Döðlukaka með heitri karamellusósu
Þessi réttur er breskur að uppruna og er kallaður þar syðra ,,sticky toffee pudding“. Þótt Bretarnir séu nú ekki beint þekktir fyrir góða hefðbundna matargerð (viðhorf sem ég verð bara að vera algjörlega ósammála) þá ætti enginn að geta neitað því að þessi eftirréttur hreint dásamlegur og einstaklega vel heppnaður sem slíkur. Kakan er borin fram heit og er þung í sér og syndsamlega mjúk, karamellusósan er rík og sæt með eilítri seltu. Ég hef reyndar aldrei fengið eins góð viðbrögð við nokkru sem ég hef búið til. Fólk stundi, ummaði og a-aði og diskarnir voru nánast sleiktir.
Ég fékk þá flugu í höfuðið að prófa að búa til útgáfu af þessum eftirrétti þegar við vorum í Boston. Við fórum á mjög góðan veitingastað eitt kvöldið og ég stóðst ekki þá freistingu að panta mér köku til að fullkomna máltíðina. Ég og tengdamamma áttum svo erfitt með að hemja okkur og kepptumst við að dýfa skeiðinni ofan í kökuna og skrapa eins mikið af heitu karamellusósunni með og hægt var.
Þessi eftirréttur verður brátt klassískur á okkar heimili og ég býst við að heita karamellusósan verði einnig kokkuð upp reglulega til að fylgja hversdagslegum vanilluís.
Má bjóða einhverjum í mat?
Döðlukaka með heitri karamellusósu
Sósan:
- 500 ml rjómi
- 90 g púðursykur
- 2 1/2 msk sýróp (ég notaði Lyle’s Golden Syrup)
Kakan:
- 180 g döðlur, saxaðar
- 250 ml vatn
- 1 tsk matarsódi
- 175 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 55 g smjör
- 150 g sykur
- 2 stór egg, við stofuhita
- 1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C og smyrjið hringlaga bökunardisk (ég notaði 9″ (25 cm) bökumót.
Búið til karamellusósunna með því að hita öll hráefni í meðalstórum potti þar til fer að sjóða, hrærið reglulega til að leysa upp sykurinn. Lækkið hitann þegar suðunni er náð og hrærið stanslaust í 5 mínútur eða þar til sósan límist við skeiðina (þ.e. rennur ekki samstundis af henni).
Hellið helmingnum af sósunni í bökunardiskinn og setjið í frysti. Geymið hinn helminginn af sósunni.
Hitið vatnið og döðlurnar í potti. Þegar vatnið byrjar að sjóða takið pottinn af hitanum og hrærið matarsódanum saman við. Setjið til hliðar en haldið heitu.
Takið fram litla skál og sigtið hveitið, lyftiduftið og saltið út í skálina.
Hrærið vel saman sykrinum og smjörinu eða þar til blandan verður létt og loftkennd. Hrærið eggjunum saman við einu í einu og hrærið síðast vanilludropunum saman við.
Blandið varlega helmingnum af hveitiblöndunni saman við (ekki nota rafmagnsknúna hrærivél, best er að gera þetta með sleif), bætið síðan döðlublöndunni út í og blandið saman. Hellið síðan afganginum af hveitiblöndunni út í og blandið varlega saman þar til hráefnin hafa rétt svo blandast alveg saman.
Takið bökunardiskinn úr frystinum og hellið deiginu út í. Setjið í ofn og bakið í 30 – 40 mínútur (bökunartími er breytilegur eftir stærð á bökunarmóti), eða þar til tannstöngull sem stunginn er í kökuna kemur út með blautri mylsnu á sér.
Leyfið kökunni að kólna í smá stund áður en hún er borin fram.
Takið kökubita upp með skeið og berið fram með heitri karamellusósu. Einnig er hægt að bera hana fram með rjóma eða vanilluís.
Of mikill bakstur, of lítill tími?
Ef þið eruð í tímaþröng er hægt að búa kökuna til deginum áður en hún er borin fram. Bakið þá kökuna án þess að hafa karamellusósuna í botninum á bökunarmótinu. Leyfið kökunni að kólna og hyljið svo vel með plastfilmu. Fjarlægið plastfilmuna ca. 45 mínútum áður en kakan á að vera borin fram, stingið hana 15 sinnum með matarprjóni og hellið helmingnum af karamellusósunni yfir kökuna. Hyljið síðan kökuna með álpappír, stingið inn í 150°C heitan ofn og hitið í 30 mínútur.
Mmmmmm … Wishing I was there!
Jemundur minn eini! Mig verkjar í kjálkana af slefþörf, þetta VERÐ ég að gera fljótlega :O og segi sama og auður, wishing I was there!
Namm! Við Raggi erum orðin klístruð af karamellu
Ég ætla að hafa þessa í eftirmat í bústaðnum á fimmtudaginn..vonandi verður hún eins góð og hjá þér á ágúst :)
Geggjað – gengur þetta ekki undir heitinu Dillonskaka á Íslandi!
Hve lengi á ég að baka kökuna ???
Það stendur í uppskriftinni 30 – 40 mínútur. Bökunartími er alltaf breytilegur eftir ofnum þannig að það er gott að fylgjast vel með kökunni. Það er ágætt að hafa hana svolítið blauta en ekki alveg bakaða í gegn.
Þessi kaka heitir Dillonskaka…..
Þessi kaka er svo í óhugnalega góð að hún verður hér eftir bökuð við hvert tækifæri. Kærar þakkir!
Verði þér að góðu :)
Gerði þessa köku um helgina og hún sló í gegn! Takk fyrir mig:)