Skip to content

Posts from the ‘Salat’ Category

Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche

Ég er ekki alltaf með á nótunum þegar ég kaupi í matinn. Elmar hefur bent mér á að ég virðist undantekningalaust gleyma einu hráefni þegar ég tíni ofan í kerruna. Og já, ég skrifa innkaupalista en ég virðist líka vera þeim hæfileika gædd að gleyma honum oftast heima. Ekki að það skipti nokkru máli því að ég yfirleitt gleymi að setja eitthvert hráefni á listann og enda því heima bölvandi og ragnandi yfir því að ég þurfi að fara aftur út í búð. Því miður teygir þetta sig líka í eldamennskuna mína. Stundum er það í lagi því hráefnið skipti ekki meginmáli en það kemur líka fyrir að grundvallarhráefni ratar ekki í matinn – eins og þegar mér láðist að salta rísottó (sem ég var búin að nostra við í rúma tvo tíma) sem ég bar svo fram fyrir fimm manns.

Þannig að á þeim dögum sem ég þarf að fara út í búð get ég búist við því að þurfa að fara tvær aukaferðir til að kaupa það sem vantar. Þetta getur verið vandræðalegt þegar sama manneskjan afgreiðir mann þrisvar sinnum á einum klukkutíma.

Við Elmar höfum setið á skrifstofu í Háskólanum í Bergen við sitthvort skrifborðið að vinna að verkefnum. Eða öllu heldur, hann vinnur að þýðingunni sinni og ég þykist vera að undirbúa doktorsverkefnið þegar ég er í raun að skoða matarblogg og ljósmyndir. Þetta þýðir auðvitað að við eyðum dögunum í það að sitja og hreyfa okkur lítið. Ég vildi því búa til léttan kvöldmat í gær og fann þessa uppskrift eftir hetjuna mína Jamie Oliver. Hann mælir reyndar með réttinum í hádegismat en þetta var góður, seðjandi og léttur kvöldmatur fyrir okkur tvö. Kartöflusalatið er örlítið súrt (það er bæði sítróna og edik í dressingunni) og passar afskaplega vel við dillið og rammleika kapersins. Crème fraîche sósan er fersk og vegur upp á móti fitunni í reykta laxinum. Þetta er sumar á diski og ég mæli með þessu með stóru kældu hvítvínsglasi á næsta sólardegi á Skerinu.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskt vatnsmelónusalat

Það er liðinn rúmur mánuður frá því ég setti inn færslu síðast. Ég skammast mín svolítið og vona að fólk haldi ekki að ég sé hætt, því það er ég svo aldeilis ekki. Ég er reyndar búin að vera mikið að heiman þennan mánuðinn og ég hef líka átt erfitt með að finna innblástur til að elda eitthvað nýtt. En nú er ég endurnærð og farin að leggjast yfir uppskriftir og matarblogg af jafnmiklum áhuga og áður. Ég var svo heppin að fá að ferðast til Eistlands til að taka þátt í námskeiði fyrir framhaldsnema í heimspeki og ég var þar í góðu yfirlæti í rúma viku.

Eftir brösulegt ferðalag aftur heim til New York þar sem ég lenti í seinkun á flugi, yfirheyrslu og þröngu miðjusæti þá drifum við hjónin okkur upp í rútu og fórum til Boston þar sem við hittum foreldra og systur Elmars. Að segja að það hafi verið dekrað við okkur þar myndi engan veginn ná að lýsa því lúxuslífi sem við lifðum þessa helgi. Við borðuðum einstaklega góðan mat, skoðuðum borgina og nutum þess að vera saman.

En það er líka gott að vera komin í hversdagsleikann aftur. Elmar er sestur við skrifborðið og skrifar og les af miklum eldmóð og ég er farin að vinna aftur í litlu vafasömu bókabúðinni. New York hefur tekið vel á móti okkur og skartar sínu fegursta. Sólin skín og hitinn er um og yfir 20 gráður, trén skarta fallegum litlum hvítum og bleikum blómum og borgarbúar spássera um í nýuppteknum sumarfötum. Ég nýt þess að geta lagt vetrarkápuna mína til hliðar og er strax farin að plana hvað ég get matreitt til að taka með í lautarferð í Miðgarð um helgina.

Í þessum sumaryl er auðvitað bara við hæfi að fá sér salat í kvöldmat og eftir miklar pælingar ákvað ég að skella mér á tælenskt vatnsmelónusalat úr upppáhaldsbókinni minni eftir Jamie Oliver (Jamie’s Dinners). Ég hef aðeins breytt frá upprunalegu uppskriftinni og birti þá uppskrift hér að neðan. Salatið var einmitt það sem þurfti eftir langan og heitan dag. Vatnsmelónan var svo fersk og blandaðist vel með ostinum og kryddjurtunum, og salatsósan ásamt kóríanderblöðunum gáfu salatinu asískan keim. Vonandi fer sumarið að klekja sig út á Skerinu fagra svo þið getið skorið í salat og borðað út á palli.

SJÁ UPPSKRIFT

Salat með glóðaðri papriku, mozzarellaosti og chili

Ég er búin að vera að blogga (of) mikið um pastauppskriftir. Ég tók ekki einu sinni eftir þessu sjálf heldur þurfti að benda mér á að ég væri greinilega að sækja mikið í þá huggun sem heitir og matarmiklir pastaréttir veita. Ég held að þetta sé febrúartengd árátta, því febrúar er klárlega erfiðasti mánuður ársins.

Ég tók því meðvitaða ákvörðun um að vera með salat en ekki pastasull í kvöldmatinn. Ég lagðist í smá rannsóknir og fann uppskrift af salati með glóðaðri papriku og mozzarellaosti. Ég breytti aðeins út frá upprunalegu uppskriftinni og glóðaði chilialdin með paprikunum og saxaði það síðan smátt og dreifði yfir mozzarellaostinn (mozzarella og chili er mögnuð blanda). Útkoman var mjög góð en þetta var næstum því of sterkt fyrir mína bragðlauka en Elmari fannst hitinn ljómandi góður (enda þekki ég fáa með eins háan chiliþröskuld og hann). Það má því sleppa chiliinu alfarið, nota minna, eða setja smá chiliduft í dressinguna til að fá smá hita í salatið. Ef þið viljið gera þetta að grænmetisrétti þá er hægt að búa til öðruvísi dressingu með sítrónusafa, ólívuolíu, salti og pipar í staðinn fyrir ansjósu-balsamikdressinguna. Ég steikti svo baguettesneiðar á pönnu upp úr smjöri og hafði með salatinu.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskt grænt karrí & asískt chili agúrku salat

Okkur var boðið til Brooklyn í mat á Þakkargjörðarhátíðinni. Vinur okkar, Ástralinn Ben, var svo góður að bjóða okkur að vera hjá honum og herbergisfélögum sínum í Bushwick þar sem þau buðu þrettán manns í alvöru þakkargjörðarhátíðarmat.  Bushwick er fyrrum iðnaðarhverfi en búið er að breyta heilu verksmiðjunum í íbúðarhúsnæði. Þetta tekst misvel en íbúðirnar eru yfirleitt ódýrar með risastóru sameiginlegu rými og herbergjunum skipt niður með spónaplötum. Þannig að þeim tókst að gera (það sem aðeins múltímilljónamæringum er fært að gera á Manhattan) stórt matarboð mögulegt. Þannig að þarna settumst við niður ásamt stórri fjölskyldu frá Texas og hámuðum í okkur kalkún, glóðaðan aspas, grillað rósarkál, tvenns konar fyllingu, maísbrauð, spínatsalat, kartöflumús og sósu.  Og þetta var alveg mikilfenglegt. Við rúlluðum út með mataróléttumaga og létt af rauðvíni. Ég vona bara að við fáum aftur boðsmiða að ári.

Kalkúnninn var risastór og einstaklega ljúffengur.

Og við gerðum matnum góð skil:

Ég ákvað að prófa nýja rétti úr asísku matreiðslubókinni hennar Hemu Parekh og bauð vinkonu okkar í mat til að hafa ástæðu til að búa til tvo rétti. Salatið kom mjög vel út og ég hugsa að ég eigi eftir að hafa það oftar með asískum mat enda er það fljótlegt, ferskt og sterkt – ekki slæmir eiginleikar það. Ég tók því bara rólega í eldhúsinu en eins og svo oft áður þá fannst mér ég vera komin í tímaþröng undir rest. Ekki vanmeta það að tælenskur matur krefst snöggra handtaka og því er best að vera búin að taka allt til áður en kveikt er undir pottinum.

Það voru alls kyns asískar sérvörur í innihaldslista uppskriftarinnar þannig að ég dreif mig niður í Kínahverfið og í stærstu matvöruverslunina þar, Hong Kong Supermarket. Verslunin er mjög skemmtileg, þar geturðu keypt hin ótrúlegustu hráefni á mjög góðu verði og þannig búið til asískan mat sem bragðast eins og það sem maður fær yfirleitt bara á veitingahúsum. En verslunin brást mér illa í þetta sinn. Þeir áttu ekki fersk chili, engin límónulauf, og ekkert galangal. Ég leitaði á öllum stöðum sem mér datt í hug í Kínahverfinu klyfjuð innkaupapokum frá Hong Kong og spurði starfsfólk og götusala (sem flest talaði ekki ensku) með frekar ruglingslegu látbragði hvort þeir ættu þessar vörur og hvar ég gæti fengið þær. Enginn árangur. Ég endaði því í Wholefoods sem einungis áttu fersk chili en sögðust ekki hafa séð límónulauf í langan tíma. Þannig að ég fór heim með engifer í staðinn fyrir galangal og límónur í staðinn fyrir límónulauf.

Ég var frekar svekkt að vera ekki með þau hráefni sem áttu að vera í réttinum og þá sérstaklega að hafa ekki límónulaufin. Ég reif niður börk af einni límónu í staðinn fyrir að nota laufin til að fá eitthvað límónubragð í réttinn. Ég notaði líka engiferrót í staðinn fyrir galangal, en þau eru af sömu rótarættinni. Ég ákvað líka að vera ævintýraleg og keypti ferskan bambus til að hafa í réttinum en þegar ég var komin heim með hann þá fannst mér hann lykta eitthvað furðulega þannig að ég setti aðeins nokkur grömm af honum. (Sem betur fer því að nógu sterkt var bragðið af honum í réttinum þegar allt var tilbúið). Ég hugsa því að ég muni halda mig við að kaupa bambus úr áldós í framtíðinni. En rétturinn var gómsætur þrátt fyrir brasið og óheppnina. Spyrjið bara Elmar sem fékk sér þrisvar sinnum á diskinn (konunni hans til mikillar ánægju). Og eins og áður með þessa tælensku karrírétti þá er hægt að skipta út eða minnka innihald á sumum hráefnum fyrir svínakjöt, kjúklingakjöt eða annað grænmeti.


SJÁ UPPSKRIFTIR

Sesar salat

Bloggið mitt er búið að vera ansi dautt þennan mánuðinn. Það er nú eiginlega góðs viti (fyrir mig) því það þýðir að það er búið að vera nóg að gera og skemmtilegt að vera til. Ég fór í vikuheimsókn til Íslands og naut mín í fimbulkulda undir norðurljósum og kappklædd íslenskum lopa. Það skemmdi auðvitað ekki fyrir að geta farið aftur í gamla herbergið sitt og fá ljúffengan mat frá pabba og sitja að hvítvínsdrykkju fram á kvöld með múttu. Tíminn leið hratt og áður en ég vissi af var ég komin aftur upp í flugvél á leið vestur um haf. Lestarferðin frá flugvellinum var eiginlega frekar skemmtileg á milli þess sem ég hélt fast utan um allar töskur mínar, dottaði og vonaði að enginn myndi nýta tækifærið og hrifsa af mér allar eigur mínar. Konan við hliðina á mér í virtist samt hafa auga með mér á milli þess sem hún borðaði djúpsteiktan kjúkling og franskar upp úr handtöskunni sinni og þurrkaði sér í gamalt dagblað sem hún fann á lestargólfinu. Ég fékk samt ekki mikla hvíld því strax um morguninn stukkum við upp í rútu til Boston.

Boston var alveg yndisleg. Síðast þegar ég fór þangað (árið 2005) fékk ég svo skelfilega vondan mat (ef hægt er að kalla bragðlausan mat vondan). En, mér til mikillar ánægju, var það ekki tilfellið í þetta sinn. Við hittum mömmu, frænku og ömmu hans Elmars þar og áttum einstaklega skemmtilegar stundir yfir mat og drykk. Við fórum meðal annars á mjög góðan eþíópískan stað (engar myndir samt, því miður) og fengum að borða allskyns rétti með brauði (lesist: með höndunum) og reyndum að skola því niður með dísætu eþíópísku hunangsvíni. Ég held að þetta sé í allra fyrsta sinn sem ég klára ekki vín úr glasinu mínu. Svo fengum við okkur ostaköku á Cheesecake Factory og gæddum okkur á gufusoðnum humar síðasta kvöldið okkar. Ég get því auðveldlega mælt með matarferð til Boston.

En kannski ég fari að útskýra tildrög þessarar færslu. Ég mætti upp á John F. Kennedy flugvöll á leið til Íslands alltof snemma og alveg banhungruð eftir langa og óþægilega ,shuttle’ ferð. Af því tilefni ákvað ég að splæsa í mig einu salati á einni af okurbúllunum á vellinum (hvað er eiginlega málið með að leyfa manni bara að velja á milli McDonalds og einhverjum fáránlega dýrum og fremur mislukkuðum veitingastöðum?!). Ég ákvað að fá mér sesar salatið þeirra og þar sem ég var nú einu sinni svöng þá borgaði ég þó nokkra dollara í viðbót til að fá kjúkling á salatið. Ég átti eiginlega ekki til orð þegar ég fékk heilan romaine kálhaus með þremur risavöxnum brauðtengingum ofan á og grillaðan kjúkling með (a.m.k.) dagsgömlu, eiturþurrkuðu tómatsalsa. Ég gúffaði þetta auðvitað í mig en mér fannst þetta vera ansi langt frá því að vera góð útfærsla. Þannig að ég sór þess eið að ég myndi búa til gott sesar salat þegar ég væri komin aftur heim í eldhúsið mitt.

Ég leitaði vítt og breitt að uppskrift sem mér fannst ég ætti að geta treyst þegar ég mundi að Inga vinkona mín (matargúru með meiru) hafði mælt með uppskrift frá Jamie Oliver. Ég ákvað því að skella mér á hana og fiffaði hana aðeins lítillega til. Það var líka sumt í uppskriftinni sem gekk ekki alveg eins vel upp og Jamie vildi telja mér trú um. Brauðteningarnir urðu eiginlega bara blautir og óspennandi við það að liggja í fitunni af kjúklingnum og beikoninu þannig að ég dreifði þeim á bökunarpappír og skellti þeim aftur inn í ofn og eftir nokkrar mínútur urðu þeir stökkir og fínir. Þetta gæti samt hafa orsakast sökum þess að beikon hérna í Bandaríkjunum er alveg sjúklega feitt, hefði ég notað pancetta (eins og Jamie mælir með) þá hefði botninn á mótinu kannski ekki orðið svona mikill fitupollur. Séu þið (eða þeir sem þið eruð að elda fyrir) eitthvað smeykir við ansjósur þá mæli ég nú bara með að prófa það samt. Þegar ansjósurnar hafa verið marðar og blandaðar saman við créme fraiche, sítrónu og olíu þá hverfur sterka bragðið af þeim og þær gefa dressingunni fyllingu og gott saltbragð. (Sleppið því bara að segja hinum matvöndu frá því).

SJÁ UPPSKRIFT

3 einföld salöt

Ég er yfirleitt ein í kvöldmat einu sinni til tvisvar í viku. Sem gerir það að verkum að ég hreinlega nenni ekki að elda. Mig langar reyndar alltaf mest í hvítvín og súkkulaði en reynsla (og smá skammtur af skynsemi) hefur kennt mér að ég enda oftast í sykursjokki og með magapínu. Þannig að undanfarið hef ég búið mér til salat þegar ég er ein heima á kvöldin (og fæ mér súkkulaði í eftirmat – mjög fullorðins). Þessi salöt eru öll mjög fljótleg og (að mér finnst) virkilega ljúffeng. Þau eru líka sniðug í forrétt ef þið eruð svo grand á því að vera með margréttað. Caprese salatið er auðvitað klassískt og ég býst nú við að flestir þurfi ekki uppskrift að því, en ég ákvað samt að láta það fljóta með. Spínatsalatið með reykta laxinum er í uppáhaldi hjá mér og mér finnast sojaristuðu graskersfræin ómissandi. Ég ætla líka að fara að prófa að búa til asísk salöt við tækifæri og hlakka til að henda þeim inn á bloggið. Ó, og það besta við þessi salöt – lítið uppvask.

SJÁ UPPSKRIFTIR

%d bloggurum líkar þetta: