3 einföld salöt
Ég er yfirleitt ein í kvöldmat einu sinni til tvisvar í viku. Sem gerir það að verkum að ég hreinlega nenni ekki að elda. Mig langar reyndar alltaf mest í hvítvín og súkkulaði en reynsla (og smá skammtur af skynsemi) hefur kennt mér að ég enda oftast í sykursjokki og með magapínu. Þannig að undanfarið hef ég búið mér til salat þegar ég er ein heima á kvöldin (og fæ mér súkkulaði í eftirmat – mjög fullorðins). Þessi salöt eru öll mjög fljótleg og (að mér finnst) virkilega ljúffeng. Þau eru líka sniðug í forrétt ef þið eruð svo grand á því að vera með margréttað. Caprese salatið er auðvitað klassískt og ég býst nú við að flestir þurfi ekki uppskrift að því, en ég ákvað samt að láta það fljóta með. Spínatsalatið með reykta laxinum er í uppáhaldi hjá mér og mér finnast sojaristuðu graskersfræin ómissandi. Ég ætla líka að fara að prófa að búa til asísk salöt við tækifæri og hlakka til að henda þeim inn á bloggið. Ó, og það besta við þessi salöt – lítið uppvask.
Caprese salat
2 stórir velþroskaðir tómatar
1 stór kúla mozzarellaostur
1 handfylli basilíka
Ferskur pipar
Extra-virigin ólívuolía
Aðferð:
Skerið tómatana niður í sneiðar og raðið á disk. Skerið ostinn niður í sneiðar af sömu þykkt og raðið ofan á tómatana. Rífið niður basilíkulauf og setjið ofan á ostinn. Hellið smá ólívuolíu yfir allan diskinn og malið ferskan pipar yfir salatið.
Spínatsalat með reykum laxi, avókadó og sojaristuðum graskersfræjum
(Örlítið breytt uppskrift upprunalega frá Nigellu Lawson)
1/2 pakki reyktur lax
Ferskur pipar
1 límóna, safi og börkur af helmingnum
1 msk extra-virgin ólívuolía
1 tsk salt
200 g spínat
1 þroskaður avókadó
Hálf lúka graskersfræ
2 msk sojasósa
Aðferð:
Byrjið á því að búa til dressingu. Rífið niður börk af hálfri límónu í litla skál og kreistið safann úr 3/4 límónu. Bætið teskeiðinni af salti út í og hrærið til að leysa upp saltið. Bætið við ólívuolíunni og hrærið aftur vel saman.
Setjið spínatið í skál. Skerið avókadóinn í bita og setjið í skálina með spínatinu. Hellið dressingunni yfir og blandið vel saman.
Skerið/klippið laxinn í munnbitastærðir og dreifið á stóran disk (ég á ekki slíkan disk og blanda þessu öllu frekar saman í stórri skál, það er kannski ekki eins fínt en bragðið breytist ekki). Kreistið safann úr restinni af límónunni yfir laxabitana og sáldrið síðan svörtum pipar yfir.
Færið spínatið og avókadóinn yfir á diskinn.
Pönnusteikið graskersfræin yfir meðalháum hita og hellið sojasósunni yfir þegar fræin fara að springa (sojasósan mun gufa upp hratt). Slökkvið undir pönnunni strax og sáldrið fræjunum yfir salatið.
Fyrir 2
Aragúlasalat með prosciutto og mozzarella
1 stór handfylli aragúla
3 sneiðar prosciutto
1/3 kúla mozzarellaostur
Extra-virgin ólívuolía
Ferskur pipar
Aðferð:
Stráið aragúlalaufunum á disk og klippið parmaskinkuna niður í bita og raðið á diskinn. Skerið eða rífið ostinn niður í bita og dreifið yfir salatið. Hellið smá ólívuolíu yfir allt salatið og kryddið með ferskum möluðum pipar.
Fyrir 1
Svo gott.
Oh, ELMAR! Þú ert ALLTAF fyrstur!
Vá hvað mér finnst þetta samt allt stórkostlega girnilegt hjá þér og ég held mest af öllu er ég sjúkust í salatið með reykta laxinum. Mmmm.
Ég nóta þetta hjá mér fyrir Berlínarreisu ykkar hjóna næsta sumar, mikið hlakka ég til að hitta ykkur næst elsku bestu Elmar og Nanna.
xx
ég les síðar – er þreytt og steikt núna – en ég sá mynd af ískölu hvítvínsglasi og þrái það núna!
Hey Nanna,
Currently with Jesse. He says, „Yo, sup. Your blog is cool and very informative.“
We miss you!
Laxasalatið er alveg æðislega gott.