Skip to content

Posts from the ‘Salat’ Category

Lambasalat með chili og myntu

Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra  þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.

Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.

Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingasalat með kirsuberjum

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir þegar kemur að kjúklingakjöti. Ég er nefnilega voðalega lítið spennt fyrir skinnlausum, beinlausum kjúklingabringum. Ég veit að það er sagt vera ,hollasti’ partur fuglsins og fleira í þeim dúr. En ekki aðeins finnst mér frekar leiðinlegt að matreiða þær heldur finnst mér kjötið yfirleitt of þurrt og lítið spennandi miðað við aðra parta fuglsins. Í mestu uppáhaldi hjá mér eru lærin – með beini og með skinni. Kjötið er meyrara, dekkra, bragðmeira og almennt miklu skemmtilegra að elda. Ég var því mjög spennt þegar ég fletti gömlu eintaki af Bon Appétit og rakst á uppskrift sem notar kjúklingalæri og lætur mann elda skinnið þar til það verður stökkt og skemmtileg viðbót í ferskt salat.

Við Elmar erum mjög hrifin af matarmiklum salötum og eldum t.d. steikarsalatið góða reglulega. Þetta salat er engu síðra og er núna eitt af uppáhaldsréttunum okkar (Elmar setur það m.a.s. í topp tíu af öllu því sem ég hef eldað síðustu árin). Það kom mér á óvart hvað kirsuberin pössuðu vel í salatið og hvað dillið í salatsósunni gaf skemmtilegt bragð. Nú tel ég að kirsuber séu kannski ekkert svo aðgengileg heima en ég held að vel þroskaðir kirsuberjatómatar myndu vera ágætis uppbót. En ef þið finnið kirsuber þá er þetta frábær leið til að borða þau.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

Kálsalat með ristuðum möndlum

Eins og ég minntist á í síðustu færslu þá fórum við hjónin í Þakkargjörðarveislu hjá vinum vina okkar. Þarna voru samankomnir útlendingar, Bandaríkjamenn, kettir og heil ósköp af forriturum. Við tróðum okkur inn í litla íbúð (lítil á íslenskum mælikvarða en ansi stór á mælikvarða New Yorkbúa), hlóðum borðið af alls kyns góðgæti og átum og drukkum í marga klukkutíma. Þessi hátíð er alveg stórskemmtileg og það er alltaf jafn yndislegt hvað Kaninn er gestrisinn og liðlegur þegar kemur að því að ,ættleiða’ fólk á þessum degi. Ég tók nokkrar myndir og þær eru að finna hér.

Við Elmar bjuggum til þrjá rétti – þetta salat, matarbollur eftir uppskrift frá Suðurríkjum Bandaríkjanna (birtist síðar) og hálfmisheppnaðan rósakálsrétt. Cressida vinkona okkar kom með brjálæðislega góða kartöflustöppu og borðið fylltist fljótlega af blómkálsquiche, tyrkneskum kjötbökum, sætri kartöflumús með pecanhnetum og sykurpúðum og svo mætti lengi telja. Það þarf því kannski ekki að taka fram að við ultum heim á leið svo södd að ég hélt ég þyrfti ekki að borða næsta mánuðinn. Ég elska að það skuli vera nokkrir dagar á ári þar sem maður er í góðum félagsskap og getur borðað fullt af góðum mat, drukkið gott vín með, hlaðið í sig eftirréttum og legið svo á meltunni í matarvímu eftir á. Og ég fæ ekkert samviskubit yfir hversu mikið ég nýt þess.

Þetta salat er brakandi ferskt og vínagrettan er sterk en passar mjög vel við kálið. Það veitti sérstaklega gott mótvægi við magnið af þungum og saðsömum réttum á borðinu. Það er mikið bit í kálinu og það passaði mjög vel við ristuðu möndlurnar og seltuna í parmesanostinum. Salatið sló reyndar alveg í gegn og var einn uppáhaldsréttur margra í veislunni. Það er gott eitt og sér en ég hugsa að það sé einstaklega sniðugt sem meðlæti með kjöt- og fuglaréttum.

SJÁ UPPSKRIFT

Steikarsalat með kirsuberjatómötum og gráðosti

Ég er orðin svo yfir mig ástfangin af Brooklyn og þá sérstaklega fallega hverfinu okkar að það kemur alltaf á mig hik þegar fólk vill hitta mig hinum megin við ána á Manhattan. Ef ég veit að ég þarf að fara í miðbæ Manhattan þá þarf ég að tala mig aðeins til því að litla sveitastelpan sem blundar í mér er ekkert sérstaklega æst í að labba í mannmergðinni með ljósasýninguna fyrir augunum og flautulæti leigubílstjóranna í eyrunum. Og sem betur fer þarf ég ekki að fara oft þangað þar sem ég vinn heima og ég þarf ekki að leita langt til að finna frábæra veitingastaði, skemmtilega pöbba og flotta matarmarkaði. Ef þið eruð að ferðast til New York þá mæli ég eindregið og sterklega með því að þið eyðið (að minnsta kosti!) einum degi í einhverju skemmtilegu hverfi (því ekki eru þau öll fríð og fjörug) í Brooklyn.

Eins og ég hef minnst áður á er kominn nýr slátrari í hverfið okkar. Slátrarinn selur einungis kjöt sem hefur fengið eðlilega meðferð – fengið að labba úti í haga, borða gras en hefur ekki verið sprautað með hálfu tonni af sýklalyfjum og troðið út af korni. Ég trúi því staðfastlega að dýr sem alin eru við ,náttúrulegar’ aðstæður gefa af sér betra kjöt heldur en dýr sem alin eru við dapurlegar aðstæður verksmiðjubúskapar. Að minnsta kosti er kjötborð slátrarans það fallegasta sem ég hef séð og allir starfsmennirnir eru lærðir í iðninni og vita því sínu viti. (Kannski reyni ég að fá leyfi hjá þeim til að taka myndir fyrir ykkur.)

Við rákum augun í nautavöðva sem þeir mæltu sérstaklega með í salat síðasta sunnudag og héldum heim á leið með eldrautt kjötið, appelsínugula kirsuberjatómata af bændamarkaðnum og ost úr búðinni undir hendinni. Úr varð þetta unaðslega (ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það), fallega og einfalda steikarsalat. Við elduðum kjötið þannig að það fékk á sig smá skorpu en var ennþá fagurrautt og meyrt að innan. Sinnepsvínagrettan passaði einstaklega vel við kjötið og litlu tómatarnir spýttu út úr sér sætum og ferskum safa þegar maður beit í þá. Þetta er án alls efa eitt það besta sem hefur komið út úr mínu eldhúsi.

SJÁ UPPSKRIFT

Gulróta- og lárperusalat


Ég er búin að setja mér markmið. Ég ætla að halda þessum kryddjurtum á lífi í a.m.k. tvo mánuði. Ég er undirbúin. Jurtirnar eru komnar í leirpotta, í nýja mold og hafa fengið vænan skammt af áburði. Ég keypti harðgerar jurtir sem þurfa ekki vatn á hverjum degi og þurfa ekki 16 klukkustundir af birtu á dag. Ef þær deyja, þá gæti ég endað snöktandi úti í horni. Þetta verða gæludýrin mín næstu vikurnar og lifandi skulu þær vera fyrir jól! En ef þið lumið á einhverjum sniðugum ráðum varðandi svona ræktun þá megið þið endilega deila þeim með mér í athugasemdakerfinu. Ég er nefnilega lítið gefin fyrir að bugast og snökta. Dagsljósið er farið að hverfa úr íbúðinni ansi snemma þessa dagana og ég á eftir að sakna þess að taka myndir í náttúrulegri birtu í gluggakistunni okkar. Ég tók fyrst eftir þessu í dag þegar ég ætlaði að labba með afrakstur kvöldeldamennskunnar út í glugga og uppgötvaði að niðadimmt var orðið úti. Ég hafði búið til þennan stórgóða, einfalda, holla og ódýra rétt í kvöldmatinn. Gulræturnar keypti ég á grænmetismarkaðinum um helgina beint frá uppáhaldsbóndanum mínum og ég er svo ánægð með hversu vel þær fengu að njóta sín í þessu salati. Lárperurnar og sítrónusafinn voru ferskt mótvægi við sætuna sem ofnbaksturinn dró fram í gulrótunum og rétturinn var ótrúlega saðsamur. Það er gott að bera réttinn fram með smá sjávarsalti svo að hver og einn geti kryddað eftir sínum eigin smekk, ég vildi hafa frekar mikð salt á gulrótunum mínum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: