Skip to content

Súkkulaðihorn

Það er eiginlega með ólíkindum hvað tíminn líður hratt þegar maður er í fæðingarorlofi. Mér finnst hálf óraunverulegt að það sé kominn heill mánuður (rúmlega) frá því að við fengum Þórdísi Yrju í heiminn en mikið hefur þessi tími verið skemmtilegur. Við erum loksins farin meira á stjá með gripinn og ég átti einstaklega ljúfan dag á miðbæjarrölti með litlu fjölskyldunni minni um daginn. Við fengum okkur frábæra súpu á Noodle Station og ljúfan kaffibolla á Kaffismiðjunni með góðvinkonu okkar. Það var orðið nauðsynlegt að komast út úr húsi og hitta gott fólk.

Ég ætlaði að taka smá bloggpásu frá bakkelsi, sætabrauði og eftirréttum en svo komu þessi súkkulaðihorn út úr ofninum og ég mátti til með að segja ykkur frá þeim. Því það er fátt sem mér finnst betra en smjördeig. Ég er til dæmis mjög hrifin af kjötbökum, ávaxtabökum, croissant og öllu því sem nýtir slíkt deig. Það er heilmikil fyrirhöfn að búa til ekta smjördeig á franska mátann – þar sem útflöttum smjörstykkjum er pakkað á milli laga af deigi og svo flatt út aftur (og aftur og aftur). En það má líka stytta sér leið með því að búa til einfaldara smjördeig eins og í uppskriftinni hér að neðan. Við fundum þessa uppskrift í Gestgjafanum og höfum aðeins breytt henni eftir okkar höfði. Hornin eru stórgóð pökkuð með fullt af súkkulaði.

Súkkulaðihorn

(Breytt uppskrift frá Sigríði Björk Bragadóttur, Gestgjafinn 5. tbl 2012 )

Deig:

 • 200 g smjör, kalt og skorið í litla bita
 • 200 g rjómaostur
 • 400 g hveiti
 • 2 msk sykur
 • 1/4 tsk salt
 • 3 msk kalt vatn

Fylling:

 • 50 g smjör, brætt
 • 200 g suðusúkkulaði, saxað
 • sykur
 • 4 tsk kanill

Aðferð:

Byrjið á því að búa til deigið. Setjið allt nema vatn í matvinnsluvél og malið þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið vatn út í og blandið þar til allt hefur rétt svo blandast saman.

Setjið blönduna á hreinan borðflöt og hnoðið saman. Hitinn frá höndunum mun mýkja smjörið við hnoðið og deigið mun festast saman á endanum. Hnoðið deigið í kúlu, pakkið í plastfilmu og geymið í ísskáp í klukkutíma.

Hitið ofninn í 180°C og skiptið deiginu í 4 parta. Fletjið hvern part úr á hveitistráðum borðflöt, fletjið það frekar þunnt eða þar til það er 22 cm í þvermál. (Best er að geyma þá parta sem ekki er verið að fletja út í kæli, þéttvafða inn í plastfilmu.)

Penslið deigið með smjöri, stráið kanil og sykri yfir og sáldrið súkkulaði ofan á. Skerið deigið í 8 þríhyrninga (eins og pítsu). Rúllið hverjum hluta upp frá breiðari endanum, beygið endana örlítið svo þið myndið horn. Farið eins að við afganginn af deiginu.

Raðið hornunum á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í 15 mínútur eða þar til þau eru farin að taka lit.

Gerir 32 stykki

Prenta uppskrift

3 athugasemdir Post a comment
 1. Auður #

  Þórdís Yrja er svo mikið yndi! Og svo mikið krútt með risastóru húfuna sína … eða kannski er hún bara svona lítil. Súkkulaðihornin líta líka vel út :)

  16/10/2012
 2. Helena #

  Mmm girnileg horn, hlakka til að prófa.. En má ég nokkuð forvitnast hvaðan diskurinn er sem hornin eru á?

  16/10/2012
  • Þetta er hluti af „fína settinu“ hennar mömmu. Þetta er Royal Copenhagen diskur.

   17/10/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: