Tælenskt vatnsmelónusalat
Það er liðinn rúmur mánuður frá því ég setti inn færslu síðast. Ég skammast mín svolítið og vona að fólk haldi ekki að ég sé hætt, því það er ég svo aldeilis ekki. Ég er reyndar búin að vera mikið að heiman þennan mánuðinn og ég hef líka átt erfitt með að finna innblástur til að elda eitthvað nýtt. En nú er ég endurnærð og farin að leggjast yfir uppskriftir og matarblogg af jafnmiklum áhuga og áður. Ég var svo heppin að fá að ferðast til Eistlands til að taka þátt í námskeiði fyrir framhaldsnema í heimspeki og ég var þar í góðu yfirlæti í rúma viku.
Eftir brösulegt ferðalag aftur heim til New York þar sem ég lenti í seinkun á flugi, yfirheyrslu og þröngu miðjusæti þá drifum við hjónin okkur upp í rútu og fórum til Boston þar sem við hittum foreldra og systur Elmars. Að segja að það hafi verið dekrað við okkur þar myndi engan veginn ná að lýsa því lúxuslífi sem við lifðum þessa helgi. Við borðuðum einstaklega góðan mat, skoðuðum borgina og nutum þess að vera saman.
En það er líka gott að vera komin í hversdagsleikann aftur. Elmar er sestur við skrifborðið og skrifar og les af miklum eldmóð og ég er farin að vinna aftur í litlu vafasömu bókabúðinni. New York hefur tekið vel á móti okkur og skartar sínu fegursta. Sólin skín og hitinn er um og yfir 20 gráður, trén skarta fallegum litlum hvítum og bleikum blómum og borgarbúar spássera um í nýuppteknum sumarfötum. Ég nýt þess að geta lagt vetrarkápuna mína til hliðar og er strax farin að plana hvað ég get matreitt til að taka með í lautarferð í Miðgarð um helgina.
Í þessum sumaryl er auðvitað bara við hæfi að fá sér salat í kvöldmat og eftir miklar pælingar ákvað ég að skella mér á tælenskt vatnsmelónusalat úr upppáhaldsbókinni minni eftir Jamie Oliver (Jamie’s Dinners). Ég hef aðeins breytt frá upprunalegu uppskriftinni og birti þá uppskrift hér að neðan. Salatið var einmitt það sem þurfti eftir langan og heitan dag. Vatnsmelónan var svo fersk og blandaðist vel með ostinum og kryddjurtunum, og salatsósan ásamt kóríanderblöðunum gáfu salatinu asískan keim. Vonandi fer sumarið að klekja sig út á Skerinu fagra svo þið getið skorið í salat og borðað út á palli.
Tælenskt vatnsmelónusalat
- 1/4 vatnsmelóna
- 2 handfylli af fersku kóríander
- 2 handfylli klettasalat
- 2 handfylli fersk mynta, laufin plokkuð af stilkunum
- 1 lítið knippi af radísum, skornar í fínar sneiðar
- 1 handfylli af graskersfræjum (eða jarðhnetur eða sesamfræ)
- 120 g fetaostur
- 2 sm langur bútur af engifer, afhýddur og rifinn
- 1 chilialdin, fræhreinsað og skorið í þunnar sneiðar
- 1 msk sojasósa
- 3 msk ólívuolía
- 1 tsk sesamolíu
- safi úr 2 límónum
- sjávarsalt og ferskur malaður pipar
Loksins! Þetta var rosalega gott.
Velkomin til baka elsku besta mín! Ég fékk nú eiginlega bara saknaðarsting við að lesa færsluna þína – ég vildi óska að við Gísli Hrafn værum barasta að spóka okkur með þér í vorinu úti í stóra eplinu frekar en að hýrast inni í rokrassgatinu á fróni! Hlakka til að knúsa þig…styttist óðum!
hírast
;-)