Skip to content

Posts from the ‘Ávextir’ Category

Ananas- og myntuvodka

Ég er svo fegin að vera alveg laus við veturinn, við mýsnar (vonandi!) og sé fram á notalegar, hlýjar og sólríkar vikur áður en við flytjumst búferlum aftur til Íslands. Það er svo margt sem við eigum eftir að sakna héðan að það þyrmir stundum yfir mig. Ég reyni að draga djúpt andann og sætta mig við að ég get engan veginn komist yfir allt sem mig langar að gera, borða, drekka og sjá. Embla Ýr, systir mín, kemur í næstu viku og við ætlum að fara í nokkrar pílagrímsferðir saman.

Með rísandi sól og hækkandi hitastigi má búa til eitthvað með smá hitabeltisþema. Ég tók fram vodkaflöskuna okkar og ákvað að búa til ananas- og myntuvodka. Það er fáránlega einfalt að búa til bragðbættan vodka. Í rauninni má taka hvaða ávöxt sem er (eða chili, eða kryddjurtir) og láta hann liggja í vodkalegi í einhvern tíma – Kristín Gróa bjó til dæmis til þennan girnilega jarðarberjavodka í fyrrasumar. Það er í raun mjög fínt að nota einhvern ódýran vodka í þennan drykk, það er bara frekar kaldhæðnislegt að ódýrasta vodkað í vínbúðinni minni er hið fína íslenska vodka Reyka.

SJÁ UPPSKRIFT

Epla- og engifersorbet

Gleðileg jól!

Hátíðin var stórkostlega notaleg hjá okkur hjónunum og við gerðum vel við okkur með fínum kjötrétti (uppskrift síðar), ostum, rauðvíni og þessum heimalagaða ís. Mér fannst eitthvað svo tilvalið að búa til ís úr hráefni sem ég tengi við jólin – engifer og rauð epli. Ég var búin að einsetja mér að nota ísvélina svo mikið í ár að Elmari gæfist ekki færi á að benda mér á hversu mikil sóun á eldhúsplássi hún væri. Því miður hef ég ekki verið eins iðin við kolann og ég ætlaði mér en því ætla ég að ráða bót á á nýju ári, enda er heimalagaður ís alveg frábært matarfyrirbæri.

Ég dró fram ísbiblíuna mína og fletti þar til ég fann uppskrift sem mér fannst tilvalin. Reyndar blandaði ég saman tveimur uppskriftum þar sem ég átti eina flösku af áfengislausum eplasíder inni í ísskáp og hreinlega tímdi ekki að kaupa hvítvínsflösku til að sulla út í blönduna. Ég tók tvo mild pirringsköst út í Lebovitz og fann mig knúna til að breyta örlítið frá uppskrift. Eitt skref uppskriftarinnar er að þrýsta öllu gumsinu í gegnum síu. Sem væri gott og blessað ef ég ætti heilan lager af alls kyns síum en þar sem ég á bara mjög fína síu þá reyndist þetta verkefni einstaklega seinlegt og erfitt. Ég brá því á það ráð að skella öllu í matvinnsluvélina og blanda síðan saman við sídersírópið. Og það kom sko alls ekki að sök og herðar og hendur voru afar þakklátar fyrir vikið.

Sorbetinn er mjög ljós á litinn, silkimjúkur með mildu epla- og engiferbragði. Við hituðum brownies í örbylgjuofninum og bárum ísinn fram með þeim. Ég er mjög hrifin af því að bera fram svona ferskan og léttan eftirmat eftir mikið af þungum og krefjandi mat. Það hreinsar bragðlaukana og þegar eftirrétturinn er svona léttur þá er alltaf aukapláss fyrir meira. Það er gott að hafa í huga að velja alltaf vel þroskaða, vel ilmandi og fallega ávexti í sorbet. Sorbet gerir lítið annað en að magna bragð ávaxtarins og því er best að passa að ávöxturinn bragðist vel áður en hann er nýttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Heilhveitipönnukökur með banana og valhnetum ásamt soðsteiktum eplum

Við erum svo heppin að fá að njóta haustlitanna í óvenju langan tíma í ár. Veðrið hefur í rauninni verið afar gott og hverfið okkar er skreytt gulu, grænu, rauðu og appelsínugulu laufþaki. Einstaka sinnum rignir laufblöðum og minnir mann á hversu skammvinn þessi fallega árstíð í rauninni er og rekur mann út í daglega göngutúra í allri litadýrðinni. Jólin eru í raun skammt undan og ég á erfitt með að trúa því að Þakkargjörðarhátíðin er handan við hornið.

En eins mikið og mig langar til að vera úti í göngutúrum með myndavélina mína þá blasir sú staðreynd við að lok annarinnar er yfirvofandi og neyðir mig til þess að gera doktorsverkefninu mínu góð skil. Stundum finnst mér þetta allt saman vera aðeins of fullorðins og súrrealískt. Og hvað gerir maður þá? Ég mæli með pönnukökum. Pönnukökur gera allt betra. Þær minna mig á að stundum er gott að vera fullorðin og mega hella úr hálfri sírópskrukku yfir morgunmatinn sinn án þess að nokkur geti sagt manni að gæta hófs.

Ég notaði fínmalað heilhveiti í þessar pönnukökur og hugsa að ég haldi því áfram upp úr þessu. Ekki af því að heilhveiti er hollara en það hvíta, mér er nú alveg sama um það.  Heldur af því að heilhveitið gefur aðeins meira bragð og ég er ekki frá því að það sé lúmskur hnetukeimur af því. Það má auðvitað nota venjulegt heilhveiti í staðinn eða hvítt hveiti ef þið eruð hrifnari af því. Ég hafði keypt tvö epli á markaðinum og fannst þau heldur súr þannig að ég velti þeim upp úr smá sykri og steikti þau upp úr smjöri á pönnu. Þau voru mjög skemmtileg viðbót. Ég stappaði líka einn banana og saxaði handfylli af valhnetum og bætti við deigið og var mjög ánægð með útkomuna.

SJÁ UPPSKRIFT

Eplapönnukökur

Eins og þið hafið örugglega tekið eftir þá er ég búin að gera breytingar á vefsíðunni. Mig var farið að langa í eitthvað stílhreinna, notendavænna og skemmtilegra og er mjög ánægð með útkomuna. Ég opnaði Twitter reikning fyrir mig og bloggið og hægt er að fylgjast með okkur þar. Ef þið eruð ekki skráð á Twitter þá er hægt að fylgjast með því sem ég ,tísta’ þar í dálki hérna til hægri. Ég hugsa að ég sé hætt að fikta í öllu núna og vonandi nýtist þessi uppfærsla mér það vel að ég þarf ekki að koma ykkur aftur á óvart með nýju útliti.

Ég ætlaði að vakna fyrir allar aldir til að komast á bændamarkaðinn áður en barnavagnaliðið mætti á staðinn. Í staðinn voru augun sem límd aftur og ég barðist af mögrum mætti við að setjast upp. Það gekk ekki betur en svo að ég steinsofnaði við tilraunina og var því ekki mætt upp á markað fyrr en seint og sætti mig við það að láta keyra kerrum reglulega í sköflungana á mér á meðan ég verslaði. Markaðurinn er samt svo fallegur þessa dagana, haustuppskeran er mætt og allt litróf grænmetis fyllir viðarkassana hjá grænmetisbóndanum. Mig hefur lengi langað til að taka myndir fyrir ykkur þar en til þess þarf ég að koma mér á fætur mun fyrr. Ég er nefnilega svo hrædd við þessar efnuðu, lífrænt-elskandi súpermömmur og að vera fyrir þeim í allri þvögunni sjáið þið til.

Eplin eru orðin ansi fyrirferðamikil á markaðnum og ég nældi mér í nokkur til að henda í  þennan morgunmat. Þetta eru mjög skemmtilegar pönnukökur. Ég notaði græn epli til að vera með næga sýru sem mótvægi við sætuna í deiginu og útkoman var mjög skemmtileg samblanda af fersku og sætu. Ég reif líka niður smá sítrónubörk og setti út í deigið og það gerði þær jafnvel enn ferskari. Það má líka leika sér með kryddið sem sett er út í. Ég notaði kanil en ég hugsa að ég noti kardemommuduft næst, mér er farið að finnast kanillinn vera aðeins of hefðbundinn með eplum. Þetta er mjög skemmtileg tilbreyting frá hinum klassísku pönnukökum því áferðin er allt önnur og þar sem það er nú komið haust þá tel ég allt eplatengt vera mjög svo við hæfi.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósavíns- og hindberjasorbet

Tölum aðeins um rósavín. Rósavín hefur fengið svolítið slæmt orð á sig fyrir að vera of sætt, of stelpulegt, of bleikt og margir snúa upp á nef sér og fúlsa við drykknum. Það er svo sem allt í lagi. En rósavín er alveg jafn margbreytilegt og allar aðrar víntegundir. Það er til gott rósavín og svo er til rosalega (rosalega) vont rósavín. Ég játa fúslega að ég drekk rósavín endrum og eins og finnst þau stundum m.a.s. mjög góð. Því þurrara sem vínið er því meira slær á sætuna án þess þó að drepa ávaxtakeiminn.

Það má líka búa til sorbet úr rósavíni og hindberjum. Sorbet sem mér finnst mjög frískandi og skemmtilega öðruvísi á bragðið (ásamt því að vera svona líka fallegur á litinn!). Ég á því láni að fagna að sitja ein að fengnum þar sem eiginmaðurinn grettir sig ógurlega í hvert skipti sem ég býð honum upp á kúlu og muldrar eitthvað um að hann hafi lítinn sem engan áhuga á einhverjum rósavínsóskapnaði.

Verið hugrökk, búið til rósavínssorbet!

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrónu- og ricottapönnukökur með bláberjasósu

Ég er orðin svolítið pönnukökuóð. Þær eru bara svo góðar, fallega gylltar og skemmtileg tilbreyting frá vikudagsmorgunmatnum að ég stenst ekki mátið. Það er líka svo notalegt að setjast við drekkhlaðið eldhúsborðið eftir að hafa sofið út og dundað sér  í rólegheitunum í eldhúsinu. Það er komið haustkul í loftið í Brooklyn, vindurinn er farinn að gusta köldu en ekki heitu og það er því ekki kvöl og pína að kveikja á ofninum og standa fyrir framan logana á gaseldavélinni.

Þessi uppskrift er í miklu uppáhaldi hjá mér núna. Sítrónubragðið kemur alls ekki sterkt fram en spilar samt ljúft aukahlutverk og þeyttu eggjahvíturnar gera það að verkum að deigið þarf ekki lyftiduft en afurðin verður samt létt og eilítið loftkennd. Það má annaðhvort hræra ricottaostinn þar til hann blandast alveg inn í deigið (það finnst mér best) eða blanda honum varlega saman við þannig að maður fær stundum upp í sig bita af ricotta. Uppskriftin er fyrir þrjá og ég mæli sterklega með að ef þið eruð að elda fyrir fjóra eða fleiri að tvöfalda uppskriftina. Bláberjasósan kom líka mjög vel út og er góð tilbreyting frá hlynsírópinu (þó það megi auðvitað skvetta smá hlynsírópi yfir líka).

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: