Skip to content

Kálsalat með ristuðum möndlum

Eins og ég minntist á í síðustu færslu þá fórum við hjónin í Þakkargjörðarveislu hjá vinum vina okkar. Þarna voru samankomnir útlendingar, Bandaríkjamenn, kettir og heil ósköp af forriturum. Við tróðum okkur inn í litla íbúð (lítil á íslenskum mælikvarða en ansi stór á mælikvarða New Yorkbúa), hlóðum borðið af alls kyns góðgæti og átum og drukkum í marga klukkutíma. Þessi hátíð er alveg stórskemmtileg og það er alltaf jafn yndislegt hvað Kaninn er gestrisinn og liðlegur þegar kemur að því að ,ættleiða’ fólk á þessum degi. Ég tók nokkrar myndir og þær eru að finna hér.

Við Elmar bjuggum til þrjá rétti – þetta salat, matarbollur eftir uppskrift frá Suðurríkjum Bandaríkjanna (birtist síðar) og hálfmisheppnaðan rósakálsrétt. Cressida vinkona okkar kom með brjálæðislega góða kartöflustöppu og borðið fylltist fljótlega af blómkálsquiche, tyrkneskum kjötbökum, sætri kartöflumús með pecanhnetum og sykurpúðum og svo mætti lengi telja. Það þarf því kannski ekki að taka fram að við ultum heim á leið svo södd að ég hélt ég þyrfti ekki að borða næsta mánuðinn. Ég elska að það skuli vera nokkrir dagar á ári þar sem maður er í góðum félagsskap og getur borðað fullt af góðum mat, drukkið gott vín með, hlaðið í sig eftirréttum og legið svo á meltunni í matarvímu eftir á. Og ég fæ ekkert samviskubit yfir hversu mikið ég nýt þess.

Þetta salat er brakandi ferskt og vínagrettan er sterk en passar mjög vel við kálið. Það veitti sérstaklega gott mótvægi við magnið af þungum og saðsömum réttum á borðinu. Það er mikið bit í kálinu og það passaði mjög vel við ristuðu möndlurnar og seltuna í parmesanostinum. Salatið sló reyndar alveg í gegn og var einn uppáhaldsréttur margra í veislunni. Það er gott eitt og sér en ég hugsa að það sé einstaklega sniðugt sem meðlæti með kjöt- og fuglaréttum.

Kálsalat með ristuðum möndlum og sinnepsvínagrettu

(Uppskrift úr Bon Appetit, nóvember 2011)

 • 1/2 bolli ferskur sítrónusafi
 • 2 msk dijonsinnep
 • 1 msk skallotlaukur, fínsaxaður
 • 1 hvítlauksgeiri, fínsaxaður eða ýtt í gegnum hvítlaukspressu
 • 1/4 tsk salt
 • Ferskur malaður pipar
 • 2 vendir af grænkáli (ca. 700 g), skerið stilkinn af og skerið laufin í þunnar sneiðar
 • 340 g rósakál, snyrt og skorið í þunnar sneiðar
 • 1/2 bolli extra-virgin ólívuolía
 • 1/3 bolli möndlur, skornar í grófa bita
 • 1 bolli parmesan eða pecorino, rifinn

Aðferð:

Setjið sítrónusafann, dijonsinnepið, skalltolaukinn, hvítlaukinn, saltið og smá pipar í litla skál. Hrærið til að blanda vel saman og setjið til hliðar.

Blandið saman grænkálinu og rósakálinu í stórri skál.

Hellið ólívuolíunni ofan í 1/2 bolla. Flytjið 1 msk af olíunni yfir á litla pönnu. Hitið olíuna yfir meðalháum hita. Setjið möndlurnar á pönnuna og ristið, hrærið reglulega, þar til þær verða ljósbrúnar á litinn, ca. 2 mínútur. Flytjið möndlurnar yfir á eldhúspappír og stráið smá sjávarsalti yfir þær.

Hellið afganginum af ólívuolíunni yfir sinnepsblönduna og hrærið vel á meðan. Smakkið sósuna og bætið við salti og pipar eftir þörf.

Hellið vínagrettunni yfir kálblönduna og veltið öllu vel saman. Hellið ostinum yfir kálblönduna og veltið öllu vel saman. Stráið möndlunum yfir allt saman og berið fram.

Prenta uppskrift

3 athugasemdir Post a comment
 1. Auður #

  Trúi því vel upp á þig að geta gert góðan mat úr rósakáli og grænkáli … ég labba sveig framhjá þessum „mat“ í verslunum :)

  29/11/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum | Eldað í Vesturheimi
 2. Frittata með lauk og kryddjurtum | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: