Skip to content

Posts from the ‘Salat’ Category

Radísusalat með sætri basilíku og parmesanosti

Í gær kom meindýraeyðirinn aftur og skoðaði íbúðina okkar. Hann staðfesti að engin ummerki væru um mýs og hrósaði okkur í hástert fyrir hversu þrifaleg íbúðin er (svona á meðan hann stóð inni í eldhúsi í grútskítugum skóm – siður sem ég get engan veginn vanist). Ég svaf eins og steinn í fyrsta skipti í margar vikur og vaknaði endurnærð. Það er loksins farið að hægjast aðeins á hjá okkur og við erum smám saman að detta í sumargírinn. Elmar hefur lokið kennslu, hefur varið tillöguna að doktorsverkefninu sínu og öllum námskeiðum er lokið. Hann hefur því hertekið eldhúsið og er farinn að elda kvöldmat öll kvöld. Ég veit ekki alveg hvenær ég endurheimti yfirráð mín í eldhúsinu. En ég ætla ekki að kvarta (mikið) því Elmar er frábær kokkur.

Markaðurinn er yfirfullur af nýuppteknum radísum. Stórt knippi af þeim kostar bara tvo dollara og því er tilvalið að kippa með sér vendi um hverja helgi. Ég er mjög hrifin af þeim og sneiði þær oft þunnt og set þær á nýbakað brauð með smjöri og grófu sjávarsalti. En það er líka tilvalið að nota þær í salat. Ég fékk uppskriftina að þessu salati í bókinni A girl and her pig eftir April Bloomfield, eiganda The Spotted Pig (veitingastaður í West Village sem mig langar mjög mikið til að prófa). Bloomfield er bresk að uppruna og slysaðist inn í matreiðsluheiminn þegar hún missti af inntökuprófi í lögregluskóla. Hún er mjög mikill töffari og á núna þrjá vinsæla veitingastaði í borginni. Radísusalatið er einfalt, fljótlegt og (fyrir okkur) mjög ódýrt. Ég er sérstaklega hrifin af því og ætla að hafa það reglulega í matinn á meðan radísurnar prýða markaðinn.

SJÁ UPPSKRIFT

Eggjasalat

Í hvert skipti sem ég þarf að kaupa sellerí í einhvern rétt handa okkur þá held ég ræðu yfir Elmari. Hún snýst aðallega um hversu pirrandi mér þykir að þurfa að kaupa risavaxinn vönd með ótalmörgum stilkum þegar flestar uppskriftir þurfa bara einn stilk. Eftir situr sellerívöndurinn og fer strax að mýkjast. Þótt mér þyki sellerí gott þá er ég ekki kona í að kjamsa á því í tíma og ótíma.

Það birti því yfir mér þegar ég sá uppskrift á Smitten Kitchen sem notar pæklað sellerí(!). Svo sniðugt. Svo einfalt. Svo má nýta pæklaða selleríið í meira en eggjasalat, túnfiskssalat og kartöflusalat. Það má til dæmis setja það á grillað brauð eða bara borða það beint upp úr krukkunni. Þetta eggjasalat er það besta sem ég hef fengið – dijonsinnepið gefur því hita, dillið ferskleika og selleríið smá bit og sýru. Eggjasalat í fullkomnu jafnvægi.

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakað blómkál með heslihnetum og granateplafræjum

Ég sá fyrst matreiðslubók eftir Yotam Ottolenghi heima hjá Cressidu vinkonu minni. Bókin, Plenty, var fallega mynduð með einstaklega girnilegum grænmetisréttum og ég einsetti mér að eignast hana. En svo gleymdi ég henni og það var ekki fyrr en nýlega þegar ótalmargir matarbloggarar misstu sig yfir nýjustu bókinni hans að ég stökk á Amazon og pantaði mér þessa nýju bók. Bókin heitir Jerusalem og ég er yfir mig hrifin. Ég er oft mjög spennt fyrir þeim matreiðslubókum sem ég fæ í hendurnar en þessa hef ég ekki getað lagt frá mér.

Jerusalem er eftir þá Ottolenghi og Sami Tamimi en þeir ólust báðir upp í Jerúsalem áður en þeir fluttu til London. Þeir þekktust ekki þá enda ólst Ottolenghi upp í Gyðingahluta borgarinnar en Tamimi í austurhluta hennar, í Arabahverfinu. Núna reka þeir nokkra mjög vinsæla veitingastaði í Bretlandi og eru þekktir fyrir einfaldan en bragðmikinn mat.

Jerusalem er því bók sem einblínir ekki einungis á matarmenningu Gyðinga eða Araba heldur skírskota uppskriftirnar til flestra þeirra mýmörgu menningarhópa í borginni. Ég á eftir að reyna að nálgast sum hráefni sem eru ekki seld í almennum matarmörkuðum hér en ég hlakka mikið til að kíkja í Arabahverfið í Brooklyn til að finna za’atar, harissa og granateplasýróp.

Fyrsti rétturinn sem ég prófaði að elda upp úr bókinni er einfaldur blómkálsréttur (við erum sjúk í blómkál á þessu heimili) með ristuðum heslihnetum og granateplafræjum. Bragðið er ótrúlega margslungið þrátt fyrir fá hráefni og granateplafræin gefa því mikinn ferskleika. Við vorum svo hrifin af honum í gærkvöldi að ég stóðst ekki mátið og stökk út í búð og keypti annan blómkálshaus til að hafa réttinn aftur í hádegismat. Þetta er hugsað sem forréttur eða meðlæti en var alveg nógu saðsamt fyrir þrjá í kvöldmat með smá brauði og hummus.

SJÁ UPPSKRIFT

Gulrótarsalat með lárperum, klettasalati og sýrðum rjóma

Síðustu vikur hafa einkennst af miklum gestagangi, svefnþjálfun Þórdísar Yrju og óhóflegri kaffidrykkju. Ég er búin að raða í mig Sörunum sem ég bakaði fyrir örfáum dögum og eitthvað gengur á súkkulaðibirgðirnar mínar sem ég ætlaði að nota í bakstur. Mig langaði því sárlega í eitthvað sem jafnaði þetta allt saman út. Ég pakkaði Sörum í dall og gaf vinum okkar, lofaði sjálfri mér að eiga súkkulaði í eina smákökuuppskrift og dró fram þessa uppskrift að hollu gulrótarsalati.

Þegar ég rek augun í gulrætur þá hugsa ég alltaf um Karíus og Baktus plötuna mína sem ég hlustaði oft og mörgum sinnum á sem barn. Þar rifjar Baktus (eða var það Karíus?) upp þá skelfilegu tíma þegar Jens borðaði bara ,,rúgbrauð og gulrætur“. Ég hef því lengi staðið í þeirri trú að gulrætur hljóti að vera eitthvað það hollasta sem náttúran hefur upp á að bjóða.

Ég greip vönd af þessum fallegu gulrótum á bændamarkaðinum síðustu helgi. Sennilega fara gulræturnar alveg að hverfa úr uppskerunni hjá okkur og því var kjörið tækifæri að búa til eitthvað gott úr þeim. Mér finnst svo gaman að kaupa gulrætur sem eru alla vega á litinn og hafa ólík blæbrigði í bragði. Réttirnir verða líka einstaklega litríkir og fallegir.

Þetta salat er í miklu uppáhaldi hjá Elmari og er í raun fyrirhafnarmeiri útgáfa af gulrótarrétti sem ég hef búið til áður. Gulræturnar eru soðnar og síðan ofnbakaðar með bragðmikilli kryddblöndu, lárperur eru sneiddar og velt uppúr dressingu ásamt gulrótunum og síðan er brauði, klettasalati og örlitlum sýrðum rjóma bætt við. Svo má skreyta réttinn með fræjum – t.d. sesam- eða birkifræjum. Fallegt og bragðgott!

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með eplum og heslihnetum

Hérna vetrar aðeins seinna en á Íslandi og það er greinilegt að árstíðaskiptin nálgast. Prospect Park skartaði þó ennþá haustlegri fegurð þegar við litla fjölskyldan fórum í gönguferð á Þakkargjörðardag. Þórdís Yrja vex og dafnar hratt og er farin að sýna mjög sterkan vilja. Þetta gerir það að verkum að ég er ekki búin að skrifa mikið, ekki byrjuð að baka jólasmákökur og þegar ég ætlaði að skreyta íbúðina um daginn náði ég einungis að setja upp eina og hálfa ljósaseríu. En hún gerir dagana svo skemmtilega að ég sýti það ekki hvað tíminn flýgur frá mér.

Í öllum þessum hasar reyni ég að gleyma því ekki að borða. Ég átti afgang af rósakáli frá Þakkargjörðinni sem ég notaði í þetta frískandi salat. Ég er mjög hrifin af því að nota hnetur í salöt og var mjög hrifin af því að nota heslihnetur í þetta skiptið.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum

Ég er ennþá að jafna mig á hversu litla afganga við áttum frá Þakkargjörðarboðinu okkar og hversu fljótt þeir kláruðust. Mig langar alveg sjúklega mikið í meiri kalkún, sósu og stöppu. Ætli ég verði ekki að grenja okkur inn í eitthvert matarboð þegar að því kemur en við verðum komin aftur út til Brooklyn þegar hátíðin gengur í garð. Mig kitlar í magann við tilhugsunina um að komast aftur í litlu íbúðina okkar, rölta um fallega hverfið og koma lífinu í fastar skorður. Því þó að það sé alltaf gott að vera heima á Íslandi þá finn ég sterklega að líf okkar og heimili er í Bandaríkjunum.

Ég keypti rósakál í Kosti fyrir þessa uppskrift og það var fallegt og ferskt (svona miðað við að hafa verið flutt in frá Bandaríkjunum). Ég gat líka keypt risapoka af pekanhnetum sem var nóg fyrir bæði þennan rétt og pekanbitana.  Sinnepsdressingin passar vel við þetta allt saman, hún er létt og er ekki eins yfirþyrmandi og margar aðrar sem hafa meira fituinnihald. Ef þið eruð að leita að góðu salati með rósakáli og þetta er ekki alveg að falla í kramið þá bjó ég til salat úr grænkáli og rósakáli í fyrra sem var afskaplega gott og var étið upp til agna í Þakkargjörðarpartýinu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: