Skip to content

Posts from the ‘Ávextir’ Category

Ferskju- og engifersulta

Ég fékk stóran bakka af lífrænum ferskjum beint frá bóndabæ rétt fyrir utan borgina um daginn. Ég var nýbúin að búa til þessa gómsætu ferskju- og bláberjaböku og var alls óviss um hvað ég vildi gera við tæpt kíló af ferskjum. Ég klóraði mér í hausnum, þreifaði á ferskjunum og ákvað að þær mættu alveg bíða í nokkra daga í viðbót. En svo gleymdi ég þeim. Sem er eiginlega alveg fáránlegt þar sem íbúðin okkar er rétt rúmlega 30 fm og því ætti nákvæmlega ekkert að fara fram hjá mér heima fyrir. En svo fór sem fór og þegar ég rak augun í þær í morgun sá ég að ég þyrfti að gera eitthvað í málunum. Ég ákvað þess vegna (í allra fyrsta skipti á ævi minni!) að búa til sultu. Með hnút í maganum og hausinn fullan af óákveðni skellti ég nokkrum hráefnum í pott og sauð í tæplega hálftíma. Og viti menn! Sultan er ákaflega vel heppnuð. Hún er sæt og bragðmikil og engiferið hitar bragðlaukana eftir að ferskjubragðið hefur leikið sér á tungunni. Ég vildi bara óska að ég gæti sent mömmu minni krukku.   

SJÁ UPPSKRIFT

Ferskju- og bláberjabaka

Það er eitthvað hippalegt við ferskjubökur. Ég veit ekki alveg hvaðan þau tengsl koma en einhvern veginn, í mínum huga, eru einhver órjúfanleg vensl á milli ferskja í böku og hippa. Ef til vill ímynda ég mér að þegar allir vildu elska hver annan (í kannski einum of bókstaflegum skilningi) og reykja ógrynni af grasi þá hafi þessi réttur komið við sögu. En þetta er auðvitað bara tóm vitleysa í mér því að það þarf hvorki að vera hippi né grasunnandi til þess að falla fyrir þessum ávaxtaríka unaði í bökuskel.

Ég hef bakað og fjallað um amerískar bökur áður þar sem ég fór út í nokkur smáatriði og ráðleggingar til að búa til vel heppnaða böku. Það er kannski ekki skrítið að Joy the Baker segi að ,baka sé ást’, því bökuskelin krefst alúðar, þolinmæðar og blíðra handtaka. Í rauninni veltur farsæll árangur bökugerðar alfarið á því að smjörinu í deiginu sé leyft að haldast köldu alveg fram að því að hún er sett í ofninn. Ef maður er með heitar hendur þá er gott að vera með skál af klakafylltu vatni til að kæla hendurnar á milli þess sem deiginu er þjappað saman. Eldhúsið má ekki vera of heitt (viftan var á fullu í sjóðbullandi heitu eldhúsinu mínu) og gott er að fletja deigið út eins langt frá ofninum og pláss leyfir.

Það skemmtilega við þessar bökur (fyrir utan hversu tilkomumiklar og ljúffengar þær eru) er að maður getur sett hvaða ávexti sem er í fyllinguna og fylgt þannig því besta sem er í boði í búðinni eða náttúrunni. Á þessum árstíma eru markaðirnir í New York fullir af ilmandi ferskjum og nektarínum og ég nældi mér í sætustu ferskjur sem ég hef á ævi minni smakkað. Ég ákvað að nota frosin bláber þar sem bláberin í búðinni voru ansi lúin á að líta. Ef þið búið í Reykjavík þá veit ég að Kostur flytur inn ávexti og grænmeti frá New York einu sinni í viku og hver veit nema þið getið gripið girnilegar ferskjur þar og hent í eina svona bökuuppskrift. Ég mæli með því. 

Þessi baka er sigurvegari. Hún er besta baka sem ég hef búið til frá því að ég fór að henda slíkum bakstri inn í ofn. Ferskjurnar voru svo sætar að ég þurfti ekki að nota mikinn sykur (eins og maður þarf oft að gera með epli, perur og rabarbara), bökuskelin var fullkomin og bráðnaði í munni ásamt ávöxtunum. Ég bar bökuna fram með rjóma, þeyttum ásamt vanilludropum og örlitlum flórsykri. Vinkona okkar (hæ Tinna!) sem var í kvöldmat sagðist ekki vera hrifin af bökum en að þessi hafi verið einstaklega gómsæt. Ég kýs að trúa henni því ég get varla haldið aftur af því að stinga gaffli ofan í afgangana sem felast inni í ísskáp.

Ekki vera hrædd. Búið til böku.

SJÁ UPPSKRIFT

Mangó sorbet

Það er ýmislegt sem ég á eftir að sakna þegar við flytjumst yfir ána til Brooklyn – Riverside Park, arkitektúrsins í hverfinu okkar og kúbversku gamlingjanna sem hanga fyrir utan þvottahúsið hlustandi á háværa salsatónlist. En það sem ég á eftir að sakna mest og kvíði eiginlega að flytja frá er Barzini’s. Barzini’s er pínkulítil matvörubúð í eigu fúllyndra bræðra sem nær samt að pakka ótrúlegu úrvali af matvælum, ferskum ávöxtum og grænmeti, mörgum tegundum af bjór og framúrskarandi ostadeild í örfáa fermetra. Og það er alltaf ostasmakk í boði á meðan raðað er ofan í körfuna. En ég hef komist að því að Elmar hefur engan áhuga á að finna hráefni með mér þegar við stígum þangað inn, heldur labbar hann á milli ostabakka með tannstöngul við höndina og raðar í sig. Ef þið hafið verið að fylgjast með síðunni þá vitið þið að ég átti afmæli fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fékk frábærar gjafir og á meðal þeirra var ísvél frá Emblu Ýri, litlu systur minni. Mig hefur langað í þessa blessuðu ísvél í háa herrans tíð og þó hún sé ekki dýr þá átti ég, sökum rýrs fjárhags, erfitt með að réttlæta kaup á henni. Þegar ég labbaði fram hjá Barzini’s um daginn og sá falleg mangó á spottprís, þá stóðst ég ekki mátið og ákvað að vígja vélina með mangó sorbet. Ísinn heppnaðist frábærlega og er hæfilega sætur með ríku og fersku mangóbragði. Ég er sérstaklega hrifin af sorbet í heitu veðri og eftir mat en mér líður eins og þeir hreinsa á mér bragðlaukana. Auðvitað þarf maður ekki að eiga ísvél til að búa til rjómaísa og sorbet en hérna er tengill á síðu sem útskýrir hvernig best er að fara að án ísvélar.

SJÁ UPPSKRIFT

Rabarbara- og bláberjahröngl

Flandur mitt um jarðkringluna heldur áfram og nú er ég stödd í Bergen þar sem Elmar vinnur að þýðingu í sumar. Háskólinn í Bergen hefur útvegað okkur litla en fallega íbúð í miðbænum við Jóhannesarkirkju og ég er yfir mig hrifin af þessum fallega bæ. Ég flaug frá Íslandi eftir stutta heimsókn, ánægð, södd og einstaklega uppgefin. Ég var eins og skopparakringla allan tímann og flakkaði á milli kaffihúsa, heimboða, teita og landshluta. Það er því ekki alltof skrítið að það tók Elmar rúma tvo tíma að koma mér á fætur í morgun (eða a.m.k. reyni ég að telja mér trú um að það sé ekki skrítið).

Pabbi bjó til hátíðarmat kvöldið áður en ég flaug út. Hann matreiddi heiðagæs og grágæs, bjó til frægu kartöflustöppuna sína og hafði rauðvínssósu með. Hundurinn trylltist við villibráðarlyktina að venju og spændi upp gólfið í litlum sprettum á milli þess sem hún reyndi að næla sér í bita. Á einum tímapunkti hvarf hún og ég fann hana inni í búri að sleikja umbúðir af smjöri sem hún fann í ruslinu. Ég tók þær af henni en það hlakkaði í mér að af öllum ,kræsingunum’ í ruslatunnunni skyldi hún hafa valið íslenskt ósaltað smjör.

Ég ákvað að sjá um eftirréttinn enda hafði ég einsett mér að búa til berjahröngl handa fjölskyldunni meðan ég væri á landinu og nú var ekki seinna vænna. Ég var reyndar ekki alveg viss um hvernig þýða ætti enska heitið á þessum ágæta rétti en í Bandaríkjunum kalla þeir þetta ,crumble’  og vísa þannig til deigbitana sem látnir eru bakast ofan á fyllingunni. Það var ekki fyrr en Embla benti mér á að þetta hefði verið þýtt sem ,hröngl’ í matreiðslubók eftir Nigellu Lawson að ég fann viðeigandi heiti.

Þetta er líklega einn einfaldasti eftirréttur sem ég hef búið til og hann býður upp á marga möguleika. Að þessu sinni bjó ég til fyllingu úr rabarbara og bláberjum en ég hef einnig búið til fyllingu úr rabarbara og jarðarberjum og svo hef ég líka prófað fyllingu úr jarðarberjum, brómberjum og hindberjum. En í uppáhaldi hjá mér eru þær uppskriftir sem nota rabarbara og ef ég ætti að velja á milli bláberja og jarðarberja þá myndu bláberin fá vinninginn. Bláberin lita réttinn fallega fjólubláan og eru einstaklega gott mótvægi við súra rabarbarann.

Rétturinn var með alveg hæfilegt magn af sætu og möndlurnar gáfu hrönglinu góðan og sérstæðan keim. Við bárum hrönglið fram með vanilluís en það hefði verið alveg jafn gott að bera það fram með rjóma eða bara leyfa því að njóta sín sjálft (eins og mömmu fannst það best).

SJÁ UPPSKRIFT

Döðlukaka með heitri karamellusósu

Þessi réttur er breskur að uppruna og er kallaður þar syðra ,,sticky toffee pudding“.  Þótt Bretarnir séu nú ekki beint þekktir fyrir góða hefðbundna matargerð (viðhorf sem ég verð bara að vera algjörlega ósammála) þá ætti enginn að geta neitað því að þessi eftirréttur hreint dásamlegur og einstaklega vel heppnaður sem slíkur. Kakan er borin fram heit og er þung í sér og syndsamlega mjúk, karamellusósan er rík og sæt með eilítri seltu. Ég hef reyndar aldrei fengið eins góð viðbrögð við nokkru sem ég hef búið til. Fólk stundi, ummaði og a-aði og diskarnir voru nánast sleiktir.

Ég fékk þá flugu í höfuðið að prófa að búa til útgáfu af þessum eftirrétti þegar við vorum í Boston. Við fórum á mjög góðan veitingastað eitt kvöldið og ég stóðst ekki þá freistingu að panta mér köku til að fullkomna máltíðina. Ég og tengdamamma áttum svo erfitt með að hemja okkur og kepptumst við að dýfa skeiðinni ofan í kökuna og skrapa eins mikið af heitu karamellusósunni með og hægt var.

Þessi eftirréttur verður brátt klassískur á okkar heimili og ég býst við að heita karamellusósan verði einnig kokkuð upp reglulega til að fylgja hversdagslegum vanilluís.

Má bjóða einhverjum í mat?

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskt vatnsmelónusalat

Það er liðinn rúmur mánuður frá því ég setti inn færslu síðast. Ég skammast mín svolítið og vona að fólk haldi ekki að ég sé hætt, því það er ég svo aldeilis ekki. Ég er reyndar búin að vera mikið að heiman þennan mánuðinn og ég hef líka átt erfitt með að finna innblástur til að elda eitthvað nýtt. En nú er ég endurnærð og farin að leggjast yfir uppskriftir og matarblogg af jafnmiklum áhuga og áður. Ég var svo heppin að fá að ferðast til Eistlands til að taka þátt í námskeiði fyrir framhaldsnema í heimspeki og ég var þar í góðu yfirlæti í rúma viku.

Eftir brösulegt ferðalag aftur heim til New York þar sem ég lenti í seinkun á flugi, yfirheyrslu og þröngu miðjusæti þá drifum við hjónin okkur upp í rútu og fórum til Boston þar sem við hittum foreldra og systur Elmars. Að segja að það hafi verið dekrað við okkur þar myndi engan veginn ná að lýsa því lúxuslífi sem við lifðum þessa helgi. Við borðuðum einstaklega góðan mat, skoðuðum borgina og nutum þess að vera saman.

En það er líka gott að vera komin í hversdagsleikann aftur. Elmar er sestur við skrifborðið og skrifar og les af miklum eldmóð og ég er farin að vinna aftur í litlu vafasömu bókabúðinni. New York hefur tekið vel á móti okkur og skartar sínu fegursta. Sólin skín og hitinn er um og yfir 20 gráður, trén skarta fallegum litlum hvítum og bleikum blómum og borgarbúar spássera um í nýuppteknum sumarfötum. Ég nýt þess að geta lagt vetrarkápuna mína til hliðar og er strax farin að plana hvað ég get matreitt til að taka með í lautarferð í Miðgarð um helgina.

Í þessum sumaryl er auðvitað bara við hæfi að fá sér salat í kvöldmat og eftir miklar pælingar ákvað ég að skella mér á tælenskt vatnsmelónusalat úr upppáhaldsbókinni minni eftir Jamie Oliver (Jamie’s Dinners). Ég hef aðeins breytt frá upprunalegu uppskriftinni og birti þá uppskrift hér að neðan. Salatið var einmitt það sem þurfti eftir langan og heitan dag. Vatnsmelónan var svo fersk og blandaðist vel með ostinum og kryddjurtunum, og salatsósan ásamt kóríanderblöðunum gáfu salatinu asískan keim. Vonandi fer sumarið að klekja sig út á Skerinu fagra svo þið getið skorið í salat og borðað út á palli.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: