Skip to content

Posts from the ‘Guinness’ Category

Guinness- og súkkulaðimöffins

Jæja, ég lofaði ykkur fleiri Guinnessuppskriftum. Guinness er nefnilega ekki bara góður í kjötkássur heldur er hann líka mjög góður í súkkulaðikökur(!). Ég er búin að vera svo spennt fyrir að búa til þessi möffins að þegar ég vaknaði í morgun með flensu þá datt mér ekki í hug að hætta við áform mín. Ég vafði trefli um hálft andlitið á mér (til að hræða ekki börnin með draugslegu útliti mínu), setti á mig sólgleraugu og dró fæturnar á eftir mér upp í búð. Eftir á að hyggja hef ég örugglega verið einstaklega vafasöm í útliti og það útskýrir kannski af hverju starfsmaður í búðinni virtist alltaf eiga erindi í þær hillur sem ég var að seilast í.

En aftur að uppskriftinni. Þessi uppskrift er upprunalega kaka sem ég hef venjulega sett súkkulaðikrem á. Og hún er furðanlega góð! Ég var ekki alveg viss í fyrsta skipti sem ég bjó hana til og átti svolítið erfitt með að ímynda mér hvernig Guinness, sýrður rjómi og súkkulaði myndu bakast saman. En hún kom mér skemmtilega á óvart. Ég ákvað samt, þar sem dagur heilags Patreks nálgast óðum, að búa til möffins úr uppskriftinni og hafa hvítt krem ofan á. Möffinsin eru mjög góð og heppnast alveg ljómandi vel eins og kakan en ég verð því miður að viðurkenna að kremið sem ég bjó til var alltof sætt – þannig að uppskriftin mun ekki fylgja hér að neðan. Ef þið vitið um góða uppskrift af hvítu kremi þá hvet ég ykkur til að nota hana en ég held samt sem áður að þessi kaka sé best með súkkulaðikremi og bökuð í hringlaga formi með gati í miðjunni. Á smitten kitchen (notið tengil að neðan) er uppskrift að viskíkremi sem ég hef ekki prófað sjálf en hljómar mjög spennandi með þessum kökum.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjötbaka með Guinness

Dagur heilags Patreks nálgast óðum.  Við Elmar, eins og margir vinir okkar, erum ákafir aðdáendur Guinness og því fannst mér tilvalið að setja inn nokkrar (já það koma fleiri!) uppskriftir sem innihalda þennan unaðslega drykk. Við byrjum Guinnessþemað á kjötböku með Guinness, borin fram með baunum í einkennislit Patta gamla:

Ég var svo spennt fyrir því að elda þennan rétt að ég vaknaði eldsnemma í morgun og byrjaði að elda áður en ég þurfti að mæta í vinnuna. Ég vissi að ef ég byrjaði að elda þegar ég kæmi þreytt heim úr vinnunni þá yrði ekki matur á boðstólum fyrr en undir  miðnætti þar sem kássan þarf rúma tvo tíma inni í ofni. Ég hitaði svo bara kássuna upp í ofninum þegar ég kom heim, drakk eitt rauðvínsglas, fiktaði í ofninum, brenndi á mér puttana og fór svo að fletja deigið. Elmar vildi samt meina að ég hlyti nú að vera orðin svolítið meira en manísk fyrst ég væri farin að vakna fyrir allar aldir með matreiðslufiðring í fingurgómunum. En útkoman var svo frábær að manían hlýtur að vera kærkomin. Þetta er ekta vetrarmatur, bragðmikil kjötkássa í fíngerðu deigi með smjörsteiktum grænum baunum. Við mælum með þessu!

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: