Skip to content

Kaldar núðlur með pækluðu grænmeti og kóríander

Það er komið sumar í borginni og ég gæti ekki verið glaðari. Konurnar eru farnar að ganga í fallegu sumarkjólunum sínum, garðurinn er þéttsetinn og bændamarkaðurinn verður meira spennandi með hverri vikunni. Ég ætla njóta hitans og rakans til fullnustu áður en ég flyt aftur heim til Íslands. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að íbúðin okkar verður mjög heit og það er erfitt að berjast gegn þunga loftinu sem sest þar að. Eigendurnir eru ekki byrjaðir að kæla og því reyni ég að kveikja sem minnst á eldavélinni og ég er í sjálfskipuðu banni frá ofninum þar til veðrið kólnar eða kveikt verður á kælingunni.

Ég var að fletta í gegnum nýjasta tölublað Bon Appétit en þar er að finna mjög sumarlegar uppskriftir. Meðal þeirra er þessi fíni núðlusalatsréttur sem er einfaldur, ferskur, ódýr og maður þarf aðeins að kveikja á eldavélinni til að sjóða núðlurnar. Allt hráefni ætti að fást í hann heima nema kannski daikon*. Daikon er japönsk rófa, hvít að lit, fremur vatnsmikil og mild á bragðið. Það ætti samt ekki að saka að skipta henni út fyrir radísur eða jafnvel venjulega rófu. Við vorum mjög hrifin af þessum rétti og ég hugsa að hann verður vikulega á matseðlinum í sumar.

*Daikon er víst kínahreðka og ætti að fást í Bónus (takk fyrir upplýsingarnar Inga Hlín).

Kaldar núðlur með pækluðu grænmeti og kóríander

(Uppskrift frá Bon Appétit, júní 2013)

  • 170 g flatar núðlur (t.d. pad thai núðlur)
  • 1 lítill hvítlauksgeiri, fínt saxaður
  • 1/4 bolli [60 ml] fiskisósa
  • 3 msk ferskur límónusafi
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk rifið engifer
  • 1/2 tsk svartur pipar
  • 1 stór rófa (ég notaði daikon, það má líka nota radísur eða aðra rófu), ca. 450 g, skorin í strimla
  • 1 agúrka, skorin í þunnar sneiðar
  • 2 stórar gulrætur, skornar í strimla
  • 1/4 bolli [60 ml] grænmetisolía (ég notaði repjuolíu, vínsteinsolía eða sólblómaolía eru líka góðir valkostir)
  • 1 bolli kóríanderlauf, rifin
  • 3/4 bolli [tæpir 2 dl] ristaðar ósaltaðar jarðhnetur (má líka nota kasjúhnetur)

Aðferð:

Eldið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Þegar þær eru orðnar mjúkar skal skola þær undir köldu vatni og setja til hliðar.

Hrærið saman hvítlauk, fiskisósu, límónusafa, ediki, sykri, engiferi og pipar í stórri skál. Bætið rófunni, agúrkunni og gulrótinni saman við. Veltið öllu vel saman og leyfið að standa í ca. 10 mínútur.

Bætið núðlum, olíu, helmingnum af kóríanderlaufunum og helmingnum af hnetunum út í skálina. Veltið öllu saman.

Toppið með restinni af kóríanderlaufunum og hnetunum.

(Það má pækla grænmetið allt að 2 dögum áður en bera á réttinn fram. Geymið þau í kæli.)

Fyrir 4.

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Hlín #

    Er Daikon ekki það sama og Kínahreðka? Hún fæst í Bónus.

    24/05/2013
    • Jú það passar! Samkvæmt snöru er daikon kínahreðka. Takk kærlega fyrir :)

      25/05/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: