Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche
Ég er ekki alltaf með á nótunum þegar ég kaupi í matinn. Elmar hefur bent mér á að ég virðist undantekningalaust gleyma einu hráefni þegar ég tíni ofan í kerruna. Og já, ég skrifa innkaupalista en ég virðist líka vera þeim hæfileika gædd að gleyma honum oftast heima. Ekki að það skipti nokkru máli því að ég yfirleitt gleymi að setja eitthvert hráefni á listann og enda því heima bölvandi og ragnandi yfir því að ég þurfi að fara aftur út í búð. Því miður teygir þetta sig líka í eldamennskuna mína. Stundum er það í lagi því hráefnið skipti ekki meginmáli en það kemur líka fyrir að grundvallarhráefni ratar ekki í matinn – eins og þegar mér láðist að salta rísottó (sem ég var búin að nostra við í rúma tvo tíma) sem ég bar svo fram fyrir fimm manns.
Þannig að á þeim dögum sem ég þarf að fara út í búð get ég búist við því að þurfa að fara tvær aukaferðir til að kaupa það sem vantar. Þetta getur verið vandræðalegt þegar sama manneskjan afgreiðir mann þrisvar sinnum á einum klukkutíma.
Við Elmar höfum setið á skrifstofu í Háskólanum í Bergen við sitthvort skrifborðið að vinna að verkefnum. Eða öllu heldur, hann vinnur að þýðingunni sinni og ég þykist vera að undirbúa doktorsverkefnið þegar ég er í raun að skoða matarblogg og ljósmyndir. Þetta þýðir auðvitað að við eyðum dögunum í það að sitja og hreyfa okkur lítið. Ég vildi því búa til léttan kvöldmat í gær og fann þessa uppskrift eftir hetjuna mína Jamie Oliver. Hann mælir reyndar með réttinum í hádegismat en þetta var góður, seðjandi og léttur kvöldmatur fyrir okkur tvö. Kartöflusalatið er örlítið súrt (það er bæði sítróna og edik í dressingunni) og passar afskaplega vel við dillið og rammleika kapersins. Crème fraîche sósan er fersk og vegur upp á móti fitunni í reykta laxinum. Þetta er sumar á diski og ég mæli með þessu með stóru kældu hvítvínsglasi á næsta sólardegi á Skerinu.