Guinness- og súkkulaðimöffins
Jæja, ég lofaði ykkur fleiri Guinnessuppskriftum. Guinness er nefnilega ekki bara góður í kjötkássur heldur er hann líka mjög góður í súkkulaðikökur(!). Ég er búin að vera svo spennt fyrir að búa til þessi möffins að þegar ég vaknaði í morgun með flensu þá datt mér ekki í hug að hætta við áform mín. Ég vafði trefli um hálft andlitið á mér (til að hræða ekki börnin með draugslegu útliti mínu), setti á mig sólgleraugu og dró fæturnar á eftir mér upp í búð. Eftir á að hyggja hef ég örugglega verið einstaklega vafasöm í útliti og það útskýrir kannski af hverju starfsmaður í búðinni virtist alltaf eiga erindi í þær hillur sem ég var að seilast í.
En aftur að uppskriftinni. Þessi uppskrift er upprunalega kaka sem ég hef venjulega sett súkkulaðikrem á. Og hún er furðanlega góð! Ég var ekki alveg viss í fyrsta skipti sem ég bjó hana til og átti svolítið erfitt með að ímynda mér hvernig Guinness, sýrður rjómi og súkkulaði myndu bakast saman. En hún kom mér skemmtilega á óvart. Ég ákvað samt, þar sem dagur heilags Patreks nálgast óðum, að búa til möffins úr uppskriftinni og hafa hvítt krem ofan á. Möffinsin eru mjög góð og heppnast alveg ljómandi vel eins og kakan en ég verð því miður að viðurkenna að kremið sem ég bjó til var alltof sætt – þannig að uppskriftin mun ekki fylgja hér að neðan. Ef þið vitið um góða uppskrift af hvítu kremi þá hvet ég ykkur til að nota hana en ég held samt sem áður að þessi kaka sé best með súkkulaðikremi og bökuð í hringlaga formi með gati í miðjunni. Á smitten kitchen (notið tengil að neðan) er uppskrift að viskíkremi sem ég hef ekki prófað sjálf en hljómar mjög spennandi með þessum kökum.
Guinness- og súkkalaðimöffins
(Frá smitten kitchen)
- 250 ml Guinness
- 225 g smjör
- 100 g kakó, án sætuefna
- 250 g hveiti
- 450 g sykur
- 1 1/2 tsk matarsódi
- 3/4 tsk salt
- 2 stór egg
- 2/3 bolli sýrður rjómi
Aðferð:
Forhitið ofninn í 180°C.
Takið fram 24 möffinsform og leggið á plötu eða ofan í möffinsbakka. Setjið smjör og Guinness í pott og náið upp hægsuðu yfir meðalháum hita. Þegar suðan kemur upp bætið þá við kakói og hrærið þar til blandan verður kekkjalaus. Setjið til hliðar og leyfið að kólna svolítið.
Hrærið hveiti, sykri, matarsóda og salti saman í skál. Takið fram aðra skál og þeytið saman eggjum og sýrðum rjóma. Hellið Guinnessblöndunni saman við og þeytið þar til hráefnin hafa blandast saman (ekki of mikið samt). Bætið hveitiblöndunni saman við og þeytið á lægstu stillingu í smá stund. Takið síðan fram sleikju og blandið varlega saman þar til allt hefur blandast saman.
Fyllið 2/3 af hverju möffinsformi með deigi. Bakið þar til kökurnar hafa bakast í gegn (prófið ykkur áfram með tannstöngli), ca. 17 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt ofan á.
Bjútifúl hjá þér elsku besta!