Skip to content

Espressó-smjörkex með súkkulaðibitum

Skólaárið 2008-2009 bjó ég í Edinborg. Ég gekk í háskólann þar, lauk mastersprófi og skottaðist um þessa ævintýralegu borg. Á þessu stórskemmtilega ári borðaði ég fullt af haggis og Arranosti, drakk ógrynni af bjór, öli og viskíi, las Hume spjaldanna á milli og kynntist yndislegu fólki á milli þess sem ég nagaði neglurnar niður að kviku í skólastressi og ritgerðardrama. Ég hélt mér gangandi í lokaritgerðarsmíðum með svörtu mjólkurtei og ,shortbread’kexi. Ég kláraði ritgerðina í tíma en þurfti að kaupa mér ný föt eftir allt blessaða smjörátið. Eftir á að hyggja var það samt algjörlega þess virði.

Smjörkex er mín íslenskun á orðinu ,shortbread’. ,Short’ vísar til ,shortening’ eða feiti en kexið er alveg smekkfullt af smjöri. Sem gerir það að verkum að það bráðnar á tungunni og rennur ljúflega niður. Ég hef áður reynt að búa til þessar smákökur en mér mistókst alveg hrapalega þar sem deigið er frekar sérlundað og getur látið illa að stjórn. Best er að kæla það mjög vel (a.m.k. 2 tíma í ísskáp) og fletja það síðan varlega út. Ef hamast er á deiginu með kökukeflinu þá liðast deigið bara í sundur og óviðráðanlegar sprungur myndast. 

Kexið mitt var kannski ekki fallegasta útgáfan af því (svona miðað við það sem ég hef séð á öðrum matarbloggum). En það er óbrennt, bráðnar í munni og skilur eftir sig unaðslega bragðblöndu af kaffi, súkkulaði og smjördeigi. Svo finnst mér líka allt í lagi að heimaafurðir baksturs séu svolítið ófullkomnar á að líta. Við erum nú ekki að fara að selja þetta í bakaríi eða innrita í útlitssamkeppni. Er það nokkuð?

Espressó-smjörkex með súkkulaðibitum

(Breytt uppskrift frá smitten kitchen)

 • 1 msk instant espressóduft
 • 1 msk sjóðandi heitt vatn
 • 225 g smjör, ósaltað og við stofuhita
 • 85 g flórsykur, sigtaður
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 250 g hveiti
 • 120 g dökkt súkkulaði, saxað smátt

Aðferð:

Blandið espressóduftinu saman við sjóðandi heitt vatn. Setjið til hliðar og leyfið að standa þar til það verður volgt.

Þeytið saman flórsykur og smjör í hrærivél (eða með handþeytara) í 3 mínútur á meðalhraða, eða þar til blandan verður mjúk, kekkjalaus og slétt áferðar. Þeytið vanilludropum og espressó saman við. Stillið vélina á lægstu stillingu og þeytið hveitinu saman við, fylgist vel með og stoppið vélina strax og hveitið hefur gengið inn í deigið. Ekki þeyta deigið of mikið á þessum tímapunkti! Takið fram sleikju og blandið súkkulaðibitunum varlega saman við. Deigið á að vera mjúkt og klístrað.

Setjið deigið á hveitistráðan flöt og þjappið því saman í lítinn ferhyrning. Vefjið plastfilmu þétt utan um deigið og setjið í ísskáp. Geymið í a.m.k. 2 klukkutíma (deigið geymist í ísskáp í allt að 2 daga).

Stillið grindurnar í ofninum þannig að þær skipta honum í þrjá hluta og stillið ofninn á 160°C. Setjið bökunarpappír á 2 bökunarplötur og setjið til hliðar.

Takið deigið úr ísskápnum og leggið á hveitistráðan borðflöt. Fletjið deigið út með kökukefli í 24 cm x 28 cm ferhyrning sem er rúmlega 1/2 cm á þykktina. Takið fram reglustiku og skerið deigið í 2 cm x 2 cm stóra ferninga. Flytjið bitana yfir á bökunarplöturnar. Notið gafall til að búa til göt á hvern bita, þrýstið gafflinum tvisvar sinnum varlega niður á hvern bita þar til hann fer í gegn.

Bakið í 18 til 20 mínútur. Flytjið neðri plötuna yfir á efri grindina og öfugt eftir 10 mínútur af bökunartímanum. Smjörkexið á að vera fölt á litinn, þ.e. það á ekki að dökkna mikið.

Leyfið kexinu að kólna alveg áður en það er borið fram.

Gerir 42 kex

4 athugasemdir Post a comment
 1. Vilborg #

  Er ekki líka hægt að rúlla deiginu upp, kæla og skera svo niður í mátulega þykkt, gera síðan göt með gaffli og baka? Þessi uppskrift er mjög lík einni sem ég geri fyrir jólin (fyrir utan kaffið) og heitir einfaldlega Súkkulaðibitakökur :)
  Takk fyrir skemmtilegt og fræðandi blogg og bestu kveðjur að heiman,
  Vilborg

  22/08/2011
  • Jú það er alveg einstaklega sniðugt! Ég prófa að gera það næst. Takk fyrir góða ábendingu og fallegt hrós :)

   22/08/2011
 2. Elfa #

  Ég bakaði þessar í gær, það er gott að geta sameinað það ást mína á súkkulaði og kaffi í þessum gómsætu kökum!

  31/08/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Smákökur með stórum súkkulaðibitum og sjávarsalti | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: