Skip to content

Posts from the ‘Drykkur’ Category

Brooklyn

,,Jæja, við erum ekki í Brooklyn lengur,“ hugsaði ég þegar ég labbaði í strætó þriðjudagsmorguninn. Jörðin var þakin snjó og ennþá dimmt úti. Haustið er langt, litríkt og hlýtt úti í New York og það örlaði á smá söknuði hjá mér. En svo, eins og gerist oft þegar ég fyllist slíkri nostalgíu, man ég eftir músunum, þrengslunum og látunum. Ég andaði að mér fersku loftinu, hlustaði á fuglana syngja af ákafa í reynitrjánum og mundi hvað mér finnst í raun yndislegt að vera komin aftur heim í Vesturbæinn.

Í gamla hverfinu okkar leynist ítalskur veitingastaður – Franny’s (sem ég hef bloggað um áður, sjá hér). Staðurinn er ekki bara frægur fyrir afbragðs ítalskan mat heldur einnig fyrir skemmtilegt og framúrstefnulegt drykkjarval. Drykkirnir eru oft árstíðabundnir og nota hráefni sem eru við hæfi hverju sinni. Einn frægasti drykkurinn þeirra er þeirra túlkun á hanastélinu Brooklyn. Ég varð því mjög glöð þegar ég fann uppskriftina að honum í fallegu matreiðslubókinni þeirra og var fljót til að blanda hann þegar við fengum helgarpössun um daginn. Hann er eilítið súr, eilítið sætur og blandaður með uppáhaldsáfenginu mínu – bourboni. Fullkominn haustdrykkur til að skála með ykkar uppáhalds.

(Í þessum dansi hausts og veturs má ég til með að mæla með Heitum Teit, sem er allra meina bót þegar kvefpestir fara að skjóta upp sínum ljóta kolli.)

SJÁ UPPSKRIFT

Brómberjasveifla

Að pakka niður stúdíóíbúð með lítinn gorm sem skríður út um allt og tætir uppúr kössum jafnóðum og við röðum ofan í þá er þolinmæðisverk. En Þórdís Yrja er svo skemmtileg að það er ekki annað hægt en að brosa út í annað og endurtaka „ó-ó“ í sífellu. Það styttist mjög í heimför og ég er komin með fiðrildi í magann – hvort það sé sökum vægs kvíða eða mikillar eftirvæntingu á ég erfitt með að segja. Ég veit þó að ég verð fegin að segja skilið við litla músakotið og ég hlakka til að búa í íbúð með svefnherbergi (herbergi til þess eins að sofa í! Með hurð sem lokar restina af íbúðinni af!).

Þar sem tollalögin heima banna manni að flytja inn áfengi þá neyðumst við til að drekka birgðirnar og gefa það sem ekki klárast til vina okkar. Ég bjó því til þennan sumarlega drykk handa okkur Elmari þegar hitinn var að buga okkur einn daginn. Fyrst býr maður til smá brómberjasafa og blandar honum síðan við gin, límónusafa og sódavatn. Úr verður svona líka ljómandi fallegur rauðbleikur frískandi sumardrykkur.

Skál!

SJÁ UPPSKRIFT

Gúrkutíð

Við flytjum heim til Íslands eftir nákvæmlega þrjár vikur og ég veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Það eru komin fimm ár frá því ég hélt frá Íslandi til Edinborgar í mastersnám og smá ævintýraleit. Á þeim tímapunkti hefði mig aldrei órað fyrir því að ég myndi síðan eyða fjórum árum í einni skemmtilegustu, menningarlegustu og  fjölbreyttustu borg í heimi. Ég er búin að vera óendanlega heppin. Ég hlakka mikið til að flytja aftur til Íslands en ég veit að ég á eftir að sakna borgarinnar mjög mikið.

Eftir allt músaævintýrið í vetur og vor þá voru eigendur hússins svo góðir að veita okkur aðgang að bakgarðinum í smá tíma sem uppbót fyrir allt umstangið. Hann er, eins og sést á mynd, algjör draumur. Þórdís hefur skemmt sér vel við að liggja með okkur í hengirúminu og við njótum þess mikið að borða allar máltíðir á pallinum (þaðan sem myndin er tekin). Hitinn, garðurinn og sólin kalla á ferskan og kælandi sumardrykk. Það, og sú staðreynd að við þurfum að moka út úr vínskápnum áður en við höldum heim. Ég bjó því til þennan svalandi gindrykk með gúrku, myntu og límónu.

