Skip to content

Vesturheimsborgari með kartöflubátum

Ég var búin að ákveða að búa til quiche í gærmorgun. Svo ákveðin var ég að ég gerði lúsarleit að quicheformi í Brooklyn og í efri vesturbæ Manhattan. En ég átti ekki erindi sem erfiði. Það er eins og enginn í þessari borg búi til quiche eða hafi áhuga á slíkum formum. Sem ég á reyndar erfitt með að trúa, kannski eru bara allir að búa til franskan mat þessa dagana. Ég kom heim stúrin og ágætlega foj út í heiminn og fór að fletta nýjum uppskriftum í leit að hentugri innblæstri. Eins og svo oft áður tók ég fram bókina Jamie’s Dinners og rakst á uppskrift sem ég hafði merkt við fyrir löngu síðan – hamborgari með kartöflubátum. Elmar var yfir sig hrifinn (enda er hann svolítið kjötsveltur, grey karlinn) og við skrifuðum innkaupalista og fórum í leiðangur í Whole Foods þar sem hálfur heimurinn virtist saman kominn.

Við vorum svo heppin að finna nautahakk frá bónda sem sprautar ekki hormónum í dýrin sín og leyfir þeim að bíta alvöru gras út í haga, án þess að þurfa að borga morðfjár fyrir pundið. Við fylltum kerruna af alls kyns meðlæti, drykkjum og grænmeti og röltum heim í fallegu vorveðri. Við tók mikil eldamennska þar sem við stóðum sveitt yfir pottum og pönnum meðan ofninn hitaði íbúðina meira en æskilegt var. Og útkoman var himnesk! Hamborgarinn hafði sérstakt kúmenbragð og við hlóðum hann með osti, gráðosti, steiktum sveppum, lauk, tómötum, avókadó og (auðvitað) beikoni. Kartöflubátarnir voru fullkomnir, stökkir að utan en mjúkir að innan og sáraeinfaldir í undirbúningi. Og verandi þau heimsklassahjón sem við erum þá var auðvitað drukkið rauðvín með.

Kannski ég og heimurinn förum að finna réttan takt aftur.

Vesturheimsborgari með kartöflubátum

(Breytt uppskrift frá Jamie Oliver: Jamie’s Dinners)

  • 500 g nautahakk
  • 1 laukur, fínt saxaður
  • Ólívuolía
  • Klípa af kúminfræjum
  • 1/2 msk kóríanderfræ
  • Sjávarsalt og malaður ferskur pipar
  • 30 g parmesanostur, rifinn
  • 1/2 msk sinnep
  • 1/2 stórt egg, hrært
  • 3 sneiðar þurrt brauð (helst dagsgamalt), sett í matvinnsluvél og gert að mylsnu
  • 4 hamborgarabrauð

Kartöflubátar:

  • 5 meðalstórar kartöflur, hýðið skilið eftir á og skornar í báta
  • Ólívuolía
  • 4 hvítlauksgeirar
  • Ferskur pipar

Aðferð:

Setjið hakkið í skál. Takið fram stóra pönnu og steikið laukinn yfir lágum hita ásamt ólívuolíunni í ca. 5 mínútur, eða þar til laukurinn hefur mýkst en ekki tekið á sig lit. Blandið lauknum saman við kjötið í skálinni. Takið fram mortél og setjið kúminið og kórianderfræin ásamt klípu af salti og pipar og berjið til þar til allt hefur orðið að dufti. Bætið saman við kjötið og laukinn. Bætið síðan við parmesanostinum, sinnepinu, egginu og helmingnum af brauðmylsnunni. Blandið vel saman. Ef blandan er of klístruð þá má setja meira af brauðmylsnu saman við.

Setjið bökunarpappír á stóran disk og sáldrið smá brauðmylsnunni yfir. Mótið kjötið í fjóra borgasra og setjið þá ofan á diskinn. Sáldrið afganginum af brauðmylsnunni yfir borgarana og ýtið varlega niður á hvern borgara. Borgararnir eru betri ef þeir fá að kælast aðeins áður en þeir eru eldaðir og því er gott að geyma þá í ísskáp í ca. klukkustund.

Það er gott að gefa sér hálftíma áður en byrja á að steikja hamborgarana til að búa til kartöflubátana. Takið fram ofnplötu og leggið bökunarpappír ofan á. Setjið plötuna í ofninn og stillið hitann á 250°C. Sjóðið kartöflubátana í ca. 10 mínútur í söltuðu vatni, hellið síðan vatinu frá. Hitið smá ólívuolíu á pönnu, hvítlauksgeirana á pönnuna og bætið síðan kartöflubátunum saman við. Steikið báðar hliðar kartöflubátanna og kryddið með ferskum svörtum pipar. Færið síðan kartöflurnar og hvítlaukinn á heita ofnplötuna og bakið í ofni í 20 til 25 mínútur eða þar til kartöflurnar eru gylltar og stökkar.

Takið borgarana út úr ísskápnum og steikið þá í smá ólívuolía yfir meðalháum hita í ca. 8 til 10 mínútur (fer samt eftir því hversu feitir þeir eru og hversu vel steikta hver og einn vill hafa þá). Berið þá fram á ristuðu hamborgarabrauði með tómatsósu og kartöflubátunum. Setjið uppáhaldsáleggið ykkar á hamborgarann eða sjáið uppástungur að ofan.

Gerir 4 hamborgara

9 athugasemdir Post a comment
  1. Ottó #

    Ég held ég hafi slefað smá.

    08/05/2011
  2. Auður #

    Þú ert alveg keppnis Nanna Teits!

    08/05/2011
  3. Teitur #

    Ég er til í einn svona hammara

    08/05/2011
  4. Inga Þórey #

    Ég geri stundum quiche í bara hringlóttu smelluformi og að svínvirkar :-)

    10/05/2011
    • Já mér datt nú í hug að það myndi virka en mig langaði svo til að gera hefðbundna quiche til þess að taka fallegar myndir.

      Svona er ég orðin plebbaleg ;)

      10/05/2011
      • Inga Þórey #

        Þú getur prófað og séð hvort það sé myndatökuhæft ;-) Ég hef bara opnað smelluformið og smellt kíssinu á kökudisk og það er bara ekkert ljótt! :-D

        17/05/2011
  5. Plebbinn ég keypti quicheform um daginn og mun setja inn uppskrift að einhverju gómsætu bráðlega ;)

    17/05/2011
  6. Heidrun #

    Almáttugur, ég var að enda við að elda og sporðrenna þessum – og þó hann hafi nú ekki verið eins lekkó og á myndinni, þá hef ég aldrei smakkað annað eins! Minn heittelskaði, sem er mikill áhugamaður um hamborgara, staðfesti að þetta væri besti borgari sem hann hefur smakkað! Takk fyrir mig :)

    29/06/2012
    • Verði ykkur að góðu :) Við erum einmitt alveg sjúk í þennan borgara með FULLT af meðlæti.

      30/06/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: