Rósakálssalat með eplum og heslihnetum
Hérna vetrar aðeins seinna en á Íslandi og það er greinilegt að árstíðaskiptin nálgast. Prospect Park skartaði þó ennþá haustlegri fegurð þegar við litla fjölskyldan fórum í gönguferð á Þakkargjörðardag. Þórdís Yrja vex og dafnar hratt og er farin að sýna mjög sterkan vilja. Þetta gerir það að verkum að ég er ekki búin að skrifa mikið, ekki byrjuð að baka jólasmákökur og þegar ég ætlaði að skreyta íbúðina um daginn náði ég einungis að setja upp eina og hálfa ljósaseríu. En hún gerir dagana svo skemmtilega að ég sýti það ekki hvað tíminn flýgur frá mér.
Í öllum þessum hasar reyni ég að gleyma því ekki að borða. Ég átti afgang af rósakáli frá Þakkargjörðinni sem ég notaði í þetta frískandi salat. Ég er mjög hrifin af því að nota hnetur í salöt og var mjög hrifin af því að nota heslihnetur í þetta skiptið.
Rósakálssalat með eplum og heslihnetum
(Uppskrift frá The Kitchn)
- 1/4 bolli ristaðar heslihnetur, saxaðar
- 340 g rósakál, skorið í þunnar sneiðar
- 1 epli, skorið í þunnar sneiðar
- 50 g smjör
- 1 msk hvítvínsedik
- 4 tsk sítrónusafi
- 1/2 tsk salt
- 2 msk ólívuolía
- parmesan eða pecorino (má sleppa, þá verður salatið vegan-hæft)
Aðferð:
Sáldrið 2 tsk af sítrónusafanum yfir eplasneiðarnar til að koma í veg fyrir að þær verði brúnar að lit.
Bræðið smjörið í potti yfir meðalháum hita. Eldið þar til smjörið verður brúnt að lit og gefur frá sér hnetulykt. Ekki hræra í pottinum en hristið hann af og til. Hellið smjörinu í skál eða bolla og setjið til hliðar.
Hrærið saman ediki, 2 tsk af sítrónusafa og salti. Hellið smjörinu hægt og rólega út í og hrærið allan tímann. Endurtakið með ólíuvolíuna. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk.
Setjið kálið og eplin í stóra skál. Hellið sósunni yfir og blandið vel saman við. (Núna má geyma salatið í nokkra klukkutíma eða yfir nótt.) Sáldrið hnetunum yfir, rífið ostinn yfir og berið fram.
Þetta bý ég fljótlega til. Afar girnilegt.