SJÁ UPPSKRIFT

Bourbon íste

Ég hef ekki verið nógu dugleg að setja inn færslur undanfarið en það hefur verið í nógu að snúast. Elmar fór til Riga á ráðstefnu og ég var með systur mína í heimsókn. Hún kemur á hverju ári í heimsókn til okkar og þessi síðasta ferð hennar var jafnvel sú besta. Við áttum mjög góðar stundir saman og brölluðum margt skemmtilegt. Við eyddum einum degi bara tvær saman í Williamburg og villtumst glorhungraðar og þyrstar inn á veitingastaðinn Lodge. Þar pantaði Embla sér einn besta bourbondrykk sem ég hef smakkað. Ég vissi að ég yrði að reyna að búa hann til sjálf.

Það reyndist ekki erfitt að blanda hann sjálf heima. Bourbon er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég hef oftast tengt drykki blandaða með bourboni við veturinn. Þessi drykkur breytir því. Hann er mjög frískandi, bourbonið og ísteið passa vel saman og hann rennur jafnvel of auðveldlega niður – fullkominn sumardrykkur. 

Tónlist með: Summertime með Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong

SJÁ UPPSKRIFT

Ananas- og myntuvodka

Ég er svo fegin að vera alveg laus við veturinn, við mýsnar (vonandi!) og sé fram á notalegar, hlýjar og sólríkar vikur áður en við flytjumst búferlum aftur til Íslands. Það er svo margt sem við eigum eftir að sakna héðan að það þyrmir stundum yfir mig. Ég reyni að draga djúpt andann og sætta mig við að ég get engan veginn komist yfir allt sem mig langar að gera, borða, drekka og sjá. Embla Ýr, systir mín, kemur í næstu viku og við ætlum að fara í nokkrar pílagrímsferðir saman.

Með rísandi sól og hækkandi hitastigi má búa til eitthvað með smá hitabeltisþema. Ég tók fram vodkaflöskuna okkar og ákvað að búa til ananas- og myntuvodka. Það er fáránlega einfalt að búa til bragðbættan vodka. Í rauninni má taka hvaða ávöxt sem er (eða chili, eða kryddjurtir) og láta hann liggja í vodkalegi í einhvern tíma – Kristín Gróa bjó til dæmis til þennan girnilega jarðarberjavodka í fyrrasumar. Það er í raun mjög fínt að nota einhvern ódýran vodka í þennan drykk, það er bara frekar kaldhæðnislegt að ódýrasta vodkað í vínbúðinni minni er hið fína íslenska vodka Reyka.

SJÁ UPPSKRIFT

Agave margaríta

Þegar ég var orðin nokkuð viss um að búið væri að loka öllum glufum inn í íbúðina birtist önnur mús. Ég er orðin mjög þreytt á þessu ástandi og hef nokkrum sinnum verið komin á fremsta hlunn við að pakka öllu dótinu okkar og flýja heim til Íslands. En svo man ég að það er snjór og frost heima, við erum ekki búin að fá íbúð og sólin skín skært í Brooklyn. Því sit ég sem fastast. Það styttist í voruppskeruna á markaðinum og ég er með langan lista af uppskriftum sem ég ætlaði að elda. Ég bít tönnum saman, bíð eftir að verktakinn komi og troði glerbrotum og steinsteypu í glufurnar og reyni mitt besta að halda mínu striki.

Hræðsla mín við mýsnar fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. En þegar taugarnar eru útþandar og ég orðin þreytt þá finnst mér gott að fá mér einn sterkan drykk til að róa mig niður. Það virkar líka prýðisvel í mínu tilfelli. Í tilefni þess að cinco de mayo er á næsta leiti þá prófaði ég að blanda þessa einföldu og ljúffengu margarítu. Ég er löngu búin að gefast upp á alltof sætum frosnum margarítum í risaglasi – eins og ég var nú hrifin af þeim í den. Núna finnast mér þær langbestar hristar eða hrærðar, ýmist í fallegu glasi eða bara lítilli krukku. Þessi uppskrift sleppir því að nota triple sec en notar í staðinn ljóst agave síróp – sem er snilld því tekíla er einmitt unnið úr agaveplöntunni. Súr, eilítið sæt, köld og áfeng margaríta.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: