Ananas- og myntuvodka
Ég er svo fegin að vera alveg laus við veturinn, við mýsnar (vonandi!) og sé fram á notalegar, hlýjar og sólríkar vikur áður en við flytjumst búferlum aftur til Íslands. Það er svo margt sem við eigum eftir að sakna héðan að það þyrmir stundum yfir mig. Ég reyni að draga djúpt andann og sætta mig við að ég get engan veginn komist yfir allt sem mig langar að gera, borða, drekka og sjá. Embla Ýr, systir mín, kemur í næstu viku og við ætlum að fara í nokkrar pílagrímsferðir saman.
Með rísandi sól og hækkandi hitastigi má búa til eitthvað með smá hitabeltisþema. Ég tók fram vodkaflöskuna okkar og ákvað að búa til ananas- og myntuvodka. Það er fáránlega einfalt að búa til bragðbættan vodka. Í rauninni má taka hvaða ávöxt sem er (eða chili, eða kryddjurtir) og láta hann liggja í vodkalegi í einhvern tíma – Kristín Gróa bjó til dæmis til þennan girnilega jarðarberjavodka í fyrrasumar. Það er í raun mjög fínt að nota einhvern ódýran vodka í þennan drykk, það er bara frekar kaldhæðnislegt að ódýrasta vodkað í vínbúðinni minni er hið fína íslenska vodka Reyka.