Skip to content

Engiferöl

Það er afskaplega heitt í New York og samt misstum við af aðalhitabylgjunni. Sólin skín á milli úrhellisskúra og hver einasta flík sem maður klæðist virðist eiginlega bara vera til trafala. Og á meðan Elmar bíður ólmur eftir haustvindum og kuli í lofti þá brosi ég hringinn og nýt þess að vera úti í sólarylnum í þessar fáu vikur áður en veturinn tekur yfir með tilheyrandi snjó, slabbi og ógeði. (Ég veit að þetta hljómar mjög dramatískt allt saman en ég bara þoli ekki kulda í svona marga mánuði!)

En það sem mér finnst eiginlega skemmtilegast af öllu því sem skemmtilegt er í borginni er að vera komin aftur í mitt eigið eldhús með öllu dótinu, kryddinu og matreiðslubókunum sem ég er búin að sanka að mér. Ég kveiki bara á litlu viftunni minni til að kæla mig niður á milli þess sem ég vesenast í því sem mig hefur langað til að búa til síðustu mánuði. Ein af þessum dásemdum er þetta engiferöl.

Ég er almennt ekki mjög hrifin af gosi. Ég var reyndar alveg sjúk í það sem krakki en síðustu ár hef ég bara engan veginn verið spennt fyrir alltof sætu búbbluvatni með vafasömu litarafti og endalausan E-efna lista. En ég hef samt alltaf verið veik fyrir engiferöli og hef drukkið meira af því síðustu tvö ár en ég þori að viðurkenna. Þannig að þegar ég sá uppskrift að heimalöguðu engiferöli hjá Joy the Baker þá gat ég ekki setið á mér og skellti í einn pott. Ég bætti límónuberki við uppskriftina (því ég er svo hrifin af sítrusávöxtum) og útkoman er algjör snilld! Ölið hefur kryddaðan keim og engiferið læðist svolítið aftan að manni eftir að sopinn er tekinn. Ef ein límónusneið er kreist út í er þetta eins og fínasti óáfengi kokkteill (hæ óléttu konur!) en það skaðar drykkinn ekki að sletta smá gini út í. 

Engiferöl

(Breytt uppskrift frá Joy the Baker)

Engifersýróp:

 • 2 bollar engifer, gróflega saxað
 • börkur af 1 límónu, passið að skera hvítuna vandlega frá berkinum [hún gefur mjög biturt bragð]
 • 2 bollar hrásykur [ég notaði aðeins minna, 1 3/4 bolla]
 • 6 bollar vatn

Aðferð:

Setjið engiferið í matvinnsluvél og vinnið í 2 – 3 sekúndur eða þar til það hefur saxast í smærri bita.

Setjið engifer, hrásykur, vatn og límónubörk í stóran pott og náið upp suðu. Lækkið hitann og leyfið að malla í 1 klst til 1 1/2 tíma eða þar til vökvinn hefur minnkað um rúmlega helming. 6 bollar af vökva eiga að verða að tveimur bollum. [Suðutími getur farið alfarið eftir því hvernig pott þið notið til að sjóða sýrópið í. Miðið við hversu mikið magn er eftir í pottinum áður en þið slökkvið undir. 24/8/2011]

Takið pottinn frá hitanum og hellið í gegnum fíngerða síu [eða síu og grisju] í stóra skál, hreinsið síuna og hellið aftur í gegnum hana. Leyfið sýrópinu að kólna áður en því er hellt í flösku. Leyfið því að kólna algjörlega áður en því er blandað í drykki.

Gerir 500 ml af sýrópi

Engiferöl:

 • 1 bolli sódavatn
 • 3 msk engifersýróp (eða eftir smekk)
 • límónusneið
 • ísmolar

Aðferð:

Setjið allt hréfni í glas og hrærið saman. Drekkið strax.

6 athugasemdir Post a comment
 1. Guðný Ebba #

  Hlakka til að smakka dúllan mín ! (með smá gini útí)

  11/08/2011
 2. Auður #

  Hugsanlega yrði delish að demba smá dökku rommi í þennan annars ótrúlega vel útlítandi drykk. Þú ert bara snillingur ;*

  19/08/2011
  • Elsku Auður, ég hef auðvitað prófað þetta með dökku rommi og það var ljúffengt ;)

   19/08/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Ferskju- og engifersulta « Eldað í Vesturheimi
 2. Jarðarberjafrostpinnar | Eldað í Vesturheimi
 3. Heitur Teitur | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: