa Merrildpokunum. 
En ískaffið sem við höfum verið að drekka frá því að við komum aftur út er útgáfa af víetnömsku ískaffi. Það er í raun mjög einfalt, við setjum eina matskeið (eða í mínu tilfelli tvær) af sætri niðursoðinni mjólk út í ískaffið og hrærum vandlega þar til hún hefur blandast við kaffið. Þetta dregur mjög úr biturleika svarta kaffisins og gerir það sætara (sætumagnið fer auðvitað alfarið eftir hversu mikil mjólk er notuð) og gefur því karamellukenndan keim og mýkri áferð. Þetta er hrein snilld.

Ískaffi

(Breytt uppskrift frá The Pioneer Woman)

  • 120 g sterkt kaffi, grófmalað
  • 2 l vatn (kalt, ekki heitt!)

Aðferð:

Setjið kaffi og vatn saman í stóra skál. Notið skeið eða spaða til að blanda kaffinu saman við vatnið, náið öllu kaffinu blautu. Setjið lok á skálina eða lokið með plastfilmu og leyfið að standa við stofuhita á dimmum stað í 8 – 12 klukkustundir. Hellið tvisvar sinnum í gegnum kaffisíu og sigti eða grisju og sigti. Geymið í lokuðu íláti inni í ísskáp í allt að 2 vikur.

Gerir 2 lítra


Víetnamskt ískaffi:

  • ískaffi
  • 1 msk sæt niðursoðin mjólk
  • klakar

Aðferð:

Hellið ískaffi í glas og hrærið niðursoðinni mjólk saman við þar til hún hefur leysts upp (eða eins mikið og hún getur leysts upp í köldum vökva). Bætið klökum út í og stingið röri í glasið. Njótið!

4 athugasemdir Post a comment
  1. Þóra frænka #

    Intrestíng!

    15/08/2011
  2. Prófa þetta, ég bý í Vermont með manni og börnum og þar er stundum of heitt fyrir heitan kaffibolla….;)

    20/08/2011
    • Þetta er alveg búið að bjarga okkur í sumarhitanum í New York. En þú heppin að búa í Vermont samt, þar er svo fallegt!

      20/08/2011

Trackbacks & Pingbacks

  1. Jarðarberjafrostpinnar | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: