Skip to content

Kjötbaka með Guinness

Dagur heilags Patreks nálgast óðum.  Við Elmar, eins og margir vinir okkar, erum ákafir aðdáendur Guinness og því fannst mér tilvalið að setja inn nokkrar (já það koma fleiri!) uppskriftir sem innihalda þennan unaðslega drykk. Við byrjum Guinnessþemað á kjötböku með Guinness, borin fram með baunum í einkennislit Patta gamla:

Ég var svo spennt fyrir því að elda þennan rétt að ég vaknaði eldsnemma í morgun og byrjaði að elda áður en ég þurfti að mæta í vinnuna. Ég vissi að ef ég byrjaði að elda þegar ég kæmi þreytt heim úr vinnunni þá yrði ekki matur á boðstólum fyrr en undir  miðnætti þar sem kássan þarf rúma tvo tíma inni í ofni. Ég hitaði svo bara kássuna upp í ofninum þegar ég kom heim, drakk eitt rauðvínsglas, fiktaði í ofninum, brenndi á mér puttana og fór svo að fletja deigið. Elmar vildi samt meina að ég hlyti nú að vera orðin svolítið meira en manísk fyrst ég væri farin að vakna fyrir allar aldir með matreiðslufiðring í fingurgómunum. En útkoman var svo frábær að manían hlýtur að vera kærkomin. Þetta er ekta vetrarmatur, bragðmikil kjötkássa í fíngerðu deigi með smjörsteiktum grænum baunum. Við mælum með þessu!

Kjötbaka með Guinness

(Jamie Oliver: Jamie at Home)

 • 2 msk ólívuolía
 • 3 meðalstórir (eða 2 stórir) rauðlaukar, skornir í þunnar sneiðar
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 30 g smjör
 • 2 gulrætur, skornar í bita
 • 2 sellerístangir, skornar í bita
 • 4 sveppir, helst brúnir sveppir – portobello eða shiitake (ef smærri sveppir eru notaðir þá þarf að auka magn), skornir í sneiðar
 • 1 kg nautakjöt, t.d. gúllas, skorið í 2 sm stóra teninga
 • Ferskt eða þurrkað rósmarín, saxið laufin ef ferskt
 • Sjávarsalt og ferskur malaður pipar
 • 500 ml Guinness
 • 2 msk hveiti
 • 200 g cheddarostur (eða annar bragðgóður ostur sem bráðnar auðveldlega)
 • 500 g smjördeig
 • 1 egg, hrært

Aðferð:

Hitið ofninn í 375°F/200°C.

Takið fram stóran eldfastan pott og setjið yfir lágan hita. Hitið ólívuolíuna í pottinum og bætið rauðlauknum út í. Steikið yfir lágum hita í ca. 10 mínútur eða þangað til að laukurinn verður glær og linur. Ekki leyfa lauknum að brúnast.

Bætið hvítlauknum, smjörinu, gulrótunum, selleríinu, sveppunum saman við og hækkið hitann undir pottinum. Steikið í 3 til 4 mínútur og bætið síðan nautakjötinu, rósmaríninu, saman við. Saltið og piprið eftir smekk. Steikið í aðrar 3 til 4 mínútur. Bætið síðan Guinnessnum saman við ásamt hveitinu og hellið vatni í pottinn þar til það rétt svo þekur hráefnið. Náið upp hægri suðu. Slökkvið undir pottinum, setjið lokið á pottinn og stingið inn í ofninn.

Eldið í 1,5 klukkustund. Takið úr ofninum og hrærið í pottinum. Setjið pottinn aftur inn í ofninn og eldið í klukkustund í viðbót. Takið úr ofninum. Kássan ætti að vera orðin dökkbrún á litinn og bragðmikil. Ef það er mikill vökvi í pottinum þá þarf að elda yfir meðalháum hita, án loksins, þar til aukavökvi hefur gufað upp. Slökkvið undir pottinum. Hrærið helmingnum af ostinum saman við og leyfið að kólna í smá stund.

Takið fram smjördeigið og skerið þriðjung af því frá (fyrir lokið á bökunni). Fletjið út stærri partinn af deiginu þar til það verður ca. 5 mm á þykktina. Leggið ofan í djúpan bökudisk og leyfið umframdeigi að lafa yfir brúnina á diskinum. Penslið með egginu alla brúnina. Hellið kássunni ofan í bökudiskinn og dreifið hinum helmingnum af ostinum yfir. Fletjið svo út minni hluta deigsins þar til það er nógu stórt til að passa ofan á diskinn. Skerið létt (þannig að hnífurinn fari ekki í gegnum deigið) línur ofan á deigið, fyrst langsum og svo þversum, leggið síðan bútinn ofan á bökuna og flettið umframdeiginu upp á lokið. Penslið bökuna með egginu.

Setjið í ofninn og bakið í ca. 45 mínútur eða þar til deigið hefur blásið út og hefur tekið á sig fallegan gulbrúnan lit.

Berið fram með grænum baunum.

Fyrir 4

8 athugasemdir Post a comment
 1. Erla #

  Það er hægt að fá cup-cakes í Sugarland með þessu bragði. Ég hef aldrei lagt í þær.

  12/03/2011
  • Með kjöt og Guinness bragði?! Jæks!

   12/03/2011
 2. Grétar Amazeen #

  Lítur mjög vel út! Ein spurning, vantar ekki upplýsingar um hvar maður notar helminginn af ostinum?

  12/03/2011
  • Takk fyrir ábendinguna! Búin að laga :)
   Helmingurinn fer í kássuna og hinn helmingurinn fer ofan á bökuna áður en henni er lokað með deiginu.

   12/03/2011
   • Grétar Amazeen #

    Ok takk, ég marglas þetta og hélt ég væri orðinn geðveikur :)

    Þessa ætla ég að prófa fljótlega!

    13/03/2011
 3. Inga Þórey #

  Þetta var ljúffengt! Alveg æðislegt :) en ég þurfti ekki að nota neitt vatn, guinessinn dugaði – samt var ég alveg rífleg með gulrætur og sellerí og sveppi og slíkt og með rúmt kíló af gúllassi

  19/03/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Kanilsnúðar: Taka 2 « Eldað í vesturheimi
 2. Súkkulaðihorn | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: