Soba með wakame og sesamfræjum
Elmar fer til Riga í dag þar sem hann mun eyða nokkrum dögum í að hlusta á og tala um heimspeki. Ég væri örugglega svolítið afbrýðissöm ef ég ætti ekki von á systur minni á allra næstu dögum. Ég hlakka ofboðslega mikið til enda eru ferðir hennar til New York með skemmtilegri viðburðum ársins. Við erum ansi samstilltar þegar það kemur að ferðalögum. Einu búðirnar sem farið er í eru vín-, matar- og búsáhaldabúðir og dagarnir snúast um rólega göngutúra, bakstur, mat og drykki.
Þessi réttur er kannski ekki allra. Ég er mjög hrifin af þurrkuðum þara og get auðveldlega borðað heilan pakka ein – sérstaklega með bjór. En sumir eru ekki á sama máli og til að fíla þennan rétt þá þarf manni að finnast þari bragðgóður. Annars má örugglega sleppa þaranum og setja ofnbakað eggaldin í staðinn. Jafnvægið í réttinum er með besta móti – ferskleikinn frá agúrkunum og kryddjurtunum vegur vel á móti seltunni í þaranum og sesamfræin gefa smá kröns. Sósan er sæt, súr og með smá chilihita. Þetta er stór skammtur og seðjandi. Hann entist okkur Elmari í þrjár máltíðir.
Soba með wakame og sesamfræjum
(Uppskrift frá Yotam Ottolenghi: Plenty)
- 2 agúrkur, með hýðinu á
- 2 tsk salt
- 300 g sobanúðlur
- 50 g wakame (eða annað þurrkað sjávarþang)
Sósan:
- 2 msk hrísgrjónaedik
- rifinn börkur af 2 límónum
- 1/4 bolli límónusafi
- 1 msk rifin engiferrót
- 1 – 2 fersk chili, fínsöxuð
- 1 msk sykur
- 2 msk ristuð sesamolía
- 2 msk jarðhnetuolía (ég notaði repjuolíu)
- 1 msk sæt chilisósa
- 1 hvítlauksgeiri, fínsaxaður
- 3/4 tsk salt
——
- 1/2 bolli ristuð sesamfræ
- 2 bollar kóríanderlauf, söxuð
- 3/4 bollar myntulauf
Aðferð:
Rífið agúrkurnar með mandólíni, í matvinnsluvél eða með rifjárni. Setjið síðan í síu og sáldrið salti yfir. Hrærið vel saman og leyfið að standa í a.m.k. 30 mínútur.
Setjið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið í 4 til 5 mínútur, eða eins og stendur á pakkanum. Hellið vatninu frá, skolið upp úr köldu vatni og setjið til hliðar til að leyfa núðlunum að þorna.
Leggið wakame í bleyti í volgu vatni í ca. 10 mínútur eða þar til það mýkist. Setjið í stóra skál ásamt núðlunum og agúrkustrimlunum.
Hrærið hráefnunum í sósuna saman í skál. Smakkið til, sósan á að vera sæt, súr með hita frá chiliinu. Bætið við salti, ediki eða sykri eins og við á. Hellið sósunni yfir núðlurnar og blandið öllu varlega saman. Bætið síðan sesamfræjunum, kóríanderlaufunum og myntulaufunum saman við.
Fyrir 4 – 6
Hmmmm …. Sýnist nokkuð asíst!