Smákökur með stórum súkkulaðibitum og sjávarsalti
Ég veit. Þetta blogg er þegar smekkfullt af súkkulaðibitakökum (sjá til dæmis hér, hér, hér og hér). Málið er bara að þegar ég sé svona girnilega uppskrift þá stenst ég ekki mátið. Ég elska súkkulaðikex svo mikið að ef ég baka það ekki sjálf þá fer ég að kaupa einhverja algjöra vitleysu út í búð, fullt af aukaefnum og drasli. Þessar súkkulaðibitakökur eru dásamlegar – salt og súkkulaði passa einstaklega vel saman. Þær eru mjúkar í miðjunni, stökkar á endunum og eru fljótar að klárast.
Smákökur með stórum súkkulaðibitum og sjávarsalti
(Uppskrift úr Bon Appétit, janúar 2013)
- 190 g [1.5 bolli] hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 1/4 tsk matarsódi
- 115 g smjör, við stofuhita
- 120 g [3/4 bolli] ljós púðursykur
- 100 g [1/2 bolli] sykur
- 30 g [1/4 bolli] flórsykur
- 2 eggjarauður
- 1 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 240 g dökkt súkkulaði, saxað í fremur stóra bita
- Maldon salt eða annað gróft sjávarsalt
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C/375°F. Setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur.
Hrærið saman hveiti, lyftiduft, salt og matarsóda.
Þeytið smjörið saman við sykurinn (alla þrjá) í hrærivél þar til blandan verður slétt og ljós á lit, ca. 4 mínútur. Hellið eggjarauðunum, egginu og vanillunni út í og þeytið vel, ca. 4 mínútur. Hellið hveitblöndunni út í og þeytið á hægum hraða þar til hveitið hefur blandast saman við (ekki ofþeyta!). Takið skálina frá hrærivélinni og setjið súkkulaðið út í. Blandið súkkulaðibitunum vel saman við deigið með sleikju eða sleif.
Setjið rúma 1 msk af deigi í einu á ofnplöturnar og passið að hafa 2 sm bil á milli. Sáldrið smá sjávarsalti yfir.
Bakið inni í ofni í 10 – 12 mínútur, eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar á endunum (þær eiga eftir að harðna meira þegar þær kólna). Snúið plötunum eftir 5 mínútur ef ofninn bakar ekki jafnt.
Leyfið að kólna í smá stund á plötunum og flytjið síðan smákökurnar yfir á grind til að kólna alveg. Borðið samt nokkrar áður en þær kólna.
Gerir ca. 24 smákökur
Namm hvað þessar líta vel út! Ég hef einhverntímann einmitt gert smákökur með eggjarauðum einungis og ég held að það geri hugsanlega alveg gæfumuninn..
Vá – þessar eru svakalega girnilegar, best að bookmarka fyrir betri tíma :)
Ég elska að blanda söltu og sætu saman.
Kemst næst Subway-smákökunum, af þeim sem ég hef prófað hingað til. Takk fyrir mig!
Þessar eru ÆÐI! Takk fyrir mig :-)
Frábært! Ég bakaði misheppnaðar smákökur um daginn sem enduðu í ruslinu og ég sá mikið eftir því að hafa ekki bara bakað þessar aftur :)
Er með þessar í ofninum núna, hlakka til að smakka :) Takk
Er að smakka. ÞÆR ERU ÆÐI!!! :)
Jess! Oh það er svo gaman að fá þetta í beinni :) Njóttu vel!
Hvernig súkkulaði notar þú? Ég var ekki búin að átta mig á hvað það á að vera mikið af súkkulaði í uppskriftinni !!! svo ég var með 100gr af 70%, 100 af 86% og restina danskt suðusúkkulaði ;)
úps, ýtti óvart á send. Kökurnar runnu mikið út, eru þunnar og stórar EN góðar :) Alls ekki eins og þínar sem virðast vera svolítið þykkar ??
Já mínar voru frekar þykkar en samkvæmt upprunalegri uppskrift þá eiga þær að fletjast svolítið út og vera þynnri – þannig að þær kannski heppnuðust betur hjá þér. Ég notaði aðallega 60% súkkulaði í mínar en átti smá 53% sem fór líka með.