Bourbon íste
Ég hef ekki verið nógu dugleg að setja inn færslur undanfarið en það hefur verið í nógu að snúast. Elmar fór til Riga á ráðstefnu og ég var með systur mína í heimsókn. Hún kemur á hverju ári í heimsókn til okkar og þessi síðasta ferð hennar var jafnvel sú besta. Við áttum mjög góðar stundir saman og brölluðum margt skemmtilegt. Við eyddum einum degi bara tvær saman í Williamburg og villtumst glorhungraðar og þyrstar inn á veitingastaðinn Lodge. Þar pantaði Embla sér einn besta bourbondrykk sem ég hef smakkað. Ég vissi að ég yrði að reyna að búa hann til sjálf.
Það reyndist ekki erfitt að blanda hann sjálf heima. Bourbon er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég hef oftast tengt drykki blandaða með bourboni við veturinn. Þessi drykkur breytir því. Hann er mjög frískandi, bourbonið og ísteið passa vel saman og hann rennur jafnvel of auðveldlega niður – fullkominn sumardrykkur.
Tónlist með: Summertime með Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong.
Bourbon íste
- 1 – 2 msk bourbon
- 1 tsk sykursíróp*
- 2 tsk ferskur sítrónusafi
- myntustilkur
- klakar
- íste (ég bjó til íste úr english breakfast)**
[*Það er mjög auðvelt að búa til sykursíróp. Sjóðið einn bolla af sykri í einum bolla af vatni þar til sykurinn hefur leysts upp. Kælið.]
[**Ég bý til íste með því að setja 4 bolla af köldu vatni í könnu og set svo 5 tepoka út í. Geymi í kæli í a.m.k. 4 klukkutíma áður pokarnir eru teknir úr vatninu.]
Aðferð:
Takið fram hátt glas. Hellið bourbon, sírópi og sítrónusafa í glasið og hrærið vel saman. Rífið eitt lauf af myntustilkinum og setjið í botninn. Merjið myntulaufið með skafti af sleif. Fyllið glasið með klökum og hellið ísteinu yfir. Skreytið með myntustilk og sítrónubát.
Gerir 1 drykk
Sjúklega girnó! Mér finnst einmitt svo sumarlegt að fá mér bourbon í engiferöl
Ómægaaaad!
Þetta er svo magnaður drykkur!
Riga er dásamleg borg og þessi drykkur lítur dásamlega út.